The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

tirsdag, september 30, 2003

Að eiga sér sálufélaga

Ég á mér sálufélaga. Eða kannski á ég ekki að kalla það sálufélaga heldur manneskju sem þarf að fá allt eins og ég á sama tíma, á við sömu vandamál að stríða, kaupir sér eins föt og ég, skrautmuni og hefur sömu lífsskoðanir og framtíðarsýn. Þessi manneskja er ekki draumaprinsinn minn eða sá sem ég er að pæla í núna. Nei, þetta er nefnilega ekki strákur, þetta er stelpa. Þetta er hún Jenný Halla.
Við erum svo eins að á sunnudaginn vorum við að spjalla á msn. Kemur þá í ljós að Jenný fór til að kaupa sér skáp á föstudaginn sem ég var líka að pæla í að kaupa. Ég fór einmitt líka á föstudaginn til að tékka á honum. Sko sama, dag! Þetta fannst okkur alveg ótrúlegt, nema að ég bara gat ekki ákveðið hvort ég vildi hann og núna er hann búinn.
Við erum líka svo eins að einn daginn síðasta vor, áður en við fórum til Danmerkur, vorum við alveg eins klæddar, alveg óvart. Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar Jenný labbaði upp stigaganginn í gallapilsi, alveg eins og ég, í græna vestinu sínu, sem ég á alveg eins, bara með ermum og hvítum bol undir, laveg eins og ég. Þetta fannst okkur rosaleg hlægilegt.
Annað dæmi má nefna. Það var þegar við vorum búnar að vera aðskildar í næstum tvo sólarhringa í Danmörku í sumar, þegar foreldrar okkar voru. Svo komu þau til okkar upp í sumarbústað og pabbi brunaði til Frederikssund til að sækja þau á lestarstöðina. Ég var búin að ákveða að þegar Jenný kæmi út úr bílnum ætlaði ég að segja "Halleluja". Svo gerði ég það og Jenný neyddist til að segja "Dav, dav Flemming" en svo bætti hún við "oho, ég var búin að ákveða að segja Halleluja". Þetta fannst okkur rosalega fyndið.
Stundum finnst mér þetta óhuggulegt. Að þekkja manneskju sem er alveg eins og ég nema bara með brúnt hár og blá augu. Svo náttúrulega þurftum við að kaupa okkur allt eins í sumar, eins skó, eins nærföt og það var alltaf rosa vesen að flokka þvottinn. Svo börðumst við um sumar flíkurnar inn í H&M út af því að báðum langaði í en við vildum kannski ekki kaupa alveg eins alltaf.
Við erum líka svo eins að við eigum báðar bræður sem eiga það til að ráðast á okkur svona í tíma og ótíma, kítla og stríða. Ég held samt að Ragnar sé svona farin að slaka á bardögunum við Jenný, en ég þarf að búa við þetta ennþá.
Já, svona getur þetta verið. Að vera eins og einhver annar!



lørdag, september 27, 2003

Það sem gerir Ingridi glaða

Viti menn!! Ég rambaði óvart, bara alveg óvart inn á einhverja bloggsíðu áðan hjá einhverri stelpu. Ástæðan fyrir því var sú að hún heitir Jóhanna Ósk, og sem snöggvast datt mér í hug að þetta væri kannski Fífla J, ég meina hún gæti alveg verið með bloggsíðu. En fljótt kom í ljós að þetta var einhver önnur Jóhanna Ósk.
Þar var hlekkur á The King´s Singers. Ohoo, ég byrjaði öll að titra. Fór inn á síðuna og hlustaði á nokkur brot af þeim lögum sem þeir hafa tekið. Þetta eru bara algerir snillingar. Þeir eru allir með svo flottar raddir. Kom þá í ljós að þeir hafa ekkert tekið bara dægurlög og útsett þau á klassískan hátt fyrir raddir heldur taka þeir alvöru klassísk lög og kannski mest barrokk. Diskurinn sem ég á með þeim, eða öllu heldur sá sem ég skrifaði hjá Fjólu, er Bítladiskur. Þar taka þeir nokkur Bítlalög og útsetningarnar eru hrein og klár snilld. Flest lögin eru sungin í Barrokk stíl og sum laganna útsett sem polyfónísk lög. Samt er alltaf þessi rokk og popp fílingur til staðar. Og það að geta gert þetta allt í einu er einmitt snilldin við þennan sönghóp.
Þetta gerði mig óneitanlega mjög svo glaða.



fredag, september 26, 2003

Daginn

Mér datt nú enginn skemmtilegri fyrirsögn í hug. Núna er föstudagur og ég er orðin ansi þreytt. Samt nenni ég ekki að far að leggja mig, það er tímaeyðsla svona á daginn og ég nenni heldur ekki að eyða enn einu kvöldinu hérna inn í herberginu mínu. Ég er alltaf inni í þessu herbergi, annaðhvort við píanóið eða tölvuna að hlusta á tónlist, downloda tónlist eða að skrifa verkefni og ritgerðir. Ef ég er ekki inni í þess herbergi er ég ekki heima. Svo einfalt er það og nú nenni ég ekki bara að sitja hérna. Mig langar að gera eitthvað. Hver vill koma í bíó? Kannski að ég hói bara saman á söngæfingu eða eitthvað, það væri nú gaman og þá gætum við borðað nammi og drukkið kók þegar við höfum lagt línurnar fyrir veturinn. Á morgun er svo stefnt á partý úti á landi, nánar til tekið á Álftanesi. Það verður nú gaman.
Ekkert hefur heyrst frá Bjórbandinu. Bæði ég og Jenný erum búnar að senda þeim bréf og panta disk hjá þeim og þá sérstaklega "Country Roads". Okkur var lofað á Strikinu bara núna í águst að við fengjum sér skrifaðan disk með Country Roads. Við sögðumst ætla að senda e-mail en ekkert svar fengið. Þetta þykir mér lélegt. Ég meina, ef menn ætla að verða frægir þá verða þeir að sinna því. Hvort þeir eru uppteknir í einhverju námi skiptir engu máli. Þeir eru orðnir átrúnaðargoð margra. Út um allan heim.
En núna verð ég víst að fara í saxtíma.



onsdag, september 24, 2003

Í skólanum, í skólanum....

Núna sit ég hér í eyðu uppi á Miðgarði. Reyndar á ekki að vera eyða....róleg ég er ekki að skrópa, því það er skólafundur á sal og þar sem ég ætla að útskrifast um jólin nenni ég ekki að mæta á svoleiðis samkomur. Í gær var ég hins vegar skipuð, af sjálfri mér og öðrum, í starf fulltrúa nemenda í skólaráði í TSDK. Lít ég á þetta sem mikinn heiður að vera valin og mun ég beita mér fyrir réttindum nemenda og bættri aðstöðu og fjárveitingum til nemenda...og blablablabla. Allavegana, þetta verður mjög svo skemmtilegt skólaár og nóg um partý...og...já tónlist.
Ég var að skoða e-mail sem ég tími ekki að eyða inni á pósthólfinu mínu. Þessi e-mail voru send af fjölskyldu minni í sumar. Ég vil leyfa mér að segja að þetta séu falleg bréf og held ég að við svona aðstæður þ.e. að sakna ástvina sinna, kemur fram sá allra auðmjúkasta mannvera í manni. Öll bréfin byrja á "Sæl elskan mín" eða "það var æðislegt að uppgötva að ég hafði fengið bréf frá þér" og öll enda þau á "Skemmtu þér nú vel en farðu varlega og bið að heilsa Jenný". Í hverju einasta bréfi frá mömmu taldi hún dagan þangað til þau kæmu út. Ég hlakkaði alltaf meira og meira til þess að hitta þau aftur enda var það æðislegt þegar ég sá bílana keyra niður Veksövej. Mér leið eins og 6 ára aftur, í stofuglugganum á Búðarbrautinni að bíða eftir að sjá bíl ömmu og afa eða Elsu Nínu og Jónasar koma keyrandi niður Miðbrautina. Svo kom Eggert hlaupandi upp töppurnar, stökk upp um hálsinn á mér og sagði "Jess, ég var fyrstur til að sjá hana".
Þetta var líka alveg rosalega skemmtilegt. Ég og Jenný höfðum gert allt svo fínt í íbúðinni og ítölsku pítsurnar biðu eftir öllu fólkinu. Allir kysstu alla og voru svo glaðir.
En það er kannski einmitt svona sem maður uppgötvar hlutina um umhverfi sitt. Þegar maður er ekki þar.



søndag, september 21, 2003

Loksins meira úr dagbók Danmerkur

2003-07-20

Í dag er akkúrat mánuður þangað til við förum heim. Sækó, eins og Jenný segir alltaf.

Nú er ég búin að eyða helginni eða síðasta sólarhring hjá Else og Ivan í sólinni og hitanum. Sólin og hitinn hefur reyndar verið hér líka en ég hugsa að ég hafi fengið of mikið af sól því nú er ég orðin hálf veik, illt að kyngja og beinverkir.

Ég undra mig stundum á því af hverju maður sækist svona mikið eftir sól. Jú, auðvitað, þið hafið öll svarið við þessu á reiðum (reyðum) höndum. Við viljum verða brún. Þetta er sérstaklega mikið vandamál hjá stelpum. Við sækjumst eftir sem mestri sól og við getum og reynum að verða svo brúnar sem við getum. Við þurfum að breyta um stellingar til þess að verða jafnt brúnar yfir allan líkamann. Við viljum ekki hafa för, förum þessvegna úr brjóstahaldinu eða toppnum eða tökum hlírana niður, allt til þess að fá ekki för og verða brúnar á sem stærstum hluta líkamans. Til þess að fara nú nákvæmlega eftir leiðbeiningum glanstímarita og læknabæklinga berum við á okkur sem mesta sólarvörn því ekki viljum við verða skaðbrendar þegar við förum á djammið í mini-bolunum okkar og mini-pilsunum. Ekki nóg með það að við viljum verða brúnar til að líta sem best út í flottasta átfittinu okkar, við verðum líka að klæðast nýtískulegustu baðfötunum og líta sem best út í sólbaði, með flottustu sólgeraugun og flottustu hárgreiðsluna.
Það að verða brún er ekki það eina sem við höfum upp úr krafsinu. Ef við förum í sólbað á sem fjölmennasta staðnum, sem er nú reyndar bara Nauthólfsvíkin í Reykjavík en ströndin í útlöndum, höfum við tækifærið á því að vekja sem mesta eftirtekt karlkynsins. Þ.e.a.s. ef við erum flottar.
En það er nú ekki eini fylgikvilling, ef kvilla skildi kalla. Ábyggilega fæstir sem myndu gera það. Annar fylgikvillinn, og það er kvillinn, er það sem nú hefur komið fyrir mig.
Eftir mánaðaþörf fyrir sól og hita (og sólarbrúnku auðvitað) hef ég fengið mig fullsadda af sól og hita. Hitinn er nú svo mikill að við getum ekki sofið heila nótt, ég get ekki notað skóna mína sem er mjög slæmt fyrir skóskjúka kvennkyns manneskju, og nú er ég komin með beinverki. Ég er nokkuð pottþétt á því að ég sé einfaldlega með sólsting. Ég sit núna upp í sófa, veit ekki hvað ég á að gera af mér (fyrir utan að skrifa ýmindaða blaðagreina) með beinverki og hálfgerða hálsólgu og uppgefinn eftir að hafa gert ekki neitt í dag. Allt út af því að mig þyrsti í sól og sumaryl, of mikinn sumaryl og varð að verða brúnnni og brúnnni.
En af hverju þurfum við að verða brúnnni en allt. Erum við í keppni við einhvern? Kannski það gæti bara einmitt verið málið að við erum í stöðugri keppni við aðrar konur. Við verðum að vera brúnni en þær. En hvað höfum við upp úr þessari keppni? Hvenær náum við í mark, hvenær sigrum við þessa keppni? Jú, er það ekki bara keppni um athygli karlkyndarinnar. Vinnum við þá kannski þegar við höfum hreppt eina karlkynd. En þegar hinar, allar hinar hafa hreppt eina líka? Hvað þá? Hafa þær líka unnið eða snýst þetta um að fá sem flottasta og besta karlmanninn? Ég held samt að það sé álitamál hver sé flottari en annar, því það er okkar tilfinning en ekki annarra sem ræður því hvern við veljum. Ég held það sé einmitt það sem okkar áhyggjur snúast um. Þ.e.a.s. keppnin um að vera sem flottust (í flottustu fötunum, mest sólbrún og allt það). Að næla í þá karlkynd sem okkur finnst flottust. Það er það sem við keppum um. Við vitum jú aldrei hvaða tilfinningu fyrir karlkyndum aðrar kvennkyndur hafa. Aðrar gætu jú verið eftir þeim sama og við. Ekki satt?



onsdag, september 17, 2003

Strætó...alltaf gaman

Þetta ætti að vera slagorð Strætó bs. Sérstaklega af því að það er svo gaman. Það er svo æðislega gaman að maður er stundum alveg að frjósa úr kulda þegar maður loksins kemst upp í strætó eða að maður mætir of seint einhversstaðar út af því að maður hefur a. misst af strætó, b. beðið svo lengi eftir strætó eða c. þurft að skipta og þurft að bíða eftir næsta í 15 mín.. Allt þetta er svo æðislega skemmtilegt.
Nú hefur einmitt einn snillingurinn komið með þá hugmynd til að bæta strætókerfið, sem ég skil eiginlega ekki af hverju þarf, það er svo frábært, að gefa framhaldsskólanemendum ókeypis tvær ferðir á dag með strætó. Þetta væri gert til þess að koma í veg fyrir að allir hlaupi 17 ára gamlir, rosa ánægðir, nýkomnir með bílpróf og kaupa sér bíl. Þetta gera nefnilega allir út af því að það er svo dýrt að ferðast með strætó. Þetta kemur allt vel heim og saman. Það er miklu ódýrara að kaupa sér bíl heldur en að taka strætó. Það að fá tvær ferðir á dag með strætó myndi laga þetta allt saman. Allir myndu hugsa: hey! það er miklu ódýrara að ferðast með strætó heldur en að kaupa sér bíl ef ég fæ tvær ferðir á dag ókeypis, sem kannski væru ekkert á þeim tímum sem skólinn minn byrjar eða er búinn! Allir munu hlaupa og fá sér sérstök skólaskírteini til að framvísa tvisvar á dag í strætó, út af því að það er svo skemmtilegt að ferðast með strætó. Sérstaklega út af því að það er svo gaman að bíða í íslensku veðri eftir strætó á mestu umferðargötu Íslands, svangur og þreyttur, pirraður og stressaður yfir öllu sem á eftir að gera þann daginn, sem gengur alveg á klukkutíma fresti. Svo er náttúrulega bara líka hægt, sem er alveg magnað, að taka annan strætó sem gengur alveg gífurlega oft á klukktíma, á 20 mín. fresti, og skipta svo á næstu skiptistöð í annan strætó sem gengur leiðina á næsta áfangastað, en sem kannski passar ekki við hinn strætóinn og er farinn á undan. Þetta er svo afskaplega yndislegt, sérstaklega þar sem maður veit að út í heimi er hægt að taka strætó sem gengur á 5-10 mín. fresti allan daginn. Pæliði hvað það væri leiðinlegt, maður mætti aldrei bíða eftir strætó og það væri kannski alltaf sæti fyrir mann á mestu álagstímunum.
Ég segi því, verndum skemmtilega strætó kerfið okkar. Það er svo gaman í strætó!!



torsdag, september 11, 2003

Aldurinn er afstæður

Í dag fór mamma í Krónuna í Húsgagnahöllinni. Þar sem hún beið í röðinni við kassann heyrði hún að strákurinn sem var að afgreiða við kassann var að spyrja viðskiptavinina sem voru á undan henni þessarar spurningar: "Atliðá Milluballiðálaugadæinn?" Mamma hugsði sem svo að þetta væri eitthvað Mylluball og Krónustarfsmenn væru boðnir eða eitthvað í þá áttina og þetta var sem sagt starfsfólk sem hann var að afgreiða. Alveg eins hefði þetta getað verið einhver sem hann þekkti. Þegar að kom að mömmu sagði strákurinn aftur "Ætlaru á Milla ballið á laugardaginn?". "Ha" svarar mamma og skilur eiginlega ekki af hverju hann er að spyrja hana. Aftur endurtekur stráksi "Ætlaru ekki á Milla ballið á laugardaginn á Broadway?" "Já, nei ætli það" svarar mamma. Enn spyr strákurinn:
-Hvað á ekki að koma og dansa við okkur unga fólkið?
-Ha, segir mamma, ykkur unga fólið? Ég veit nú ekki betur en ég tilheyri þeim hópi!
-Ha, já, segir strákurinn og verður dálítið vandræðalegur, ja..hvað helduru að ég sé til dæmis gamall?
-Ja, þú ert svona á svipuðum aldri og ég, segir mamma, þú ert svona tvítugur.
-Ha, strákurinn verður enn vandræðalegri, já helduru það, nei í alvörunni hvað helduru að ég sé gamall?
-Jú, segir mamma aftur, þú ert svona um tvítugt.
-Já helduru það í alvörunni, segir strákurinn upp með sér, já ég er sko fæddur ´87.
-Já einmitt, segir þá mamma, þú ert einmitt jafn gamall og ég.
-já, já hehe, segir strákurinn, hva...ertu nokkuð í Versló, ég er í Versló.
-Nei, segir þá mamma, ég er í MH.
-Jahá, segir strákurinn voða hrifinn og hress, ert þá að fara á ball í kvöld?
-Busaballið, já auðvitað, svarar mamma, góð með sig að vera vel inní málunum.
-Já, ég líka, segir þá strákurinn og kallar á eftir henni þegar hún er að fara af stað frá kassanum, við sjáumst þá í kvöld!



søndag, september 07, 2003

Dav

Mig langar aftur til Danmerkur. Mig langar aftur að liggja í rauða sófanum með kók og ekki hafa áhyggjur af neinu. Mig langar aftur til að sitja á Strikinu með ís og hlusta á hið nú sígilda Bjórband, (lesið endilega bloggið hennar Jennýjar í dag, það útskýrir allt, eða lesið Moggann í dag á bls. 48).
En nei, hér sit ég með bók fyrir framan mig, sem ég las um jólin og man eiginlega ekkert almennilega hvernig endaði, og á að segja frá henni á morgun í viðtali við einn íslenskukennara. Einnig er ég með stórt samviskubit yfir því að hafa ekkert unnið í Ísraelssamvinnufyrirlestrinum í sögu. Eilífa stressið, og einnig virðist ég ekki merkilegri en það meðal tónlistarkennara minna en það að ég mæti algerum afgangi í niðurröðun í stundatöfluna. Þannig að ég bara veit ekkert hvort þetta gengur nokkuð upp. Og ég er heldur ekki viss hvort ég nái þessu fimmta stigi um jólin vegna duldra mótmæla nýja píanókennarans. Ég ætla bara að flýja af landi brott bráðum.

...eða nei annars. Þá yrði Jenný alveg svakalega sár út í mig, svo ekki sé talað um fjölskylduna. En ég segi nú bara svona. Einhverntíman mun ég reyna fyrir mér í Danmörku. En þangað til verður gamla góða Ísland að duga. Svo lengi sem ég næ að klára þetta stúdentspróf um jólin er ég ánægð. Þá ætla ég að stofna hljómsveit og verða fræg.....þar hafiði það....HAHAHAHA!!



onsdag, september 03, 2003

Búðarbraut 8b


Þegar ég var lítil stúlka í Búðardal (núna er ég ung stúlka í Reykjavík) byggði pabbi handa mér og Hibbu, kofa. Kofinn var burstabær með tveimur burstum, þremur gluggum og einni dyr. Það sem var einna skemmtilegast við kofann var að hann stóð upp við grindverkið, þannig að maður gat klifrað upp á grindverk og klifrað svo upp á þak á kofanum. Maður gat staðið á milli brustanna og helt vatni niður á milli platnanna þannig að það kom rigning inni í miðjum kofanum, mitt á milli stofunnar og eldhússins. Svo var einnig hægt að vera uppi á þaki með garðkönnu (úðakönnu) fulla af vatni og sá sem stóð á stéttinni fyrir neðan fór í snögga sturtu á meðan sá sem var uppi á þaki stjórnaði sturtuhausnum.
Ég bað mömmu mína og ömmur um að geyma allar rúsínudollur, leyta að gömlu leirtaui og gömlum dúkum, handa mér í kofann. Amma í Unufelli gaf mér fullt af lokum af rúsínudollum sem ég gæti notað sem diska. Amma í Otradal gaf mér nokkra diska og fjóra gamla bláa bolla með gullkanti og mamma gaf mér fleira sem vantaði.
Ég bjó mér til stofuborð úr bláum plast-mjólkurkassa og gamalli krítartöflu. Svo breiddi ég dúk yfir og hengdi lok af Machintos-dollu á vegginn fyrir ofan. Á lokinu var mynda af hamingjusömu pari í skrautlegum fötum og bleikur rammi í kring. Við höfðum málað kofann með hvítri málningu og mamma lagði hellur frá afa fyrir framan og setti svo tvo potta með stjúpum í, á stéttina sitthvorum megin við dyrnar.
Svo var búin til lítill garðu við annan enda kofans, þar sem við plöntuðum trjám og stolnum sumarblómum úr beðinu hennar mömmu. Við hinn enda kofans var strengd snúra á milli kofans og girðingarinnar og hengd viskustykki og tuskur á.
Eftir ekki langan tíma var ég farin að ráða ríkjum í kofanum. Ég stjórnaði, enda Heiðbjört kannski að verða of stór fyrir kofaleiki. Veitingahús var opnað og var tíðasti getsurinn Jenný Halla, sem fékk framreidda dýrindis rétti, grjót velt upp úr drullusósu og skreytt með stolnu hveiti úr eldhúsinu hennar mömmu, einnig með stráum og sóleyjarsalati. Þetta voru kjúklingarnir mínir og voru vinsælasti rétturinn á matseðlinum. Einnig var hægt að fá hinar sívinsælu berlínar-drullu-bollur. Deigið í þeim var einstaklega þykkt og þurfti sérstaka færni til að búa það til. Fullt af þurri mold úr gömlum chocopuffs-pakka og bara smá af vatni. Svo var deigið hnoðað á sérstakan hátt. Þegar búið var að búa til bollurnar var puttanum stungið oní og gerð smá hola sem var svo fyllt af hveiti ( sem var í þykjustunni flórsykur).
Kofinn minn var sérstaklega fínn. Ég skreytti hann með hinum ýmsu fallegu hlutum, eins og tómum Fyrsthjálpar-vegg-kassa og límdi á hann mjög fallegan límmiða af Organigs (minnir mig að það heitir "Two in one") sjampói. Svo voru náttúrulega naglar í veggnum inni í eldhúsi, sérstaklega fyrir tuskur og viskustykki og svo auðvitað sjálf smíðuð hilla fyrir allt fallega leirtauið mitt.
Svo kom að því að foreldrarnir vildu sjá eitthvað annað en Búðardal og er ekkert nema gott um það að segja. En ég sá alltaf eftir kofanum. Ég vældi í pabba ábyggilega í tvö ár eftir að við fluttum hvort hann ætlaði ekki að taka kofann á kerrunni til Ólafsvíku. Aldrei varð neitt úr því og þegar ég sá að pabbi var ekkert á leiðinni að sækja kofann minn, ákvað ég bara að byggja kofa sjálf. Sá kofi var ekkert sérstakur, en aðal skilyrði við byggingu hans var að hann yrði að vera með hallandi þaki og lóðréttum spítum eins og gamli kofinn minn í Búðardal. Pabbi pantaði spítur sem komu vestur í júlí. Mín þrammaði út í garð og Helga með henni. Þær settu upp grind kofans. Ekki leið á löngu þar til ofurhuginn Ingrid þurfti að fá hjálp frá Ásgeiri frænda. Við skiptumst á að saga og negla. Allt gert í réttri röð og með skipulagi. Þrátt fyrir einstakan byggingarstíl lak kofinn að Vallholti, mikið og ekki nóg með það en glugginn var skakkur. Kofinn varð því aldrei eins og hinn gamli góði kofi.



mandag, september 01, 2003

Sögutími

En hvað það er gaman í dag....afskaplega...ég er nefnilega í sögutíma og er að bíða eftir því að klukkan verði korter yfir svo ég geti flúið úr tíma, af þeirri afsökun að ég verði að hlaupa í tónskólann, sem er í raun alveg satt. Mamma ætlar að bíða fyrir utan og skutla mér á Hagsstofuna, svo þarf ég að hitta tónlistarkennarana niðrá Engjateigi. Oho, ég hlakka til. Eða sko ég hlakka til að byrja á fullu í tónskólanum. Ég hlakka til að vera í skólanum allan liðlangan daginn, hlaupa svo í strætó í tímaþröng, verða blaut og köld á löppunum, vera í tónskólanum í Essinu mínu og koma svo heim ógeðslega þreytt í hálfkólnaðan mat. Eiga þá eftir að æfa mig og læra. Æ, þetta verður bara gaman, eins og alltaf. Ekki satt!