The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

torsdag, september 30, 2004

Ingrid Pump

Hvað haldiði? Ingrid keypti sér bara kort í ræktinni!!!
Nú mun ég byrja að pumpa eins og brjálæðingur þangað til ég hef farið svo oft að tímarnir borga sig að fullu. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég er ekkert svo mikið fyrir pumpið, langar ekkert að vera með rosa upphandleggsvöðva og læti. Ég vona bara að hlaup á bretti og einhver æfingar geri bakinu mínu gott. Þannig að það er nú kannski ekkert fáránlegt að ég kaupi mér kort í líkamsræktarstöð. Ég lifi nú ekki á körfuboltanum í 12 ára bekk allt mitt líf. Og ykkur þykir kannski fyndið að ég hafi æft íþróttir, en það gerði ég, í heilan einn vetur.
Mér finnst svolítið fyndið að Sunna dýrkar/ði körfubolta, bæði að spila hann og að horfa á hann í sjónvarpinu. Mér fannst það og hefur alltaf fundist, mjög leiðinlegt að horfa á körfubolta. Ég get skemmt mér vel yfir handbolta, en hef aldrei getað spilað hann. Eins er farið með fótbolta, ég var alltaf sett í vörn og svo setti ég hendurnar fyrir andlitið og lagðist á grúfu þegar boltinn nálgaðist. Svo ákvað ég að fara að æfa körfubolta, því mér fannst svo gaman í körfu. Þannig var því nú farið að ég var best í körfunni. Ég stal boltanum af öllum, hitti á körfuna, gat driplað án þess að taka skref og þannig. Ég var BEST. Á æfingum, þ.e.a.s. Ég var samt alltaf lélegust af stelpunum í bekknum mínum. En þær voru ekki að æfa körfubolta. Með mér á æfingum voru bara stelpur sem voru yngri en ég og mun lélegri. Ég náði samt að vinna mig upp í að fá "góð Ingrid!" í skólaleikfimi. En, ég meiddi mig svo oft í fingrunum á þessari íþrótt að ég hætti. Þetta samræmdist heldur ekki alveg hlutverki mínu sem lúðrasveitanörd. Þannig er nú allur ferillinn minn. Og þetta er sem sagt eina skiptið á æfi minni sem ég hef verið góð í einhverju (á æfingum, sem sagt).
Og nú verður gerð heiðarleg tilraun til þess að stunda hreyfingu, af einhverju tagi. Þó ég sé anti-sportisti. Já, þið getið bara hlegið. En nördar eru líka fólk, nördar fara líka á líkamsræktarstöðvar. Og þó ég verði ekki best....þá hlýt ég að verða betri en einhver annar.



mandag, september 27, 2004

Mánudagsþreyta eða Alzheimer

Mánudagurinn blessaði byrjaði ágætlega. Lá reyndar uppi í rúmi tuttugu mínútum lengur en ég ætlaði sem þýddi að ég var komin á bókhlöðuna fjörutíu mínútum seinna en ég ætlaði mér. Þegar ég loksins var komin þangað, búin að prenta út verkefnin og glæru, sest við einn básinn og búin að taka upp hljómfræðina, uppgötvaði ég að ég var ekki með nein nótnablöð. Ég var ekki einu sinni með stílabók. Hvað þarf maður að gera með stílabók á Þjóðarbókhlöðunni? Fann reyndar tóma baksíðu, með nótnastrikum. Heppin þar.
Svo lá ég yfir fyrirmælunum í hljómfræði. Það tók mig fimm mínútur að finna út hversu mörg og hvaða formerki eru í A-dúr! (sem er mjög óeðlilegt fyrir tvítuga manneskju sem er búin að læra tónlist frá fimm ára aldri) Þá fór ég að hugsa með mér hvað ég væri rosalega þreytt. Hvað er eiginlega að mér? Já, þetta er bara mánudagsþreytan. En því meira sem ég rifjaði upp frá undanförnum vikum, því grunsamlegra fannst mér líf mitt verða. Fyrir hálfum mánuði týndi ég debetkortinu mínu. Ekki var því stolið því ekkert var tekið út af því. Í þrjá daga leitaði ég eins og ég ætti líf mitt að leysa að þessu korti. Reyndar átti ég líf mitt að leysa því hefði einhver stolið því hefði ég getað misst allan peninginn minn. Nei, ég varð að láta loka því og sækja um nýtt. GREAT!
Á sunnudaginn kom nágranninn og sagðist þurfa að skrúfa fyrir vatnið í smá tíma. Ég sagði bara "ókei" og fór og slökkti á uppþvottavélinni. Svo frétti ég það daginn eftir að mamma kom heim og ætlaði að raða upp í hillur en þegar hún er meira en hálfnuð sá hún að allt var bara óhreint. Mér að kenna!
Ég ákvað því í morgun að fara heim og skrifa um þetta á bloggið mitt. Ég ákvað að ganga í tíma og vissi að ég var að fara í Lögberg en einhvernveginn endaði ég í Árnagarði. Hvernig? Er svona mikill mánudagur í mér eða er ég komin með Alzheimer. Gleymska gengur reyndar í ættir, í móðurlegg. Mormor (langamma mín) var orðin virkilega gleymin, hún gat ekki náð nafninu mínu, þó ég væri sú eina sem héti dönsku nafni sem hún gat borið auðveldlega fram. Enda var hún orðin gömul þá. Ég er ekki frá því að þetta sé farið að bera á sér hjá mömmu sem hættir í miðri setningu og man svo ekkert um hvað hún var að tala. En ég er bara tvítug. Ég held samt að málið sé einfaldlega það að við gleymum ekki, við gleymum því það er svo mikið að gerast í höfðinu á okkur í einu. Eitthvað verður að víkja og oftast vill það verða akkúrat það sem við erum að reyna að einbeita okkur að hverju sinni. Við, konurnar Hansen-Christesen-Sigurðardóttir-Kjartansdóttir, erum svo gáfar og hugsum svo mikið.
Annaðhvort er það það sem hrjáir mig eða þá kenning Thorbergs bróður míns, ég er STEIK!



fredag, september 24, 2004

Þá finnst mér vera komið að setningu vikunnar. Svolítið langt síðan við höfum fengið hana.

Setning vikunnar að þessu sinni er:

Af henni mun standa allt hið illa er hún kemur austur hingað.- Úr Brennu- Njáls sögu. Njáll mælir þessi orð við Gunnar þegar Gunnar segir honum að hann hafi fastnað sér Hellgerði Höskuldsdóttur. (Orð í tíma töluð)

Já, þetta er virkilega merkileg setning. Njáll var vitur maður, þrátt fyrir að hafa vera skegglaus og hálf kona. (Þess má einnig geta að orðið skegglaus kemur víst bara fyrir í þessari einu Íslendingasögu, merkilegt nokk). Fleiri voru þó vitrir menn. Hrútur var mjög vitur. Hann sá þjófsaugu Hallgerðar og hefur líklega grunað að hún væri ekki öll þar sem hún væri séð. Mín kenning er sú að Jórunn, móðir Hallgerðar og kona Höskuldar, hafi haldið fram hjá Höskuldi, með hverjum veit ég ei, en það er eflaust hægt að búa til kenningu í kringum það ef Laxdæla er lesin. Jórunn kemur reyndar ekkert fram í Njálu en hún kemur fram í Laxdælu og þar kemur fram að hún hafi ekkert verið svo hrifin af Melkorku né Ólafi Pá, sem var auðvitað sonur Höskuldar og Melkorka var jú hjásvæfa hans. Í hefndarskyni hefur Jórunn haldið við einhvern af sveitungum sínum. Reyndar gæti skýringin bara verið einfaldlega fólgin í því að Svanur á Svanshóli (hét hann það ekki annars?) var frændi Hallgerðar í móðurætt og þaðan hafi þjófsaugun komið, en hann myrti eiginmenn Hallgerðar fyrir hana.

En eins og við vitum öll gekk spá Njáls upp. Hallgerður gerði allt brjálað og gekk að Gunnari dauðum með frekju sinni og ráðabruggi. Já, hún var kúnstug hún Hallgerður Langbrók.



torsdag, september 23, 2004

Í gær lærði ég skemmtilega hljóma í hljómfræði. Venjulega heita þessir hljómar svo leiðinlegum nöfnum, eins og forsjöundahljómurinn, sem reyndar allir virðast mjög hrifnir af, en nafnið er bara ekkert spennandi. Í gær lærði ég hins vegar um Napólí hljóminn. Mér fannst þetta einstaklega skemmtilegt, svona svolítil tilbreyting frá þessu leiðinlegu undirforhljómum og "stækkuðum lækkuðum sexferundahálfminnkuðum hljómum". Ekki nóg með það að við fengum að skyggnast inn í undraveröld Napólí hljómsins heldur fengum við líka að læra a la Francé hljóminn, þýsa og ítalska. Þessi hljómfræðitími tók á sig einhverja mynd sem þessir tímar hafa aldrei gert áður. Allt í einu var tíminn orðin áhugaverður. Skyndilega fór Ingridi að hlakka til að takast á við hin ýmsu efni hljómfræðinnar, eins og að greina Chopin. Ég hlakka bara alveg rosalega til, held það verði mjög gaman og áhugavert.
Talandi um áhugavert. Nú tekur við orðflokkakaflinn í Inngangi að málfræði. Í morgun sat ég og hlustaði á eitthvað raus um hljóðfræði og hljóðkerfisfræði og bara skyldi ekki stakt orð. En svo tók við orðflokkaumfjöllun. Já, það var mín í essinu sínu!
Já, Ingrid er furðuvera.

.....p.s. sá mjög sætan strák á Þjóðarbókhlöðunni í gær, gekk fram hjá borðinu hans og sá anatomyu. Þar sem ég veit að hann er ekki í sjúkraþjálfun og geng út frá því að hann sé ekki í hjúkkunni, þá varð hann allt í einu miklu sætari. Hvernig skildi standa á þessu?



tirsdag, september 21, 2004

Hvað á að gera í verkfallinu??

Meðan grunnskólabörn sitja heima og hafa ekkert að gera, þeysast framhalds- og háskólanemar um göturnar á bílum sínum og stífla þær. Ég fór reyndar að hugsa um það en það var ekki eins mikil umferð í morgun og á sama tíma fyrir viku. Hvernig ætli standi á því? Háskólanemar þeysast á milli húsa á háskólasvæðinu, tapa peningum í súkkulaðisjálfssala og rífast um bílastæði við Þjóðarbókhlöðuna, en fyrir þá sem ekki vita er Þjóðarbóhlaðan heitasti klúbburinn í dag. Þar er spiluð heitasta tónlistin og í allri byggingunni er mikið stuð og stemmning. Starfsfólkið er hið brjálaðasta og keppist um að fá gesti til að vera í sem mesta stuði. Þar er alltaf tilboð á barnum, bláberjaskyr á 100 kall! Allir sem koma út af Þjóðarbókhlöðunni eru mjög líkamlega þreyttir á öllum látunum þar inni og hálf skríða út, taka taugakippi og vita varla í þennan heim né annan og að sjálfsögðu getur enginn keyrt heim vegna of mikillar ölvunar. Lesölvunar.

En annað er að segja um grey grunnskólabörnin sem vita ekkert hvað þau eiga af sér að gera. Í gær heyrði ég auglýsingu í útvarpinu sem var einhvern veginn á þessa leið : Ertu í verkfalli? Veistu ekkert hvað þú átt að gera? Við erum með lausnina! Þú sefur fram á hádegi, kveikir á Popptíví og borðar Doritos og Pepsi og horfir á alla bestu þættina. Við erum með sér verkfallsdagskrá fyrir þig!! Við byrjum í dag og sýnum fyrstu fjóra þættina af Paradice Hotel!!! Popptíví, það er gott að glápa!!

Mér blöskraði við að heyra þetta. Ætti sjónvarpsstöð ekki að hvetja krakka frekar til að vera úti að leika sér, eða fara á fætur og læra eða gera eitthvað uppbyggandi áður en þeir geta svo verðlaunað sjálfan sig með því að horfa á heimska Breta rífast á sólarströnd. Í þessari auglýsingu var beinlínis verið að ýta undir það að börn sitji heima og fitni og verði fyrir vikið heimskari.
Sem betur fer ætlar Eggert að reyna að æfa sig og kannski læra eitthvað í verkfallinu, standa við leyfilega tölvutíma og fara á fætur klukkan átta (sem reyndar gekk ekki upp í morgun því það er svo notalegt að slökkva bara á vekjaraklukkunni). En ég vona svo sannarlega þetta sé ekki bara tilfellið, að börn sitji bara heima og horfi á sjónvarpið og éti fitandi og óhollan mat alla daga í verkfallinu. Það er hægt að nýta verkföll sem ýmislegs, eins og sumir eru svo sniðugir að gera.



torsdag, september 16, 2004

Ég trúi þessu ekki. ÉG TRÚI ÞESSU EKKI!!!!



onsdag, september 15, 2004

Lækkert....sem á ekki við um þetta veður

Vitiði það að þegar bróðir minn var lítill var hann alltaf kallaður "lækkert, Eggert" eða "Eggert, frækkert" úti í DK. Danir bera nefnilega þetta nafn fram alveg eins og lækkert en sleppa bara l-inu. Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar ég var að senda Bergi lagið "Lækker" með átrúnaðargoðum okkar og Jennýjar, Nik og Jay. Mér fannst þetta svo sniðugt að ég fór að syngja "Lækkert, Eggert" í staðinn fyrir endalaust "lækkert". Eggert var nú ekkert svo hrifinn af þessu, en ég get lofað að ég mun leggja mig alla fram við að syngja þetta svo oft sem ég get, til að standa mig í mínu hlutverki. Það hlutverk er auðvitað að ver hin leiðinlega eldri systir unglingspilts sem er með complexa gagnvart öllu og mjög viðkvæmur. En nei, ætli hann loki ekki bara eyrunum, hann er það gáfaður.
Annars snýst lífið akkúrat núna um hljóðfræði, málkunnáttufræði.....og ég veit ekki hvað, píanóið eins og venjulega og þetta venjulega takmark .....að komast af í hljómfræðinni.
Óver end át!



mandag, september 13, 2004

Það er mánudagur og sólin skín.......
Ingrid Örk með tónlist í eyrunum: FOR JEG KAN ALDRIG GLEMME DIG, ÅH NEJ, ÅH NEJ, DRØMMER JEG, DRØMMER JEG!!!!



Nú eru Rachel og Ross orðin að Rómeó og Júlíu okkar tíma. Það finnst mér hálf furðulegt (ÉG ER EKKI ENNÞÁ BÚIN AÐ SJÁ SÍÐUSTU ÞÆTTINA, EKKI SEGJA NEITT!!) Ætli það verði þannig í framtíðinni að maður geti flett upp á The greatest love storyies og fundið þar Rachel og Ross, alveg eins og Rómeó og Júlíu, hjartadrottninguna og hjartakónginn? Allavegana varð ég bara að deila þessu með ykkur. En dæmið sem ég er að tala um kemur fram í þessu lagi sem ég birti hér textann af. Lagið er mjög vinsælt í DK í dag og ábyggilega í Svíþjóð. En til þess að skilja lagið verði þið að setja ykkur í spor Danans. Þú ert strákur, varst á Roskilde og aðal málið var að komast yfir en svensk flicka (eða hvernig skrifar maður það). Eftir hátíðina getur þú ekki hætt að hugsa um ljóshærðu gelluna með bláu augun (já ef þú ert stelpa, ljóshærða gaurinn með bláu augun) En hér er búið að semja lag til sænskra og danskra ungmenna sem einhverra hluta vegna finnst mjög gaman að rugla saman reitum.
Bergur þetta er handa þér!
Jeg står og kigger ud på Øresund
Drømmer om dine øjne og din mund
Du er et sted derovre lige nu
Jeg ville svømme hvis jeg ku
For jeg savner dine svenske pus
Men du er uden for min radius

[Dansk omkvæd]
For jeg kan aldrig glemme dig – Åh nej Åh nej
Når jeg er vågen drømmer jeg – om dig om dig
Drømmer du om mig?

[Svensk omkvæd]
For jag kan aldrig glömme dig - åh nej åh nej
När jag är vaken drömmer jag - om dig om dig
Drömmer du om mig?

Jag tar en tur längst stranden med min hund
Tittar ut över mörka Öresund
Det känns så konstigt att va’ ensam här
Jag undrar vad du gör och är
Jag saknar dine ord, jag knappt förstår,
men som faktiskt säger allt ändå
For jag kan aldrig...

Du er min Rachel - jeg er din Ross – hvorfor hvo hvo for
Är det vatten mellan oss
Jeg vil ha dig i min favn - Varför va varför
Är det hundratusen mil till Köpenhamn?
(ég hélt þetta ætti að vera: er der hundred tøsser midt i København?)

For jeg kan aldrig glemme dig - åh nej åh nej
Når jeg er nøgen tænker jeg - på dig på dig
Tænder du på mig?

For jag kan aldrig glömme dig - åh nej åh nej
När jag är naken tänker jag på dig, på dig
Tänder du på mig?



lørdag, september 11, 2004

...in case you fail to see, this is my heart, bleeding before you, this is me down on my knees....

Já, þið segið það. Ég er ekki í ástarsorg ef þið haldið það.
Eftir að hafa horft of oft á Söngkeppni Framhaldsskólanna hef ég komist að því að hver og ein einasta stúlka á þessu landi þarf að gangi í gegnum tímabil í lífi sínu sem heitir "Foolish Games". Ég fattaði það bara ekki fyrr en núna, núna þegar mitt tímabil virðist hafa byrjað. Allt Heiðbjörtu og Viðari að kenna. Þau eru nefnilega með disk í bílnum hjá sér með þessu lagi á. Mér fannst svo fyndið að heyra lagið því að mér datt bara Söngkeppni Framhaldsskólanna í hug. En allt í einu fór ég að hlusta á lagið og fannst það allt í einu bara mjög flott. Fór beinustu leið heim, reyndi að pikka upp hljómana og þegar mér gekk ekki að koma laginu öllu heim og saman stal ég því af netinu. Og hvað þá? Jú, þá fór ég að hlusta á textann. Hann er svo kúl, á svo tregafullan hátt. Eins og setningin "...you're fashionable sensitive, but to cool to care, you stood in my doorway, with nothing to say....". Þetta er svo rosalega hversdagslegt en samt svo dramatískt. Þrátt fyrir að vera alltaf næstum búin að gubba þegar ég heyri lagið, bara af tilhugsuninni um falskan vinkonuhóp, reyna að meika það í Laugardalshöllinni, þá bara dýrka ég þetta lag.



mandag, september 06, 2004

Fyrsti skóladagurinn

Lasin

Þá er fyrsta skóladeginum lokið. Hann var reyndar bara tveir klukkutímar, þrír ef píanótíminn er tekinn með. Í morgun vaknaði ég svona eldhress með rosa hálsbólgu, kvef og beinverki. Gaman að því. Ég drullaði mér nú samt í sturtu og lagði mig ofan á rúmteppið áður en ég skreið, sárþjáð litla greyið, í apótek, skellti í mig einni verkjatöflu og brunaði niðrí Árnagarð. Þar kom nú í ljós að ég ætti að fara út í Lögberg og auðvitað vissi ekkert hvernig Lögberg snýr og kom of seint í tímann. Gleymdi líka að slökkva á símanum, en pabbi var svo sniðugur að hringja í mig í tíma, svo allir heyrðu hið skemmtilega háværa lag, Country Roads. Tíminn var nú samt bara rosa skemmtilegur. Mér létti mikið við að heyra í og sjá kennarann sem er bara skemmtilegur kall, sem talar hátt og skýrt, segir all right, ok, fídusar, pikka upp og annað skemmtilegt. Einhvernveginn fannst mér hann bara meira alþýðlegur en íslenskukennararnir í MH sem finnast það eflaust flokkast undir dauðadómsglæp ef maður slettir og notar slangur. Hinir krakkarnir áttu svo að fara í bókmenntafræði að þessum tíma loknum en ég brunaði niðrá Engjateig þar sem Halldóra hálf skammaði mig fyrir að mæta veik, ég gæti nefnilega smitað hana.

Þrátt fyrir slappleikann svo nú í eftirmiðdag hef ég velt ýmsu fyrir mér.
Ég og Sunna höfum verið að skoða stjörnuspána okkar fyrir september. Í alvörunni, hún lítur ekki illa út. Svo var ég að taka til í kistlinum mínum á sunnudaginn og fann þar bókina um Hrútinn. Ég var frekar ósátt við upphafsorð kaflans um konur í hrútsmerkinu en kaflinn um karla byrjar einhvernveginn svona : Sjáðu manninn þarna í símaklefanum. Er þetta vélmenni, sem gengur fyrir rafmagni? Er þetta logandi kyndill? Er þetta fugl, tímasprengja eða sjálfur Súperman holdi klæddur? Ja, næstum því.
Þetta fannst mér nú lofa ansi góðu og fletti upp á kaflanum um konur: Þú ert sem sagt ástfanginn af konu í Hrútsmerkinu. Ég veit ekki hvort ég á að óska þér til hamingju eða samhryggjast þér.
Ha?! What the fuck!!
Og svo kemur bara langur listi um alla galla kvenna í hrútsmerkinu. Þetta finnst mér alveg fáránlegt. En eins og allir vita eru konur í hrútsmerkinu sterkustu konur í heimi, andlega, líkamlega, þær eru skilningsríkar, klárar, umhyggjusamar og bara alveg frábærar!

....................þær eru líka mjög sjálfselskar ;)



søndag, september 05, 2004

Fastir liðir eins og venjulega.....ekki eins og venjulega

Það er furðulegt til þess að hugsa að ákveðnir hlutir í lífinu munu ekki verða til staðar alltaf. Þetta á við um bæði fólk, dýr og hluti. Nú hefur Jessý greyið fallið frá. Hún var orðin gamall og veikur hundur. Mér finnst skrýtið til þess að hugsa að hún muni ekki taka á móti manni á Urðargötunni eða niðrí Skipasundi, flaðrandi upp á mann með dillandi rófunni. Ég kvarta stöðugt yfir tilbeytingarleysi daganna, en vil samt halda fast í þá. Nú er enginn afi lengur, engin sveitin, enginn Jessý. Ég hélt sumrinu hefði endanlega verið lokið við fráfall afa og hið tilbreytingarlausa líf gæti aftur tekið við, öðruvísi en venjulega. En einhver ákvað að breyta hlutunum aðeins meira með því að taka greyið Jessý.
Svona líður lífið. Við viljum hafa fasta liði eins og venjulega og allt í föstum skorðum en í raun getur það aldrei verið þannig. Við erum alltaf að rekast á eitthvað sem tefur leið okkar.
En þrátt fyrir allar hörmungar í lífinu horfum við alltaf björtum augum fram á veginn. Ég held það sé nauðsynlegt.

Það er kannski best að hafa orð afa að leiðarljósi að eitt getum við verið viss um, þetta fer allt einhvernveginn. Og þar sem við vitum það er kannski bara best að njóta þess sem við höfum, á meðan við höfum það. Ég held það bara.



fredag, september 03, 2004

Í morgun varð mér litið upp í hilluna sem er fyrir ofan píanóið mitt. Ég sá að ég á bók sem heitir Afmælisdagabók með málsháttum. Merkilegt það sem maður finnur upp í hillum þegar maður horfir þangað. Hvenær er betri tími en akkúrat þegar ég er orðin afskaplega þreytt á píanóispilinu til að kanna ókortlagða staði í herberginu? Ég fletti auðvitað, eins og hrúti er von og vísa, upp á afmælisdegi mínum. Jafn ómerkilegur málsháttur gat ekki verið settur á þennan merka dag en : Læra börn það á bæ er títt. Jújú, þetta er nú alveg góður og gildur málsháttur. En ég verð að viðurkenna, ég hélt það væri ábyggilega dramatískari setning við afmælisdaginn minn en ég er nú svo dramatísk manneskja. Annars las ég stjörnuspána mína í Orðlaus fyrir september og hún var nú bara nokkuð góð, einnig stjörnuspá sem ég las í einhverju blaði sem ég man ekki hvert er.

Í dag fór ég svo í nokkurra áratuga gamalt pils, brúnan rúllukraga og svarta gollu, og skundaði af stað á kynningarfundi hjá heimspekideild (eða hugvísindadeild eins og þetta á víst að heita í framtíðinni) og svo hjá íslenskuskori. Áður en ég lagði af stað varð mér litið í spegilinn og ég leit alveg eins út og íslenskukennari. Svona týpískur íslenskukennari í ullarpilsi og gamaldags fötum. Samt var ég mjög smart.
(Reyndar minnti átfittið mig svolítið á mjög svo vitlausan bókasafnsfræðing í Ólafsvík sem gekk aðeins í second hand fötum og mátti ekki greiða á sér hárið með venjulegum bursta og ekki líta í spegil því hún var í einhverjum sértrúarsöfnuði!)

...en þá er það tónheyrn.