The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

tirsdag, november 29, 2005

Hjálpi mér allir.......

...er búin að vera að vafra um á netinu og skoða meðal annars feril Brad Mehldau og þvílíkt og annað eins, ó jeminn eini....ég er að verða ástfangin af þessum manni......ætli hann sé á lausu?



mandag, november 21, 2005

Jæja, þá er ég búin að finna hann!!! ....hinn eina rétta og eina fallegasta!!



Þá er bara að skella sér út, sannfæra hann um að þó að Alexandra eigi fullt af peningum sé hún ekki þess virði! Hann er minn...svo er hann danskur....ekki verra :)



torsdag, november 17, 2005

Já takk!

Fór í mitt gamla uppáhalds bakarí í Suðurveri áðan og keypti mér óhollasta hádegismat í heimi. Mikið majones, mmmm.....svona fyrstu bitarnir allavegana. Þegar ég var inni í bakaríinu sagði ég "já takk" svona þrisvar sinnum og "nei takk" líka þrisvar sinnum. Leið eins og ég væri kurteisasti fimm ára krakki í heimi. Orðin fóru samt að hljóma svolítið furðulega....já takk, nei takk, já takk, nei takk, já takk, nei takk.......

..............og já takk, ég vil alveg að einhver láni mér gott hljómborð með meira en fimm áttundum.....



onsdag, november 16, 2005

Á degi íslenskrar tungu.....

...kemur fyrirsögn á forsíðu Blaðsins sem er svo hljóðandi

Ævi og ástir Sylvíu Nóttar

.....ég verð eitthvað svo þreytt í höfðinu við þessa sjón. Er beygingakerfið alveg að gleymast eða er ég bara undir svo miklum áhrifum frá beygingafræðinni og íslensku máli að fornu?



onsdag, november 09, 2005

Æfingargeðbrjálun

Þarna sit ég. Ein í lokuðu herbergi. Með Kringlumýrarbrautina suðandi í eyrunum. Þögn.....fyrir utan suðið, og suðið í lofljósunum. Þögn....já og fyrir utan hljóðin frá byggingu hótelsins. Ein. Bið. Stari á hljómborðið. Af hverju ætli nóturnar séu svona hvítar og svartar? Af hverju voru þær ekki bara málaðar grænar eða bláar? Hendurnar lagðar á hljómborðið. Slakar axlir. Velti höfðinu til og frá. Déskotans vöðvabólga. Horfði upp á vegg og þarna starir hann á mig. Maðurinn sem var einn af þeim sem kom þessu öllu af stað. En hvað ég á honum mikið að þakka. Ég reyni að ráða í svipinn. Hann er svolítið íbygginn og brúnaþungur. Hvað viltu? Ég reyni að ímynda mér það sem hann vill segja mér. "Þetta fannst mér ekki fallegt, kontrapunkturinn í þessu var ekki fallegur. Samstíga áttundir eru alveg bannaðar og svo var þessi tónskratti, tónbil djöfulsins!". Jæja, reyni að gleyma Johannesi Sebastain. Hvað veit hann, hann dó fyrir mörg hundruð árum. Horfi á annan stað á veggnum. Ó nei! Ludwig! Svipurinn á honum er reyndar ekki eins ógnvekjandi. Reyndar hef ég alltaf ímyndað mér að ef ég myndi hitta hann væri ég hræddari við hann því hann varð svo geðillur af heyrnaleysinu en Johannes Sebastain var bara svona margra barna faðir...svona pabbi. En núna er hann Ludwig svo góðlegur á svipinn. Það er mikil þolinmæði í svipnum hans. "Já, þetta var ágætt hjá þér, þú ættir reyndar að æfa þennan takt aðeins betur, og svo skaltu túlka aðeins meira, þyngri bassa og meira syngjandi laglína".
Já takk fyrir það Beethoven, þú ert nú alls ekkert slæmur eftir allt saman! Best að halda áfram..........hlakka ekki til að æfa jazzinn með Bach svona reiðan á svipinn yfir mér.

Verði ykkur að góðu. Þetta var saga um ekki neitt.



mandag, november 07, 2005

........og það eru aðeins til eftirlíkingar af hornunum....

......og svo var það víst í fyrra sem kona kom með eyrnalokka sem langa langaamma hennar hafði átt og höfðu geymst í fjölskyldunni í öll þessi ár. Allir vissu að þetta væru skartgripir úr stolnu hornunum. Þið verðið að fara á þjóðminjasafnið því það fer bráðum að loka, áletrunin á hornunum er heimsfræg og ein besta heimild um frumnorrænu.....

Ingrid talar fyrir daufum eyrum foreldra sinna sem sitja fyrir framan tölvuna og reyna að bóka hótel í Kaupmannahöfn. Þau verða að fá sér almennilegan jólafrokost með alvöru jólabjór og verða að fá tax free á allar jólagjafirnar, fyrir þessi jól.

Aldrei hefur Ingrid þótt mikið gáfnaljós innan fjölskyldunnar. Í hvert sinn sem hún hefur uppgötvað eitthvað stórmerkilegt og vill deila því með öðrum, fær hún sama sem engin viðbrögð frá fjölskyldunni. Aðeins ef orðin "vitiði það að einu sinni..." koma fyrir í upphafi máls hennar eru eyru hlustenda lokuð.

Aðeins einu sinni náði Ingrid að sanna fyrir fjölskyldunni að öll þessi vitneskja, er ekki bara uppspuni í henni sjálfri, og aðeins í þetta eina skipti fannst fjölskyldunni eldgamall tími eitthvað merkilegur, þegar hún horði út um gluggann á hótelherbergi þar sem foreldrar hennar höfðu dvalið á í nokkrar nætur. Hún þurfti aðeins að líta einu sinni út um gluggann þegar hún kom frá Íslandi, til að vita að þetta væri gatan. Hún vissi hvorki hvað gatan héti, eða hvar hún væri nákvæmlega stödd í bænum. Aðeins sá hún gluggana á húsinu á móti en hún þekkti götuna. "Hér liggur gatan þar sem Jónas Hallgrímsson, bjó og lét lífið!". Og Ingridi varð ekki rótt fyrir en hún var búin að draga alla fjölskylduna út á götu til að sannreyna að þetta væri rétta gatan, sem og hún var og fékk því Ingrid mikla athygli og aðdáun fjölskyldu sinnar.

Þetta er kannski stórlega ýkt saga. Mér fannst sagan bara svo góð svona. Agalega á ég bágt, samkvæmt þessari sögu, hehehehe.



tirsdag, november 01, 2005

Meðferð

Ég held ég þurfi að fara í meðferð. Þið sitjið núna og veltið e.t.v. fyrir ykkur við hverju ég þarf að fara í meðferð. Því verður ekki auðvsvarað skal ég ykkur segja. Ég held ég þurfi að fara í ýmis konar meðferðir. Fyrst ber kannski að nefna meðferð við því að langa stöðugt í nýja skó og föt. Þá er ég ekki að meina kaupfíklameðferð, heldur meira svona ekki-langa-stöðugt-í-ný-föt-meðferð. Einnig væri alveg fínt að fara í meðferð við cola light drykkju. Ég er alveg ferleg þegar kemur að því. Einnig þyrfti ég að fara í svona smá tölvumeðferð. "Ekki-hanga-lengi-í-tölvunni-meðferð". Svo mætti líka einhverstaðar í þessum heimi bjóða upp á meðferð við lærdómsleti. Þá myndi hún kallast "drullaðu-þér-til-að-læra-barn-meðferð". Sú meðferð held ég að kæmi mér allavegana vel.
Þó held ég að mikilvægasta meðferðin sem ég ætti að fara í og að mér finnst, flestir í þessu þjóðfélagi líka, sé "hætta'ð-hafa-áhyggjur-meðferð". Áhyggjuleysi er allavegana ekki stórt vandamál hjá mér.
Nú ætla ég að setjast niður þegar ég kem heim, lesa þessa færslu aftur og velja út þá með-í-ferð sem ég ætla að fara í. Svo ætla ég að tékk hvort ég finni ekki eitthvað á netinu með Brad Mehldu (æ hvernig er þetta skrifað). Þarf að hlusta meira á hann. Og svo ætla ég halda áfram að spila jólalögin í jazzútsetningum...jájá ok, gæti farið í meðferð við því líka, en það er bara svo jólalegt þarna úti í snjónum. Bara ræð ekki við mig!!.......undir jólahjólatré...er pakki..!!!