The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

fredag, oktober 31, 2003

Eins og er.......

Eins og er
andvarpar blærinn
eins og er
saman í gær ein,
ég og þú
hvert leiðir lífið okkur nú?

Eins og er
skugga-megin
þar sem ég geng
niður veginn
burt frá þér
þar liggur leiðin eins og er

Og kunnugleg andlit
á mig star í spurn
hvar er hún sem þú elskar í dag?
"Hún er eins og sól,
og þegar dagar á ný
Þá birtis hún þar"
Mitt auma svar

En heyrðu....
segðu ekki neinum
að eins og er
er ást mín í leynum
fyrir þér
segðu þeim ekki eins og er.

(Lag: Ernesto Duarte)

Þetta er svo sætt lag. Það er hægt að heyra á plötunni "Þetta er nú meiri vitleysan" með Milljónamæringunum. Mér datt þetta í hug af því að eins og er, er ég bara heima.
Eins og er, er ég bara heima meðan ég ætti kannski að vera að djamma með öðru fólki. Það eru allir vinir mínir að djamma. Jenný er á djamminu með Ingu Gimbli og ég ætlaði að hitta þær en svo nenni ég ekki út úr húsi, svo er fótboltamótsdjamm einhversstaðar niðrí bæ og Vala og hinir krakkarnir voru að fara þangað og svo eru Heiðbjört og Sunna að djamma líka. En eins og er er ég bara innipúki, húki heima að downloda tónlist og hlusta á löngu horfin lög af vinsældarlistum þjóðarinnar....eða svona eitthvað í þá áttina.
Svo horfði ég á Idol, ég nennti ekki að horfa á úrslitin en ég vona að þessi sem söng síðast "I´m a man of many wishes" eða sko "girl" og Bóas hafi komist áfram. Þessi með teinana er líka töff en hún er of ýkt, sorrý. Hún hefði átt að taka byrjunina á viðlaginu ekki alltaf svona hátt uppi, kannski áttund neðar. Hún byrjaði bara að gefa út trompin um leið og mér fannst það ekki virka. Trompið var ekkert flott í lokin, bara pirrandi. Annars söng þessi síðasta mjög vel, ég fílaði það.
Ég verð samt að segja að ég var ekki ánægð með lagavalið hjá Bóasi, hann er of mikill töffari fyrir Ewan McGregor wannabe Elton John. Og svo er bara enginn sem tekur þetta eins vel og Elton með flygli einum saman og Ewan McGregor með heila sinfóníu á bak við sig.



torsdag, oktober 30, 2003

Hibba Tibba tá með.....þrjá

Mín elskulega systir Heiðbjört Tíbrá átti hvorki meira né minna en 23 ára afmæli í gær. Sökum anna sá ég mér ekki fært að skrifa í gær. Óska ég henni innilega til hamingju með afmælið. Af þeim sökum varð ég því að brjóta kók bindindið okkar Jennýjar í gærkveldi. Sem er kannski allt í lagi þar sem ég fékk mér Pepsí en ekki kók. Ég vil get þess að það var Sunna sem fattaði upp á þessu sem ég setti sem fyrirsögn þegar við vorum agnarsmáar stúlkur og rifumst um það hvort ég mætti fylgja Heiðbjörtu og Sunnu eftir í þeirra unglinga ævintýri.

Ég er sko búin að vera á þeytingi. Núna kom ég heim klukkan 19 í dag og má það bara gott heita. Ég er nú samt búin að æfa mig skammarlega lítið í dag, en er ánægð þar sem ég er búin að blása í saxinn í rúmlega 20 mín. Gerist það sjaldan. Og núna hafa mamma og pabbi komið sér fyrir inni í stofu með bjór og einhverja óperusöngkonu á fóninum sem ég man ekki hvað heitir, en hún er ítölsk, svakalega fræg og víst með mjög falleg augu. Þau hafa tónlistina mjög háa til þess að reyna að útiloka óstýrilátann blástur minn á sama D-blús skalanum, aftur og aftur.



søndag, oktober 26, 2003

Vi Griber Microfon Hverdag

Ég var svo sniðug að fatta að það er hægt að hlusta á Voice fm 104.9 á netinu. Ég reyndi að finna yesterday radio en það virðist ekki vera til lengur. En í staðinn er hægt að hlusta DR Jazz og DR Rock sem eru bara hinar fínustu útvarpsstöðvar.
Mér fannst alveg rosalega gaman að hlusta á danska útvarpið þó ég sé engan veginn að fíla þessa tónlist sem er spiluð á Voice. Ég leytaði líka að Uptown radio og fór að hlusta á hana. Ég veit ekki hvort ég var að hlusta á Uptown radio eða Voice þegar allt í einu var spilað lagið "Hverdag" með Nik og Jay. Nik og Jay eru alveg rosalega getnaðarfullir danskir rapparar sem klæða sig í pelsa og setja á sig skuplur og gullkeðjur.
Það sem vakti samt furðu mína var að þeir eru ennþá að spila öll sömu lögin og í sumar. Þar má nefna Craig David og Sting, Robbie Williams og þarna ekki Linking Park lagið með konunni (wake me up and save me....). Svo er líka alltaf verið að spila Mel C, sem mér finnst alveg hundleiðinleg tónlist. Ég hef reyndar ekkert heyrt "She Cryes" með C21 sem er þriggja manna dönsk hljómsveit og þeir eru sko virkilega hot.
Eina lagið sem eitthvað er varið í, og það er líka í tísku hérna, er með The Rasmus frá Finnlandi, Shadow.
Nú rétt í þessu heyrði ég alveg skemmtilega furðulegt lag, grípandi og bara hálfskemmtilegt. Textinn var einhvernveginn svona "Hvor er du fra....jeg fra havnen".
Ha ha nú er einmitt verið að spila Nik og Jay, Hverdag.
"Vi griber micrafon hverdag, du griber micrafon lördag....fucking femtusund töser....Vi ligger lord ned hverdag.......YYEEHH!!!



onsdag, oktober 22, 2003

La vie en Rose

Þetta ljóð var samið á Barðarströnd en ég veit ekki hvenær eða af hverjum og ég er búin að gleyma hvernig lagið við það er.

Undir háu hamrabelti
höfði drjúpir lítil Rós
þráir lífsins vængjavíddir
vorsins yl og sólarljós
Ég held ég skynji hug þinn allan
hjartasláttinn rósin mín
er kristaltærir daggardropar
drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað
krjúpa niður kyssa blómið
hversu dýrðlegt fannst mér það
finna hjá þér ást og unað
yndislega Rósin mín
en eitt er það sem aldrei gleymist
aldrei það er minning þín.



tirsdag, oktober 21, 2003

Danir eru geðveikir....inni á hælum og í kúlinu

Ég flúði upp á loft á sunnudagskvöldið. Ég flúði úr matarboðinu. Allir töluðu svo mikið og ég var svo kvefuð, og er enn, litli frændi minn var alveg að gera alla brjálaða með 007 loftbyssunni sinni og ég var hætt að geta greint á milli dönskunnar og íslenskunnar. Nú er ég ekki að ýkja. Ástæðan fyrir því að ég flúði upp var sú að Nikolai og Julie var að byrja. Þetta eru svo skemmtilegir þættir. Ég dýrka þá. Julie er ennþá inn á geðveikraspítala og Nikolai er bara að fara yfirum yfir því að geta ekkert veirð með gellunni sinni, sem er prestur og hélt framhjá manninum sínum með Nikolai, og að þurfa að sjá alveg sjálfur um Emmu. Emma er algjört krútt. Svo held ég að það dragi til tíðinda inni á öðrum heimilum í þættinum. Ég held að ofurkonan sem er komin í bæjarstjórn muni gera eitthvað af sér og....... já tölum ekki meira um það.
Þessir þættir eru tilnefndir til Emmy verðlauna sem besti erlendi þátturinn og eiga það svo sannarlega skilið þetta er svo mikil snilld og danskur húmor er bara bráðsnjall og fyndinn. Hvet alla til að gefa sér tíma til að horfa á þessa þætti á sunnudagskvöldum.



fredag, oktober 17, 2003

Gullbrúðkaup

Í dag, þann 17. október fyrir 50 árum gengu til prests Ingrid Marie Kirstine Christesen ung hattagerðardama frá Tinglev í Suður Jótlandi í Danmörku og Sigurður Guðmundsson, bóndasonur úr Otradal í Arnarfirði á Íslandi, til að láta gefa sig saman. Hjónaband þeirra varð farsælt og eignuðust þau þrjú börn og heldur hjónabandið áfram að vera farsælt. Ekki nóg með það, heldur eignuðust börnin þeirra sín börn, þar á meðal er ég. Hjónavígslan var sérstök að því leyti að það voru að ég held ekki nema tveir vottar og foreldrar brúðarinnar höfðu ekki hitt tengdasoninn, eða svona held ég að sagan sé. Allavegana voru þau ekki búin að hitta hann þegar Ingrid tilkynnti þeim í bréfi til Danmerkur að hún væri lofuð og átti í þokkabót von á barni. Í maí 1954 eignuðust þau svo dótturina Elsu Nínu. (ég vil vekja athygli á því að ég hef nú nefnt nafn hennar). Elsa Nína þessi var svarthærð búlduleit frekja og ákveðinn krakki. Með árunum varð Elsa Nína þokkafull ung stúlka með sítt svart hár, sem heillaði ungan strák frá Patreksfirði með svart hár sem var klilppt í Bítlastíl. Þau rúntuðu um suðurfirði Vestfjarða á hvíta bílnum hans Jónasar. Þau létu svo pússa sig saman fyrir 30 árum og varð þeim tveggja fagurra barna auðið. Lifa þau ennþá í sátt og samlyndi þessi skötuhjú. Næst kom glókollurinn Svanhvít. Hún var með hvítt hár og var töluvert oft næstum drepinn af yfirgangsskessunni henni Elsu Nínu. Svanhvít var ærslafullur krakki og var grettin í framan. Hlupu þær systur um túnin í Otradal og reyndu að ná sér niðri á hvor annarri eftir rifrildi. Skilst mér að oftast hafi það verið hún Elsa Nína sem hljóp á eftir Svanhvíti litlu systur sinni með potta og pönnur í tilraun til að berja hana með þeim. Svanhvít varð fönguleg ung stúlka og ákvað að skella sér í gítarnám þegar ungur Reykvískur gítarkennari kom til Bíldudals. Ekki veit ég hvort mikil gítarkennsla fór fram í þeim tímum þar sem gítarkennarinn Kjartan fór oft að borða hjá Ingrid og Sigga og flutti svo á brott með ljóshærðu ungpíuna Svanhvíti frá Bíldudal til Búðardals. Kvæntist henni svo ári seinna og eignaðist með henni þrjú börn. Ber þar helst að nefna Ingridi Örk en sögur fara af glæsileika barna þeirra og gáfum. Hafa þau verið gift bráðum í 25 ár og verða þau ár miklu fleiri. Þriðja barnið í röðinni var brúnhærð barnið Guðmundur Otri. Otri fæddist í stofunni í Otradal líkt og faðir hans mörum árum fyrr, en þá bara í gamla húsinu. Fljótt var Otri farinn að hlaupa um haga og móa Otradals. Hann óx fljótt úr grasi og vakti hann athygli alls héraðsins fyrir vestan. Hann var farinn að keyra bíla þriggja ára, draga traktora fimm ára, ræða við mikilmenni þjóðfélagsins og sofa inni í skápum. Hann var ólátabelgur mikill og þurfti móðir hans oft að grípa til teppabankarans. Otri var stæðilegur drengur og drengur góður. Hann byrjaði fljótt og ungur að lyfta og stofnaði til kraftajötnakeppni. Hann hefur átt velgengni að fagna í kraftlyftingum og eignaðist hann stóra fjölskyldu og þrjú kraftaleg börn.
Vil ég óska ömmu og afa til hamingju með daginn og læt hér staðar numið af frásögnum úr Arnarfirðinum.



søndag, oktober 12, 2003

Jon Popstar.....þvílíkur sjarmör

Frænka mín hún Sunna fó í helgarferð til Danmerkur um daginn. Hún kom heim með nokkra hluti sem ég hafði beðið hana um að kaupa fyrir mig. Einnig kom hún með svolítið gómsæti handa mér úr fríhöfninni. En það var meira sem fylgdi. Ég fór í heimsókn og fékk að skoða nýjustu slúðrblöðin. Ég fletti blaðinu hægt, í von um að sjá nýjustu fréttir af popstar Jon. Hvað heitir nýjasta kærastan hans núna, singúllinn eða sá sem hann barði á síðasta fylleríi í afbrýðiskasti? En það var enginn Jon. Hvar er Jon? hugsaði ég. Popstar Jon varð vinsæll í Danmörku á síðasta ári, fyrir að hafa unnið keppnina Popstar. Þessari keppni má líka við hið margfræga Idol. Öll blöð og útvarpsstöðvar voru, síðasta vor, yfirfullar af þessum 17 ára sjarmör Jon. En það þarf ekki mikið til þess að snúa áhuga dönsku þjóðarinnar að öðrum málefnum. Í staðinn fyrir slagsmála og ástarsambandafréttir Robert Hansen, Popstar Jon, sangerinde Julie eða sóknarmönnum FCK, voru einungis fréttir af kaomandi trúlofunardegi Kronprins Frederik og Mary Donaldson, sem nú er afstaðinn.
Allt var vel undirbúið og danska þjóðin með á hreinu hvenær þeir áttu að kveikja fyrir útvarpinu, sjónvarpinu eða mæta við Amalienborg til þess að "frétta" af trúlofuninni. En ég nenni ekki lengur að lesa um þetta. Það er gaman einstaka sinnum en þau eru búin að vera í hverju einasta Kig Ind í allt sumar. Ég vil lesa um Jon eða aðra fræga sem líta hálf asnalega út svona í frægðinni og kastljósinu. Danska konungsfjölskyldan er svo venjuleg. Hvað er gaman að henni? Jú, kannski einmitt það hvað hún er venjuleg en hversu oft ætli maður sé búinn að lesa um það að Hennar hátign Margrét II, fékk liljur að gjöf, frá lítilli stúlku á eynni eða skerinu Lilleby, þegar Margrét og prins Henrik komu þangað í opinbera heimsókn á dögunum. "Margrét var kát og glöð, klædd í fjólubláa dragt með blómahatt. Að móttöku lokinni snæddi Margrét hádegisverð ásamt bymesteren og þar á eftir hlýddi hún á kynningu á atvinnuvegum Lillebyj, sem er staðsett á skeri austan við Bornholm". Svo óspennandi eru allar þessar frétti. En Margrét nýtur þó mikillir virðingar meðal dönsku þjóðarinnar og sú er kannski ástæðan fyrir því að allir lesa þessar fréttir. En hversu spennandi líf er þetta? Konungsfjölskyldan hlítur að vera leið á þessu aðalslífi. Allt sem þau gera, segja eða sýna er sett í blöðin. Sama hversu ómerkilegt það er.
Heldur vil ég lesa um dramatískt líf dálítið vitskertra leikara eða söngvara sem halda að lykillinn að frægðinni sé að eiga fallegasta makann, sem er misjafnt hver er hverju sinni, flottasta bílinn, dýrustu íbúðina við Strandvejen eða Christianshav, stræsta sumarbústaðinn í Hornbæk og lif villtasta djammlífinu. Það er efni í slúðurblöð.

Ég vil vekja athygli á því að ég minntist á Sunni frænku mína í þessum pistli.



tirsdag, oktober 07, 2003

Ætlaru í Menntaskóla?..... nei ég ætla að tjilla í fjölbraut...

Í gær gerðist það sem gerist nánast aldrei. Ég tók strætó heim úr skólanum. Nei, ég tek nefnilega alltaf strætó heim úr skólanum. Ég gekk eins og venjulega niðrí strætóskýli neðan við skóla og beið eftir sexunni. Þar voru stödd nokkur önnur ungmenni. Kemur svo gangandi stúlka ein. Hún brosir og segir hæ við einn strákinn. Þau byrja eitthvað að skiptast á upplýsingum um hversu mörgum einingum þau séu í og þess hátta. Ég kannast ekki við þau svo ég geng út frá því að þau séu busar. Stelpan spyr strákinn hvernig gangi. ,,já, bara vel" segir strákurinn. Stelpan spyr þá hvort hann sé ekki þarna á IB brautinni og hvort það sé ekki erfitt. ,,Nei mar, svara strákurinn, það er skítlétt, ekkert að gera". Stelpan verður ansi hissa.
-Já, ég hélt þetta væri svo erfitt.
-Ja, þetta verður sko erfiðara, þetta er bara svona undirbúningsár.
Stelpan horfir niðrí jörðina.
-Já, mér finnst sko geðegt erfitt sko, ég bara hugsaði djöfull verður þessi skóla drulluléttur mar, svo bara fór ég í geðegt erfitt próf um daginn og gat ekki bara neitt sko.
Krakkarnir halda áfram að skiptast á skoðunum um skólann. En þá fer ég að hugsa. Er það virkilega það sem 10.bekkingar halda, að framhaldsskóli sé svona léttur? Eða halda þau kannski bara að fjölbraut sé svona létt? Þegar mér stóð til boða um að velja mér skóla eftir 10. bekk, skildist mér að MH væri skóli í ,,erfiðari" kanntinum og t.d. FB væri svona léttari. Þessvegna vakti þetta athygli mína að stelpan hafi virkilega haldið að MH væri svona auðveldur skóli. Ég vorkenni stelpunni sem á eftir að taka Ísl 203, 303 og 403 svo ekki sé talað um 503. Hún sagðist vera á náttúrufræðibraut og ég segi þá bara, gangi þér vel vinana. Hún veit ekki hvað bíður hennar.
Mér finnst þetta þó miður að svona sé metist á um skólana. Einn skóli er ekkert betri annar. Mér finnst samt eins og nám í fjölbraut sé metið minna en bekkjarkerfið gamla góða. En ég held nú samt bara að fjölbrautakerfi sé kerfi framtíðarinnar. Þar gengur nemendum yfirleitt betur þar sem þeir læra betur í símatsáföngum heldur en í áföngum þar sem lokaprófið hefur mest gildi. Mér skilst nú samt að þetta sé að breytast í líka í bekkjarkerfum þar sem lokaprófið hafi alltaf minna og minna vægi. Enda eru námshæfileikar hvers og eins ekki metnir í einu tveggja klukkutíma prófi.
Mér finnst því að upplýsingar um framhaldskólana eigi að vera skýrar og óhlutbundnar hjá grunnskólunum. Einn skóli er ekki auðveldari eða erfiðari en annar. Einn skóli getur samt hentað hverjum og einum betur en annar, en það er ekkert sem segir hvor sé betri fjölbraut eða bekkjarkerfi.