The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

mandag, december 29, 2003

Snjóofsinn

Í morgun þegar ég loksins opnaði augun við erfiðan leik klukkan rúmlega ellefu, varð mér litið út um gluggann. Allt var hvítt. Úti hafði snjóað, það var skafrenningur og él. Það fyrsta sem kom mér til hugar var að ég yrði ein heima í allan dag þar sem pabbi var farinn niðrí skóla, mamma í vinnuna, Heiðbjört hjá Viðari og Eggert fékk að gista hjá vini sínum í Mosfellsbæ. Ég sá fyrir mér hvernig björgunarsveitin reyndi að koma fólki á milli staða með litlum árangri, fólk yrði að eyða áramótunum hjá ókunnu fólki niðrí bæ, mamma héldi áramót á Landspítalanum, pabbi einn uppí skóla og Eggert og Heiðbjört þar sem þau eru stödd og ég hérna alein. En þegar ég opnaði gluggann og skafaði smá af honum að utan sá ég að þetta var nú ekkert svo rosalegt. Svo kom upp úr dúrnum að pabbi var bara niðrí bílskúr. Þannig að ég var ekkert alein.
Núna hef ég skemmt mér hérna úti í eldhúsglugga í dágóða stund við að horfa á reykvíska karlmenn leika hetjur í snjóofsanum. Þetta eru rekvískir karlmenn sem fara aldrei út á land nema á sumrin og þá geta þeir auðvitað ekki fest bílana sína uppi á fjöllum og lent í ævintýrum.
Nú er hver bíllinn á eftir öðrum búinn að festa sig hérna í innkeyrslunni inn í Fiskakvíslina. Ekki leið á löngu þar til margir menn voru komnir hérna með skóflur, í fjólubláa og gula skíðagallanum sínum, með loðhúfur og í kultabomsum. Komnir til að bjarga deginum.
Fyrst er að segja frá hvítum litlum flutningabíl. Hann festi sig hérna í hjólförunum eftir upphækkaða, fjórhjóladrifna jeppann hans pabba. Brátt voru sex menn komnir til að moka bílinn í burtu. Einn sat inni í bílnum og stýrði bílnum, hinir fimm héldu á skóflu og gegndu því hlutverki að ýta bílnum. Mennirnir æptu og öskruðu upp í veðrið á hvor annan. Svo röðuðu allir sér við húddið á bílnum og þá hófst talningin. Einn þeirra öskraði eins og hann væri að starta spretthlaupi “einn, tveir og ÞRÍR!!!”, og allir lögðu þunga sinn á bílinn og öskruðu eins og þeir ættu lífið að leysa. Svo var haldið áfram að öskra eins og þeir væru á fótboltaleik, meðan bíllinn reyndi að bakka og spólaði í snjónum. “Koma svo strákar!” heyrðist og mig langaði helst að öskra út um gluggann til að hvetja þá “Áfram fávitar, þið getið þetta. DFJÖFULL ERUÐ ÞIÐ AUMIR, AUMINGJAR!!” eins og ég væri að hvetja á kraftlyftinagamóti. En ég ákvað að gera það ekki. Svo loksins kom skafarinn til að ryðja braut strætós sem hefur hingað til átt erfitt með að komast upp brekkuna. Skafarinn skildi hins vegar eftir smá snjóhindrun við innkeyrsluna inn í götuna þannig að rétt í þessu var einn jeppinn að festa sig í henni, en var svo gáfaður að spóla sig ekki fastan. Nú er bara spurning hvaða gáfnaljós taka upp á því að fara á fjöll í þessu veðri, svona bara til að týnast og láta finna sig, þar sem ekki var hægt að týnast á rjúpnaveiðum í haust. Eitthvað verður björgunarsveitin að gera við þessa peninga sem hún fær fyrir flugeldasöluna, ekki satt?



søndag, december 28, 2003

Rjómi

Rjómi er eitt það allra versta sem ég veit. Þá er ég að tala um rjóma einan og sér. Þeyttur rjómi, rjómi úr fernu, þurr rjómi ..o.s.fr. Ég hef aldrei getað skilið hvernig hægt er að fá sér þeyttan rjóma einan og sér. Þykir mér það mjög ógeðfellt. Ég hef stundum séð ákveðnar manneskjur fá sér eintóman þeyttan rjóma í lófann, bara svona til þess að fá sér eitthvað. Fólki finnst líka alveg rosalega gott að fá sér rjómatertu. Ekta rjómaterta er alveg sér íslenskt fyrirbæri, upprunnið í S-Jótlandi. Hin klassíska rjómaterta er eins konar samloka, þar sem marensbotni er hvolft ofan á svampbotn og rjómi settur á milli og ofan á. Með árunum hefur rjómatertan þróast og stundum eru tveir marensbotnar settir saman og svampbotninum sleppt. Sem betur fer hefur hin klassíska rjómaterta breyst með árunum og er hægt að finna í ýmis konar myndum. Um miðja síðustu öld, þegar hægt var að niðursjóða ýmsar matvörur og geyma, varð vinsælt að setja ávexti úr dós á milli botnanna tveggja með rjómanum. Þegar nálgast fór síðustu árþúsundamót og verð á sælgæti fór hríðlækkandi, varð einnig vinsælt að blanda ýmiskonar súkkulaðigúmmilaði við rjómann og auka þannig fjölbreytileika tertunnar.
Þrátt fyrir þessar breytingar hef ég samt aldrei skilið þann sið að drekka mjólk með rjómatertu. Hvað þá nýmjólk. Í hvert sinn sem ég hef reynt þetta hefur fólk í kringum mig mátt þakka fyrir að fá ekki matseðil dags míns yfir sig. M.ö.o. að ég hafi ekki gubbað yfir alla.
Nú yfir jólin hef ég reynt að sniðganga þessi ósköp af rjóma sem heimilið býður upp á. Einu tilfellin sem ég fæ mér rjóma er þegar ég fæ mér kakó, eða ekta súkkulaði. Þá finnst mér alveg einstaklega gott að finna hvernig kaldi rjóminn samblandast heita súkkulaðinu upp í mér.
Á annan í jólum var hinn sígildi möndluleikur Langeyinga í Unufelli. Þá er boðið upp á “risalamande” og get ég hrósað sjálfri mér fyrir að hafa lært af reynslunni. Ég ákvað að ég þyrfti ekki að fá möndluna þar sem ég í fyrsta sinnið á ævinni fékk möndluna hér heima á aðfangadag, og sleppti þess vegna að fá mér þennan rjómagraut. Ég veit ég hefði ábyggilega ælt. Ég get bara ekki gleypt svona mikinn eintóman rjóma.
Mamma bakaði náttúrulega hina sígildu jóladagsrjómatertu fyrir jólin og núna þremur dögum seinna þegar tertan er loksins að klárast hef ég ekki fengið mér einn bita af henni og hef ekki einnþá lyst.
Ástæðan fyrir þessari óbeit minni á rjóma gæti kannski verið upprunnin á Árbæjarsafni, þegar ég tók þátt í mjólkurdeginum sumarið 2002. Þá stóð ég allan daginn að strokka fernurjóma svo úr varð sjmör sem við svo söltuðum og ég fór með heim. Þá var þessi ógeðslega lykt af mér allri í nokkra daga. Svo ekki sé minnst á áfirnar sem ég gaf heimalingunum og þegar ég fór svo eftir á að mjólka beljuna.
Þið megið ekki halda það að ég hafi ekki borðað rjóma um jólin. Ójú. Ég geri mér skilmerkilega grein fyrir því að allt sem ég hef verið að borða inniheldur meiri rjóma en ég gæti nokkurn tíman gert mér grein fyrir. Allt nammið, sósurnar og kakóið. Rjóminn er út um allt. Hann er í flestu því sem við látum upp í okkur um jólin. Nema kókinu. Þá er kannski bara best að drekka kók. Og auðvitað bursta tennurnar vel á eftir.



tirsdag, december 23, 2003

Þorláksmessa

Regnið barði rúðurnar í morgun. Vekjaraklukkan á símanum hringdi á slaginu 10. Þeirri hringingu fylgdu þær raddir sem sögðu mér frá öllu sem væri ógert, skipta á rúminu, setja í þvottavél, hengja úr þvottavélinni, strauja, ryksuga hjá Eggerti, skúra hjá Eggerti, pakka inn, klára að skreyta jólatréð, baka smákökur......og svona mætti lengi telja hvað raddirnar sögðu mér. Eftir að hafa stillt tvisvar á snooze komst ég loks fram úr.
Í nótt hafði rignt svo mestur snjórinn var horfinn. Í bili er hætt að rigna og ég spái því að sá litli snjór sem er eftir haldist þangað til á morgun og nú verði jólin bæði rauð og hvít. Það verði sem sagt einskonar röndótt jól. Rauðröndótt. En ef við veltum þessu svona í alvörunni fyrir okkur yrðu jólin gráröndótt, þar sem snjórinn helst meðfram gráu götunum.
Þorláksmessa er í minningunni frekar leiðigjarn dagur. Dagurinn líður hægt, maturinn er vondur og allir eru að farast úr stressi. En nú er öldin sko önnur. Í dag hlakka ég virkilega til dagsins. Ég ætla að klára að skreyta jólatréð sem ég byrjaði á í nótt, meðan allir hinir horfðu á Lord of The Rings- Special Edition. Einnig ætla ég að vera dugleg við þrifnað í takt við jólatónlist, þannig líður dagurinn hraðar, og ég hlakka virkilega til að borða illa lyktandi fisk með kartöflum og floti í kvöld.
Ef ég þekki svo fjölskyldu mína rétt verður dagurinn á morgun líka virkilega skemmtilegur. Pabbi mun þjóta út í búð klukkan tólf þegar aðeins korter er í möndlugrautinn, af því að hann steingleymdi möndlugjöfunni. Hádegismaturinn mun taka langan tíma þar sem mömmu og pabba finnst virkilega gaman að sýna einstaka leikhæfileika sýna í "hver er með möndluna" - leiknum.
Að lokum verður stúdentshúfan sett upp og haldilð í jólagjafarúntinn.

Gleðileg jól!



mandag, december 22, 2003

Flutningar í svartasta skammdeginu

Síðasta korterið hefur ég fengið svona fimm eða sex hugmyndir að því sem ég ætlaði að skrifa hér. Ég held að enginn af þessum hugmyndum muni lenda hérna núna. Þær flugu út úr höfðinu mínu og eitthvað fram á gang um leið og þær urðu til. Um leið og þær flugu í burtu urðu þær að engu og dóu.

Úti geysar óveður. Ég segi nú bara að það er kominn tími til að Reykvíkingar fái að kynnast því hvernig alvöru vetur er. Hvernig er alvöru ofsaveður. Göturnar fyllast af snjó og allir munu sitja fastir heima í bílastæðunum í fyrramálið í fimm sentímetra snjó. Aumingja þeir sem þurfa að fara í vinnuna. Grágreyin starfsmenn borgarinnar munu þurfa að vakna klukkan 5 til að sópa göturnar. Nei, ég meina moka þennan rosalega snjó! Þegar ég bjó í Ólafsvík var keyrt um í þrjátíu til fimmtíu sentimetra snjó. Ekkert mál. Allir voru á fjórhjóladrifnum eða jeppum. Reykvíkingar upplifa aldrei neitt og eru þar af leiðandi pempíur, þar með talið ég. Hér kemur aldrei Stóri Sunnan. Sem betur fer. Ég vorkenni snjómokstursmönnum.

Í dag færði ég seríuna á hillunni minni yfir á svalahandriðið á húsinu við Ámótipíanóvegi. Áður en ég gerði það hafði ég flutt ósýnilegu fjölskylduna í húsinu Fyrirofanpíanóvegi yfir í nýtt og betra húsnæði við Fyrirofanskrifborðsveg. Þetta nýja húsnæði er þeim eiginleikum gætt að vera með gleri á þrjá vegu, þaki á báðum hæðum og opnan og lokanlegum risahurðum. Reyndar er húsnæðið aðeins minna og var ég neydd til þess að sleppa eldhúsborðinu (sem var nú reyndar bara heimatilbúið úr pappaspjaldi) og skattholinu góða sem ég keypti í Ribe 2001. Á meðan húsið við Fyrirofanskrifborðsveg var í byggingu datt aðventukransinn úr húsinu Fyrirofanpíanóveg út úr húsinu og eyðilagðist. Hann er í viðgerð. Nú búa nokkrar bækur og kertastjakar við Fyrirofanpíanóveg.

Ég bið ykkur vel að lifa þangað til ég skrifa eitthvað næst. Ég skal lofa að skrifa eitthvað sem þið skiljið þá :)



lørdag, december 20, 2003

Tár, bros og támjóir skór....framhaldsskólinn búinn

Nú er herbergið mitt fullt af bókum, kertastjökum og málverkum, allt mjög fallegir hlutir. Loksins er útlit fyrir að auði veggurinn hérna fyrir ofan skrifborðið fái félaga. Ég hef meira að segja um tvo hluti að velja, málverk af Jöklinum eftir Jónas Ingólf, (sem einmitt samdi múrmeldýrsbrandarann um mig !) og skáp sem ég ætla að setja dúkkudótið mitt í. Málverkið er súdentsgjöfin frá mömmu og pabba. Það var pantað sérstaklega fyrir mig og átti að vera af Snæfellsjökli. Mér þykir óskaplega vænt um jökulinn....nefnilega. En ég held að skápurinn eigi vinninginn. Þetta er einmitt sami skápurinn sem Jenný keypti sér og ég sá líka, Heiðbjört keypti hann tveimur dögum á eftir Jenný. Ekki sama eintakið, en sami skápurinn. Jenný ætlar að lakka sinn hvítan en ég ætla að setja hvítt inn í hann þannig að húsgögnin sjáist.
Tilfinningin er furðuleg. Það er eins og ég hangi í lausu lofti. Allar leiðir eru opnar. Enginn gerir kröfu til mín um það að mæta á réttum tíma, á hverjum degi klukkan átta. Það er líkt og einhver stoð í lífinu sé farin og ég þurfi að standa sjálf. Ég gæti alveg trúað því að þetta sé mikið áfall fyrir margt fólk. Að klára menntaskóla.
But live goes on.........without MH. Þannig er nú það. Og einhverra hluta vegna sá Ragnhildur Richter og restin af íslenskudeildinni ástæðu til að veita mér verðlaun. Meðaleinnkun mín í íslensku var nú bara 8. Ekki merkilegri en það. En ég var líka með 32 einingar í íslensku. Það eru ábyggilega margir sem eru með betri meðaleinkunn í íslensku en ég, en ekki með eins margar einingar. Ég held að það sé málið. Ragnhildur sagði mér að leiðin hefði alltaf verið upp á við, enda endaði ég með 10 í íslensku á síðustu önninni minni. Ég er nokkuð stolt af sjálfri mér. En ég verð að viðurkenna, að ég átti alls ekki von á þessu, enda heyrði ég ekki orð af því sem Ragnhildur sagði eftir að hún nefndi nafn mitt við verðlaunaafhendinguna. Fæturnir á mér titruðu. Þegar ég var búinn að taka við þykkri bókargjöf (svo ég lýsi þessu nú alveg í smáatriðum) og stillt mér upp við hliðina á semidúxinum honum Kára (pælið í því, ég...sko ég við hliðina á dúxunum) varð mér litið í átta til fjölskyldu minnar í salnum og það eina sem ég sá var mamma að þurrka tárin. Já, svona var nú mamma mín stolt af mér.

(Núna er ég mjög stressuð yfir því að skrifa nú örugglega rétta íslensku þar sem ég hef fengið viðurkenningu fyrir góðan árangur í íslensku á stúdentsprófi....nei ekki stressuð, ég er undir pressu...nei! ekki pressu það er ekki íslenska....aaaahhhhhrrrrrrgggggg!!!)



mandag, december 15, 2003

Ó manstu gamlar æsku.....stundir

Það var ekki mikil ást kannski í gangi hjá okkur stelpunum í Ólafsvík, nema kannski svona vinkonuást, mér bara datt þetta lag í hug en ákvað að sleppa "ást" kaflanum úr orðinu. Á laugardaginn fór ég nefnilega og hitta gamlar vinkonur mínar sem ég hef bara ekkert verið í sambandi við lengi. Það var mjög gaman. Stelpurnar sögðu mér slúður úr Ólafsvík, hverjir eru nú búnir að eignast börn og svo framvegis. Það vildi einmitt svo skemmtilega til að á laugardaginn var 13. desember. En þann dag voru akkúrat 8 ár síðan við stofnuðum Alþjóða Fíflasambandið. Okkur fannst þetta svo skemmtileg tilviljun. Ég held ég hafi einhverntíman rakið sögu Fíflafélagsins hérna á blogginu en ég nenni því ekki núna. Það sem var svo fyndið var að við töluðum lítið um hluti sem gerðust einu sinni en töluðum samt um það að ef við hefðum ekkert að tala um væri alltaf hægt að rifja upp skemmtileg atvik. Þegar þessi setning var búin mundi ég bara ekki eftir neinu. Ég leitaði í hafsjó minninga í heila mínum en fann ekki neitt. En Helga var snögg að finna eitt atvik og þá rifjuðust mörg upp fyrir mér. Jú, þegar Jóhann braut skápinn. Það var mjög skemmtilegt atvik og fyndið. Við hlógum okkur máttlaus af því. Eins mætti rifja upp múrmeldýrs brandarann og fleira skemmtilegt.

En nú er best að fara að pakka inn jólagjöfum......



fredag, december 12, 2003

Fægt fólk er ekki alltaf athyglyssjúkt

Ég biðst afsökunar á því að hafa látið meira en viku líða milli "blogga". Jólin eru bara að ná tökum á mér og fátt annað kemst að en jólin sem mér finnst vera í næstu viku, þann 19. desember. Ég miða allt út frá því, að vera búin að senda jólakortin og kaupa allar gjafir fyrir föstudaginn næsta. Þá eru jólin hjá mér.

Á miðvikudagskvöldið skellti ég mér á tónleika. Fyrsta klukkutíman, og ekki einu sinni það, sat ég stjörf hliðina á bróður mínum meðan hljómsveit sem kallar sig Mínus spilaði. Ástæðan fyrir því að ég sat stjörf var sú að mér fannst þeir með endemum leiðinlegir. Þeir líta allir út eins og krakkhausar og mér fannst stundum eins og Krummi söngvarinn (öskrarinn) væri að reyna að stæla systur sína, Svölu, með mjaðmabuxum sem virðast ætla að síga alveg niður, en ganga samt skrefi lengra en hún og fara úr öllu að ofan. Svo sögðust þeir ætla að taka alvöru rokk og ról. Þá byrjaði eitthvað lag sem mér fannst því miður lítið rokk og ról og gat bara ekki undir neinum kringumstæðum heyrt að einhvert vagg eða velta væri í þessari tónlist. Sorrí.

Í morgunblaðinu í gær var svo lítið viðtal, tónleikunum tengt. Matthew Bellamy, aðalsöngvari hljómsveitarinnar Muse, sem var aðalástæðan fyrir því að ég fór, var sagður hálf væskilslegur, ég skildi það þannig að hann væri óframfærinn og handtak hans dauft. Honum er nú samt lýst sem algjörum snillingi á sviði tónlistar og verð ég að taka undir það. Í viðtalinu sem tekið var við hann, virtist hann vera afar jarðbundinn manneskja og ekkert að æsa sig of mikið yfir vinsældum hljómsveitarinnar.
Mér fannst eins og blaðamanni þætti hann ekki spennandi persónuleiki. Þá spyr ég. Hvað er að því þó maðurinn sé ekkert sérstaklega athyglissjúkur? Það er eins og allar stjörnur þurfi að vera opnar, háværar, tala mikið og láta mikið á sér bera, til þess að eitthvað mark sé á þeim takandi. Þurfa allir að vera eins og Britney Spears? Þessi maður, og hans félagar, eru aðeins að þessu tónlistarinnar vegna. Mér finnst þetta eingöngu lýsa því. Þeir vilja að fólk hlusti á tónlistina þeirra, litlar stelpur þurfa ekkert að vera svaka skotnar í þeim, enda er Matt þessi alveg forljótur náungi og maður sér það svo vel á honum að hann er breskur. Hann er reyndar ekki jafn ljótur og Thom York, en hermir samt mikið eftir honum.
Tónleikarnir voru alveg afskaplega skemmtilegir. Hljóðið var gott og mér fannst þeir vinna ágætlega úr því að vera aðeins þrír að spila í einu en svo með afganginn tilbúinn. Sú staðreynd að mikið var bara á plötu með..eða þannig, gerði prógrammið reyndar svolítið stíft. Þeir keyrðu þetta hratt og örugglega í gegn, enda með góðum árangri. Mér finnst Muse vera búnir að marka sér sína eigin stöðu og verð að segja að ég er ósammála gagnrýnanda Moggans að því leytinu til að tónlist þeirra sé mjög lík og allt mjög eins á nýju plötunni og hinum tveimur á undan. Muse hefur nefnilega verið líkt mjög mikið við Radiohead og hafa ábyggilega hermt mjög mikið eftir þeim í upphafi. Ég held þess vegan að það sé bara ágætt að þeir haldi áfram í þeim stíl sem þeir hafi búið til áður en þeir fara að gera eitthvað nýtt. Nú hafa þeir nefnilega myndað sér sérstöðu með stöðugum brotnum hljómum píanósins og ákveðnum sánd effektum.



torsdag, december 04, 2003

Muse

Mér þykir bloggið mitt óspennandi blogg. Það er útlitslega fráhrindandi og efnislega líka..eiginlega. Ég þarf að fara að hressa eitthvað upp á þetta hjá mér.

Allar líkur benda til þess að ég sé að fara á Muse tónleikana. Svo skemmtilega vildi til að ég hitti Snorra frænda í afmæli í gær (Sæunn átti afmæli, til hamingju Sæunn) og hann sagði mér að hann ætti tvo aukamiða á tónleikana, miðar frá fólki sem er að beila á tónleikunum. Þannig að það er aldrei að vita nema að Eggert skelli sér með mér og við bara förum og rokkum með Muse (uppi í stúkunni). Ég held ég myndi samt ekki endilega nenna að að vera niðri í salnum þar sem ég þekki ekki nýja diskinn með Muse og gæti því ekki hoppað í takt við lögin og fyrir þær sakir að ég myndi ekki sjá neitt. Laugardalshöllin er nefnilega ekki eins flott og Roskilde- völlurinn fyrir framan Orange, að vera hallandi og með stórum risastórum skjá. Ég held það sé því bara best fyrir svona písl eins og mig að vera í stúku.



onsdag, december 03, 2003

Júhúúúúúu, sjallallla, trallallallaa, falllallalalallalafallalítrallalí!!!!

Undir jólahjólatré er pakki,
undir jólahjólatré er voðalega stór paakkkiiiii!!

Já, þannig er nú það. Hvað er dásamlegra en þegar endalokin á einhverju erfiðu verkefni eru í sjónmáli. Jú, þannig er svo komið fyrir mér. Loksins hef ég lokið blessaða stigprófinu og í dag lauk ég stærðfræðiprófiinu. Síðasta föstudag gekk ég út úr MH, vitandi það að sá dagur væri síðasti kennsludagur minn í þessum guðsblessaða skóla.

Ég get því bara ekki annað í tilefni dagsins, en dillað mér og sungið. Nú ætla ég að finna mér ritgerðarefni fyrir lokaritgerðina í sögu og reyna að læra fyrir blessaða hljómfræðina. En....jólin eru á leiðinni......!!!

"Ohohho, I don´t wanna a lot for christmas, there's just one thing I need,
I don´t care about the presents, underneath the christmastree.......All I want for christmas is yooooouuuuu.....Ohohohhohoho....."