Ég var alveg búin að ákveða um hvað ég ætlaði að skrifa í gærkveldi. Okkur er það tamt að vilja skrifa um það markverðasta yfir daginn í svona dagbækur, sem bloggsíður eru í raun og veru.
Þetta sem ég er að tala um reyndist þó í lok dagsins ekkert endilega vera það markverðasta sem gerðist í gær. Berjast þó tveir atburðir um fyrsta sætið.
Ég fór í fyrsta ökutímann minn í gær. Þykir mér það heyra til tíðinda. En það sem mér þótti einnig afskaplega merkilegur og skemmtilegur atburður var símtal sem ég fékk í gærkveldi þar sem ég var stödd hjá Jenný Höllu að horfa á Extreme Makeover. Símtalið var eitthvað á þessa leið:
-Já, Ingrid. Sæl, ég heiti Berglind og er að hringja frá Fegurðarsamkeppni Íslands.
-...hhhuuu, já, ok.
-Við fengum ábendingu um þig og ég vildi spyrja hvort þú værir ekki til í að koma í prufu á föstudaginn fyrir Fegurðarsamkeppni Reykjavíkur. (eða hvort hún sagði Ungfrú Reykjavík, ég man það ekki)
-...öööö...hmmm...huuu..ég veit það ekki......ég held samt ekki...því miður.
-Ertu alveg viss, viltu ekki koma á föstudaginn og prófa?
-huuuu...hehe...nei, ég er ekki í svoleiðis hugleiðingum núna, ég held ekki.
-Ertu alveg vi..
-Já!
-Ok, en ef þú skiptir um skoðun þá hringiru bara aftur í okkur.
-Já ok BLESS!
Eftir á fór ég að hugsa hvers vegna í ósköpunum ég hafði sagt "því miður". Því miður fyrir hvern? Ekki þau allavegana. Eins og það séu ekki stelpur í tonnatali sem bíða eftir því að slá í gegn sem fyrirsætur eða fegurðardrottningar.
Eins og ég held ég hafi áður skrifað á þessa síðu er fegurð mjög afstæð. Ég persónulega þarf ekki dómara og leðurbrúnt fólk með aflitað hár til að dæma hvort ég sé falleg eða ekki. Enda held ég að ég sé of lágvaxin til þess að fá að taka þátt.
Það er þó hrós að vera skráð á listann, takk Sunna.
Það eina sem gæti lokkað mig í svona keppni er "makover", að verða "Ny Kvinde" og kaupa ný föt. En peningurinn sem maður þarf að leggja sjálfur í þetta er gríðarlegur og mér fannst bara ég vilja frekar taka bílprófið heldur en þetta.
Ég sá þetta alveg fyrir mér hvernig ég væri alltaf á uppastaðnum World Class á Laugum og kæmist aldrei í ökutíma og gæti ekki tekið sitgpróf á saxinn og gæti ekki farið í hamborgara og fataferð til DK, svo ég tali nú ekki um að þurfa að hætta að drekki pepsí og kók. Nei, takk, ekki fyrir mig!!