The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

lørdag, februar 28, 2004

DÓNI, SÖMULEIÐIS!!

Ég segi oft sögur sem eru ekki fyndnar og þjóna engum tilgangi. Eftirfarandi saga gæti alveg flokkast sem tilgangslaus saga, dæmi hver um sig. Hins vegar munu þið hlæja eftir að hafa lesið þessa sögu þar sem hún er svo ótrúleg og ef þið lesendur góðir eigið eftir að segja einhverjum öðrum söguna þá hefur hún þjónað einhverjum tilgangi.

Eins og æstir aðáendur síðunnar vita þá rifnaði eiturgræni kjóllinn minn um síðustu helgi. Til að gera langa sögu stuttu er ekki auðvelt að laga hann og í ljós kom að ýmislegt er að honum í þokkabót. Kjólinn keypi mamma á mig í Mondo í nóvember og var ég í honum við útskriftina mína.
Kjóllinn var þá of stór á mig en þar sem hann var svo ódýr fórum við bara með hann til saumakonu sem Mondokonan benti okkur á og saumakonan þrengdi kjólinn að aftan. En nú rifnaði hann að framan. Ekki nóg með það, heldur höfðu spangirnar í honum rispað mig á maganum.
Á miðvikudaginn síðasta fórum ég og mamma með kjólinn í Mondo því fjagra skipta ending á svona kjól er engan veginn viðunandi. Um leið og við komum og mamma bar upp erindið brjálaðist konan í búðinni. Hún sagðist alveg muna eftir kjólnum en spurði hvað við vildum að hún gerði. Mamma sagðist bara vilja að hún skoðaði hann og spurði hvort þetta væri eðlileg endin á kjól. Konan var mjög æst og sagði að þetta kæmi sér ekkert við, þetta væri ekki sami kjóllinn og hún seldi okkur, við værum búnar að láta þrengja hann og þá væri hann ekki sá sami. -Já, en þú ert með þessa saumakonu á þínum snærum, hvað eigum við þá að gera? sagði mamma.
-Já ég meina, kjóllinn hefur bara verið allt of þröngur á hana. sagði konan rosalega æst.
-Bíddu, af hverju ertu svona æst? spurði mamma.
-Guð ég er bara svo hneyksluð, æpti konan og greip fyrir andlitið, að þú skulir vera að koma með kjólinn til mín, þetta kemur mér ekkert við.
-Já, en þú seldir okkur kjólinn.
-Já! en þetta er ekkert sami kjóllinn, þú ert búin að láta breyta honum. Sko helduru að ég vit ekki hvernig þessar ungu stelpur eru þegar þær vilja fá þrönga kjóla. Svo byrjaði konan að leika hvernig ég á að hafa hagað mér hjá saumakonunni!
Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þannig að mamma sagði bara við hana að hún væri svo hissa, hún hefði haldið að þetta væri svo fín búð og konan svo fín sölukona.
-Þú ert nú bara dónaleg, sagði mamma við hana.
-Já!, æpti konan, sömuleiðis!
Mamma byrjaði bara að pakka saman kjólnum og sagði við hana að hún skildi sko bera út þessa sögu og ætlaði ekki að skipta aftur við hana. Mamma gerði sig líklega til að fara svo ég bara labbaði út á undan, alveg í sjokki. Þegar mamma var í dyrunum kallaði kellingin á eftir henni:
-Já, farðu bara og stígðu sko aldrei fæti hérna inn aftur!!
Ég og mamma fórum bara að hlæja þegar við komum út, þetta var svo fáránlegt. Sem betur fer voru viðtökurnar allt aðrar hjá saumakonunni sem ætlar að reyna að gera eitthvað fyrir kjólinn en þá verð ég líka að fórna sjalinu sem fylgdi kjólnum.
Ég verð nú bara að segja, svona dónaskapur hjá verslunarfólki á ekki að viðgangast.



onsdag, februar 25, 2004

Nætur...draumalönd

Muniði eftir júróvisjónlaginu "Nætur"? Ekkert svo kúl lag. Allavegana. Í fyrri nótt dreymdi mig mjög skemmtilega og furðulegan draum.

Þannig var að ég var á leiðinni eitthvert. Var með bakpokann minn. Ég var stödd í sjoppu hjá honum Vigni í Írafár (þökk sé Fréttablaðinu og frétt um það hvað hann ætlaði að gera síðastliðna helgi). Stelpa úr MH var þarna líka (hana hafði ég hitt daginn áður í strætóskýli). Hún var að kaupa sér kex og kók svo ég ákvað að fá mér líka alveg eins kex og kók. Nema hvað að hinn sjarmerandi Vignir sem var í svipaðri múnderingu og Colin Firth í Fever Pitch (algjörlega óþekkt og gömul mynd), tók tvo kexpakka og fór svo að ná í safa og rétti mér. Ég sagðist ekki vilja fá tveggja lítra fernu af ávaxtasafa svo hann fór bara að hlæja og bað afsökunar en ég sagði við hann að hann hefði ábyggilega náð í fernuna út af því að hann vildi sjálfur fá sér safa. Já, já, einmitt það. Svo sat ég inni í Ártúni og var í þúngum þönkum að læra við skólaborð, mér finnst það hafa verið hljómfræði. Þá sé ég hvar Þórarinn bekkjabróðir minn úr Ólafsvík sem ég hef ekki séð í mörg ár, birtist með saxafóntösku á bakinu, með húfu og í Nike úlpunni sinni sem hann átti þegar hann var 12 ára. Ég var rosa hneyksluð á honum að vilja ekki heilsa mér en hann brosti svo bara til mín og faldi sig, þá hugsaði ég "Týpískt Þórarinn".
Já þetta var mjög áhugavert. Ruglaðar nætur stundum.



tirsdag, februar 24, 2004

Chopin í bílinn!

Í morgun sá ég Jónas Ingimundarson í Ísland í Bítið. Mér fannst það mjög fyndið þar sem hann var að taka dæmi um tilfinningar og túlkun á tónlist. Flest dæmin sem hann tók voru samin af Chopin. Hann meira að segja tók dæmi um vals sem ég fann á netinu um daginn og hef verið að leika mér að spila. Sá var dæmi um trega í tónlist. Þetta er líka fyndið þar sem ég á disk með Jónasi Ingimundarsyni þar sem hann tekur Mazurkur Chopin fyrir á einu bretti, eða svona næstum því, einum tónleikum. Það má alltaf sjá hver hefur gaman af hverju. Svona eins og Erik Mogensen sem er með æði fyrir Vopnaða Manninum.

Í dag sótti ég svo æfingaleyfið. En hvað það er góð tilfinning. Að fá að keyra, þó ekki alveg frjáls því ég á ekki eftir að taka ökuprófið fyrr en eftir svona tvo mánuði. En það er allt í fína. Nú er bara um að gera að taka Chopin með sér í bílinn og keyra og keyra út um allt.

Já og m.é.m. (meðan ég man) David Gray og Josh Groban eru æði. Ekki eins en samt báðir æði!



søndag, februar 22, 2004

Another Saturday Night

"Another saturday night and I ain't got nobody,
I got some money cause I just got payd,
Now how I wish I had someone to talk to......"

Það er nú reyndar ekkert laugardagskvöld, ég er bara í svona "svona-tónlist-stuði". Reyndar er ókeypis inn á Hótel Borg í kvöld þar sem amerísk jazzsöngkona mun koma fram og mig langar rosalega, en það nennir enginn með mér :( En þá verð ég bara heima og horfi á Nikolaj og Julie.

Á föstudagskvöld var haldin hin ógleymanlega árshátið tónlistarnema (en ekki -nema FíH og Söngskólans sem voru með einhvern móral). Þar voru óborganleg skemmtiatriði og slóu tónlistarnemar TSDK í gegn með a-capella útgáfu sinni á Mario Bros- Overworld Theme og Underworld Theme. Svo var dansað fram á rauðua nótt við undirleik Rússíbananna. Ég dansaði meira að segja svo mikið að kjóllinn minn rifnaði.... :( Ég er alveg ofsalega leið vegna þess, flotti kjóllinn minn, hinn yndislega æðsilegi kjóll sem ég elska.

Í dag var Moose The Moche tekið og Confirmation með miklum fíling og heyrir það til tíðinda að saxinn sé tekinn upp hérna inni í herberginu, venjulega er það bara einu sinni í viku sem hann sér dagsins ljós og þá í tíma niðrá Engjateigi. Svo tók ég líka æfingu, tilbrigði númer 3 en hætti þar sem ég var næstum búin að fá andateppu og hefði kafnað úr of miklum hraða lagsins og of fáum öndunarstöum.

Græna þruman ætlar að gera öndunaræfingar í kvöld og gráta svo yfir veikindum kjólsins.



tirsdag, februar 17, 2004

Glens-fimmhundruðkallinnn

Í vinnunni á morgnanna horfi ég ansi mikið á Ísland í bítið, veit ekki af hverju, samt er alltaf frekar mikið að gera frá átta til eitt. En í morgun var hinn ótrúlega vinsæli og sjarmerandi Jón Sigurðsson, ædolstjarna einn gesta þáttarins. Hann var að syngja frumsamin lög og spilaði með á gítar. Ég verð nú að segja að þetta var bara ágætt hjá honum. Lagasmíðarnar minntu svolítið á mínar eigin lagasmíðar sem ganga aðallega út á G-C-D (eða bara í annarri tóntegun sem sagt I-IV-V eða eitthvað svoleiðis) . Einnig voru textarnir mjög í átt við mína eigin á tímabilinu 13-17 ára, "heart" var mikið notað eins "úúú" og að láta allt ríma við "you", var eitthvað sem ég notaði óspart. Fimmhundruðkallinn er svo heppinn að vera í þeirri stöðu að allar dyr standa honum opnar og hann getur komið sinni tónlist á framfæri. Ég segi því bara að hann eigi framtíðina fyrir sér í tónlistinni þó þessi lög hafi alveg verið hræðileg og illa samin. Hann á örugglega eftir að bæta sig.......... ;)



fredag, februar 13, 2004

Raindrop Prelude

Ég halla aftur augunum. Ég sit inni í garðstofu í stórum þægilegum stól með teppi ofan á mér. Úti er rigning. Chopin byrjar í Des-dúr. Regndroparnir byrja að falla á þakið. Ég heyri í þeim, einn í einu og smá saman verða þeir fleiri, þangað til aðeins heyrist þægilegt en samt hávasamt suð út frá riginingunni. Regnið fellur á trén og gróðurinn. Ég finn hvernig laufblöðin bogna undan regndropunum. Smá saman ágerist riginingin og verður þunglamaleg. Svo hægist aftur um og aðeins bleytan situr eftir á allri náttúrunni og sólin finnur sér leið gegnum skýin.

Ég vakna. Ég heyri að úti er rigining. Sest við tölvuna og set á "Raindrop Prelude", nú ætla ég að njóta riginingarinnar. Chopin byrjar á sínum hugljúfu tónum. Ég lít út um gluggann. Skyndilega hefur lagið enga merkingu. Úti er rigining, það er víst, og rok, skítur, bílar, grá steinsteypuhús, drullugt gras, rusl milli ólaufgaðra trjánna. Getur ekki farið að koma vor bráðum?

Ég fékk allt í einu rosalegt æði fyrir þessari prelúdíu, hún er samt enn aðeins of erfið fyrir mig, en vonandi á það nú eftir að lagast. Ég kemst í gegnum hana en hún er ekkert svakalega flott hjá mér. Verður það einhverntíman.



tirsdag, februar 10, 2004

Loksins sannur MH-ingur

Nú loksins þegar ég er búin með MH, ákvað ég að gerast sannur MH-ingur og klæða mig í gardínu. Gardínan sem varð fyrir valinu var nýlega sett upp inni í herbergi hjá Eggerti, unglingnum á heimilinu, og er dökkblátt flauel. Gardínan var of síð svo mamma klippti neðan af henni og setti afgangana inn í skáp. Ég tók þá bara afgangana, skeytti þeim saman og sneið pils og saumaði saman. Það var ekkert mjög erfitt, byrjaði klukkan hálfsjö og kláraði núna hálf tíu. Er mjög stolt af sjálfri mér! Klapp fyrir mér, takk fyrir!



mandag, februar 09, 2004

Jessý hundur, frænka mín, á afmæli í dag, þann níunda febrúar tvöþúsund og fjögur. Ég óska henni til hamingju. Hún er nú tólf-manns- ára. Afmælishundurinn mun eyða deginu heima hjá sér á Patreksfirði.



fredag, februar 06, 2004

Eitt sinn voru þrjár ljóskur á eyðieyju. Reyndar var þessi eyðieyja rétt hjá landi en á milli lands og eyju var djúpt mikið sund. Allt í einu birtist ljóskunum andi (hvernig sem það getur nú gerst) og gaf þeim öllum eina ósk hver. Sú fyrsta byrjaði á því að óska sér meiri gáfur svo hún kæmist nú yfir sundið og í land. Hárið á henni varð rautt og hún tók við að synda yfir í land. Ljóska númer tvö óskaði sér meiri gáfur svo hún kæmist líka yfir. Hún varð brúnhærð og byggði sér fleka og fór yfir. Þá kom sú þriðja og óskaði sér meiri gáfur en þessar tvær hefðu fengið til samans. Hún breyttist í karlmann og gekk yfir brúna í land.

Mér finnst vanta fleiri brandara um heimsku karlmanna.



Loksins, loksins!!

Loksins loksins getur Ingrid tekið gleði sína á ný. Nú á sunnudaginn koma Nikoaj og Julie aftur á skjáinn. Rosalega er ég spennt! Því miður las ég einhverja lýsingu á lokaatriði þáttaraðanna í OK í Danmörku síðasta sumar en veit samt ekkert hvað gerist en veit samt....skiljiði? Þegar síðasta þáttaröð endaði voru allir staddir á grímuballi í dansskóla mömmu Julie. Nikolaj ætlaði að segja Julie að Kim væri að flytja inn til sín með allan krakkaskarann en hætti við þegar Julie tilkynnti honum að hún og einhver kall (Lars) ættu von á barni. Nikolaj vissi sem sagt varla hver þessi maður var og varð alveg rosalega afbrýðisamur enda mjög skrýtið að hún muni eignast annað barn sem er ekki barnið hans. En allavegana. Bæjarfulltrúinn var orðinn virkilega "næs" við Karinu og eitthvað í gangi þar. Greyið Frank er orðinn afhuga henni og nennir ekkert að gera til að bjarga hjónabandinu. Philip er komin í eyturlyf og ætlaði að selja sinn hlut í fyrirtækinu. Gvöð! Hvað ætli gerist?

Ekki nóg með það heldur mun þáttaröðin Launráð eða "Alias" hefja göngu sína á ný annan mánudag (eftir rúma viku). Ég er alveg hrikalega spennt að vita hvað gerist í þessum þáttum. Hvernig mun Hálandahöfðinginn er búinn og endaði bara vel, enginn spenningur þar fyrir næstu seríu.

Vei vei!!



torsdag, februar 05, 2004

Strákarnir okkar....sekir um stórglæp!

Síðastliðinn mánudag var Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla, tekinn í viðtal í þeim ágæta þætti Ísland í Dag á Stöð 2. Tilefnið var nýliðin Evrópumeistarakeppni í Slóveníu þar sem eins og allir vita, landsliðið gjörsamlega floppaði og komst ekki upp úr riðlinum sínum, sem sagt tapaði öllum leikjum.
Þáttastjórnendur gerðu hvað þeir gátu til þess að brjóta viðmælandann niður og koma honum út í horn með lævísum og illkvittnislegum spurningum og var oft á tíðum eins og spyrjendur hefðu algjörar ranghugmyndir um handbolta og svona stórmót og voru spurningar þeirra oftar en ekki óraunhæfar. Landsliðsþjálfari reyndi hvað hann gat að svara spurningum yfirheyrslumanna og útskýra fyrir þeim aðstæður liðsins á þessu móti. Spyrjendur hefðu alveg eins getað verið með stórsekan glæpamann í stólnum eða bara alveg eins Árna Johnsen. Hinn seki stóð sig þó alveg með ágætum og svaraði á íþróttamannslegan hátt þegar rannsóknarlögreglufólkið reyndi að fá hann til að draga leikmenn liðsins í dilka eftir getu og hæfni og margreyndu að fá hann til að uppljóstra hverjum hann ætlaði að sparka úr liðinu fyrir Ólympíuleikana.
Mér fannst þetta viðtal alveg óviðeigandi og mega þáttastjórnendur skammast sín fyrir að koma illa fram og sýna landsliðinu vanvirðingu sem svona viðtal er.



onsdag, februar 04, 2004

Að sofa á daginn!

Aldrei hélt ég að að þessu myndi koma. En það gerði það nú samt. Í allan dag er ég búin að hlakka til að koma heim, setjast við píanóið og byrja að æfa mig. Þegar ég var svo loksins sest við mitt heittelskaða píanó, búin að spila hljómhæfan moll gagnstiga, áttunda-æfingar í vinstri og var bara nýbyrjuð á einu undirspilsverkinu, datt höfuðið á mér nokkrum sinnum niður í allgerri þreytu. Alveg ótrúlegt hvernig ég blikkaði augunum en samt komu augnlokin ekki upp aftur heldur kipptu höfðinu með sér svo ég kipptist sjálf öll til, svo ég myndi nú ekki stórslasa mig. Þá ákvað ég að leggjast í rúmið og eftir korter varð síminn minn alveg brjálaður svo ég slökkti á honum og vaknaði ekki fyrr en korteri seinna. Ég sem sagt steinsvaf í hálftíma. Þetta er alveg órúlegt svo þessir tveir tímar sem ég ætlaði að æfa mig hafa bara horfið burt og orðið að einhverjum hálftíma....þó svo ég muni bæta úr því þá er ég samt mjög svekkt. Ég hélt líka að það mydndi aldrei koma fyrir mig að sofna um miðjan dag. Bara sísona. Það er ekk minn stíll. Að sofa á daginn!



søndag, februar 01, 2004

Steiktar bækur.....mjög góðar með hvítlauksolíu og svörtum pipar

Ég hef svo gjörsamlega ekkert um að skrifa. Í gærkveldi reyndi ég að halda áfram með bókina Veröld Soffíu sem ég á bara mjög erfitt með að komast inn í því bókin er frekar steikt og fjallar um heimspeki en ekki glataðar ástir og ungar ofsakenndar konur. Það virðist það eina sem ég get lesið um núna, ( sem sönnun hef ég ekki lesið það sem ég á að vera búin að lesa í ökubókinni). Um daginn las ég bókina Nætursöngvar eftir Vigdísi Gríms. Bókin kom bara verulega á óvart en mamma var búin að segja mér fyrir langa löngu að bókin fjallaði um mann með hrafnshöfuð. Þess vegna las ég hana ekki fyrr en núna. Hún var ágæt, ég beið samt alltaf eftir útskýringum á því þegar aðalpersónan sagði "ég skildi það ekki þá en ég skil það núna" en ég fékk samt aldrei að vita hvað var að skilja eða hvernig ætti að skilja. Svo las ég bókina Stúlka Með Fingur, eftir Þórunni Valdimarsdóttur. Ég gjörsamlega tapaði mér í bókinni sem einmitt fjallar um forboðnar ástir. Bókin segir samt frá mestu sifjaspellum sem ég hef lesið um og er mjög klámfengin þar sem hún á að gerast fyrir lok vesturfaraferðanna, svona rétt eftir aldamótin 1900. Mér ofbauð á stöku stað. Og núna er ég að lesa enn eina steiktu bókina sem hefur þann megin tilgang að segja fólki að heimspekingar séu eina fólkið sem geti hugsað og allir aðrir séu bara heilalaust fólk sem er sama um tilgang lífsins og tilverunnar.

En ég ætla að halda áfram að lesa í kvöld.