Ég segi oft sögur sem eru ekki fyndnar og þjóna engum tilgangi. Eftirfarandi saga gæti alveg flokkast sem tilgangslaus saga, dæmi hver um sig. Hins vegar munu þið hlæja eftir að hafa lesið þessa sögu þar sem hún er svo ótrúleg og ef þið lesendur góðir eigið eftir að segja einhverjum öðrum söguna þá hefur hún þjónað einhverjum tilgangi.
Eins og æstir aðáendur síðunnar vita þá rifnaði eiturgræni kjóllinn minn um síðustu helgi. Til að gera langa sögu stuttu er ekki auðvelt að laga hann og í ljós kom að ýmislegt er að honum í þokkabót. Kjólinn keypi mamma á mig í Mondo í nóvember og var ég í honum við útskriftina mína.
Kjóllinn var þá of stór á mig en þar sem hann var svo ódýr fórum við bara með hann til saumakonu sem Mondokonan benti okkur á og saumakonan þrengdi kjólinn að aftan. En nú rifnaði hann að framan. Ekki nóg með það, heldur höfðu spangirnar í honum rispað mig á maganum.
Á miðvikudaginn síðasta fórum ég og mamma með kjólinn í Mondo því fjagra skipta ending á svona kjól er engan veginn viðunandi. Um leið og við komum og mamma bar upp erindið brjálaðist konan í búðinni. Hún sagðist alveg muna eftir kjólnum en spurði hvað við vildum að hún gerði. Mamma sagðist bara vilja að hún skoðaði hann og spurði hvort þetta væri eðlileg endin á kjól. Konan var mjög æst og sagði að þetta kæmi sér ekkert við, þetta væri ekki sami kjóllinn og hún seldi okkur, við værum búnar að láta þrengja hann og þá væri hann ekki sá sami. -Já, en þú ert með þessa saumakonu á þínum snærum, hvað eigum við þá að gera? sagði mamma.
-Já ég meina, kjóllinn hefur bara verið allt of þröngur á hana. sagði konan rosalega æst.
-Bíddu, af hverju ertu svona æst? spurði mamma.
-Guð ég er bara svo hneyksluð, æpti konan og greip fyrir andlitið, að þú skulir vera að koma með kjólinn til mín, þetta kemur mér ekkert við.
-Já, en þú seldir okkur kjólinn.
-Já! en þetta er ekkert sami kjóllinn, þú ert búin að láta breyta honum. Sko helduru að ég vit ekki hvernig þessar ungu stelpur eru þegar þær vilja fá þrönga kjóla. Svo byrjaði konan að leika hvernig ég á að hafa hagað mér hjá saumakonunni!
Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þannig að mamma sagði bara við hana að hún væri svo hissa, hún hefði haldið að þetta væri svo fín búð og konan svo fín sölukona.
-Þú ert nú bara dónaleg, sagði mamma við hana.
-Já!, æpti konan, sömuleiðis!
Mamma byrjaði bara að pakka saman kjólnum og sagði við hana að hún skildi sko bera út þessa sögu og ætlaði ekki að skipta aftur við hana. Mamma gerði sig líklega til að fara svo ég bara labbaði út á undan, alveg í sjokki. Þegar mamma var í dyrunum kallaði kellingin á eftir henni:
-Já, farðu bara og stígðu sko aldrei fæti hérna inn aftur!!
Ég og mamma fórum bara að hlæja þegar við komum út, þetta var svo fáránlegt. Sem betur fer voru viðtökurnar allt aðrar hjá saumakonunni sem ætlar að reyna að gera eitthvað fyrir kjólinn en þá verð ég líka að fórna sjalinu sem fylgdi kjólnum.
Ég verð nú bara að segja, svona dónaskapur hjá verslunarfólki á ekki að viðgangast.