The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

onsdag, marts 31, 2004

Æfingaleti

Þessa dagana er mikil spenna í mér. Ég er sem sagt mjög spennt. Nú á ég bara eina viku eftir af táningsárunum, sem er mjög spennandi. Ég held að það sé ástæðan fyrir því að ég á mjög erfitt með að einbeita mér við píanóið. Ég kalla svona letiköst píanókrísur. Stundum fer ég í svona píanókrísur, þar sem ég tel mínúturnar þangað til einn klukkutími er liðinn eða bara eitt lag. Í píanókrísum er tíminn ekki skipulagður eins og flest alla aðra daga. Venjulega skipulegg ég hverja mínútu á tveimur klukkustundum. Fyrst byrja ég á tónstigum í ákveðið margar mínútur, svo byrja ég á einhverju lagi og æfi það ákveðið lengi og með ákveðnum hætti og áherslum. Og svona gengur það í tvær klukkustundir. En nei ekki núna. Núna sest ég við píanóið, horfi á nóturnar og tölvuna til skiptis. Mestar líkur eru á að ég endi við tölvuna.
Ég reyni að tengja þetta við Friends æðið mitt. Ég horfði á alla seríu númer tvö á laugardag og sunnudag. 24 þætti.
Enda er ég mjög steikt og súr núna. Ég er sýrð af Friends bröndurum og mjög spennt að fá fleiri þætti lánaða hjá Sunnu.
En verkefni dagsins er auka hljómfræðitími og tónfundur þar sem Charlie Parker lagið Moose The Mooche verður flutt snilldarlega af mér. Eða svo vona ég.....



mandag, marts 29, 2004

Ok, hvern dreymdi að það væri ísverkssmiðja undir Tónskólanum á Engjateigi? Hvar las ég þetta??...og Sigursveinn var að stelast til að gefa okkur ís? Hvern??



f...f..... Flosi Ólafsson...arghhhh!!

Á laugardagskvöldið fór ég til að spila undir hjá Júlíönnu frænku minni á einhverri árshátíð hjá...ehhe...svæðisskrifsstofu...eitthvað Suðurnesjum. Allavegana. Mér er sagt að mæta klukkan hálftíu. Við eigum að koma fram um korter tíu mínútur í tíu og ég fæ svona 4000 kall fyrir. Ok. Fínt. Þegar ég mæti eru allir í salnum orðnir vel fullir. Júlíanna kemur til mín og segir að þessu seinki aðeins því maturinn hafi verið borinn svo seint á borð og við eigum ekki að syngja fyrr en eftir matinn. Ok, segi ég ekkert mál. Ég sest bara þarna og fylgist með. Allt í einu, þegar ég er búin að bíða þarna í svona korter, birtist Flosi Ólafsson. Já, hugsaði ég, hann á að skemmta, en gaman. En svo þegar ég er búin að bíða þarna í hálftíma, kemur einhver kona og segir Flosa Ólafssyni að gjöra svo vel og hann er kynntur. Ég varð nú svolítið pirruð og hugsaði með mér að hann fengi miklu meira borgað en við og við erum búnar að æfa okkur fyrir þetta. Svo byrjar hann að tala, haha, voða fyndinn. Segir karlrembubrandara af sér og svona. Já, já, ég hló. En svo heldur hann áfram að tala, og talar og talar, svo er fólkið þarna orðið svo drukkið að enginn heyrir lengur í honum, en hann heldur áfram að tala. Og svo er hann búin að tala í klukkutíma og ég að bíða í einn og hálfan klukkutíma!! Þá förum við að tala við einhverja konu og hún biðst innilegrar afsökunar á þessu og segist ekki vita meira en það að Flosi Ólafsson hafi ekki átta að vera svona snemma í dagskránni, við höfum átt að vera á undan. Og hvað tók okkar atriði langan tíma þegar loksins kom að okkur, fimm mínútur!! Og þetta gerði ég fyrir fjögurþúsund krónur. Ég hef aldrei vitað aðra eins hneysu. Ég náði ekki upp í nösina á mér, ég var svo hneyksluð..reyndar held ég að Flosi Ólafsson hafi náð einhverju upp í nösina á sér, ég væri ekki hissa þó það hafi verið eitthvað lyftiduft. Fólk hefur horft á mig og hugsað " Ein með stjörnustæla" eða eitthvað í þá áttina. En só vott? Eins og lesendur geta ímyndað sér var ég mjög pirruð og reið!!



lørdag, marts 27, 2004

Djassssssss........

Í gær fór ég á ungjass tónleika. Þetta voru bara fínustu tónleikar. Ég var búin að rita heila bók um hvað mér fannst um þá í huganum en er búin að gleyma því öllu. Þó verð ég að segja frá því að ég var orðin svo rosalega þreytt klukkan ellefu að ég heimtaði að við færum heim. Og til Sunnu fórum við og svo heim. Þá var danska hljómsveitin Reflex að spila. Ég var syfjuð fyrir og varð ennþá syfjaðri yfir þessari hljómsveit. Myndi alveg vilja eiga dinner-disk með henni. Þá er tónlistinni best lýst.

Í kvöld er það svo undirleikur á árshátíð og partý hjá Sunnu. Gaman að því.



tirsdag, marts 23, 2004

Ég er að kafna úr reykelsislykt, ætlaði að reyna að setja einhvern góðan ilm inni í herbergið mitt, finnst alltaf svo vond lykt hérna....díses, þetta var nú kannski einum of mikið!



mandag, marts 22, 2004

Hundraðlistar, ekki nægilega tæmandi

Jenný Halla hefur birt hundraðlista á blogginu sínu. Ég persónulega nenni ekki að gera svona lista. Ég get einfaldlega ekki ákveðið hvort ástæðan er sú að líf mitt er ekki nægilega innihaldsríkt þannig að allt fylli listann eða einfaldlega sú að ég gæti ekki komið öllu fyrir sem ég vildi á svona lista. Hann yrði að vera þúsundlisti. Ætli það sé ekki það.
Ég hef samt ákveðið að gera smá æðislista og "hvaðégætlaaðverðaþegarégverðstór" lista.

-Þegar ég var 7 ára fékk ég æði fyrir Stjórninni.
-Þegar ég var 9 ára fékk ég æði fyrir Elvis Presley og Whitney Houston. (?) !
-Þegar ég var 12 ára fékk ég Bítlaæði.
-Þegar ég var 14 ára fékk ég Abbaæði.
-Þegar ég var 15 ára fékk ég Sálin hans Jóns míns-æði.
-Þegar ég var 16 ára fékk ég Travisæði.
-Þegar ég var 17 ára fékk ég æði fyrir Queen.
-Þegar ég var 18 ára byrjaði ég að elska og dýrka Radiohead.

-Sem lítil stelpa er mér sagt að hafa talað um að verða hjúkrunarkona þegar ég yrði stór.
-Í fyrsta bekk ákvað ég hins vegar að gerast kennari.
-Eftir að hafa klárað Píanóleikur 1, þá sjö ára gömul hjá Jóa í Búðardal (sem er trúbador) ákvað ég að verða píanisti þegar ég yrði stór.
-Þegar ég var 9 ára sá ég fram á mikla erfiðleika við að vera píanisti svo ég ákvað að verða frekar tónlistarkennari því mig langaði ennþá til að verða píanóleikari.
-Þegar ég var 15 ára ákvað ég að ég vildi verða fornleifafræðingur sem kenndi tónlist.
-Þegar ég var 16 ára átti ég mér draum um að vera sagnfræðingur sem kenndi tónlist.
-Þegar ég var 19 ára ákvað ég að verða íslenskufræðingur sem kenndi tónlist.
-Síðan ég var 6 ára hefur mig dreymt um að gerast fræg söngkona.
-Síðan ég var 14 ára hefur mig dreymt um að vera frægur saxafónleikari.
-Síðan ég var 18 ára hefur mig dreymt um að vera fræg djasssöngkona.
-Síðan ég var 18 ára hefur mig dreymt um að vera kúl djasspíanóleikari.

Já, það er því miður ekki hægt að verða allt!



søndag, marts 21, 2004

Erfiðar ákvarðanir....where is my mind?

Núna akkúrat veit ég ekkert hvar hugur minn stendur hvað eftirfarandi umfjöllunar efni varðar. Ég veit bara ekkert á hvaða tónleika ég á að fara á í sumar. Hvort á maður nú að fara á: Korn, Pixies, Kraftverk, Violent Femme, Placebo, Deep Purple eða Suga Babes. Þetta er nú erfitt val. Kannski ég noti útilokunaraðferðina. Á tónleika Korn er uppselt. Ég fer ekki á Suga Babes, það er nokkuð klárt. Pixies þekki ég bara ekki nógu vel nema þá Where is my mind og einhver svona lög sem ég fatta ekki að eru með Pixies þegar ég heyri þau, hef bara heyrt þau. Skiljið þið? Placebo þekki ég ekki neitt, fyrir utan þau lög sem ég er að stela núna af netinu. Þannig að ég held þetta endi bara á einni hljómsveit. Ég er nokkuð sátt bara við þessa niðurstöðu. Deep Purple verður það!! Í Höllinni. Nú vona ég bara að Snorri sé með einhverja díla á þá tónleika eins og alla hina tónleikana sem mig langar ekki á.
Það verður sveitt Höllin þegar rokkhljómsveitin mun stíga á svið og mikið af reyk. Þetta verður ef til vill svona eins konar ......reykur á vatni.



fredag, marts 19, 2004

Hæfileikalaus....... :(

Stundum líður mér svona. Sérstaklega í dag þar sem allstaðar er auglýst afmælistónleikavika TSDK. Á hátíðardagskrá er ég ekki, þótt ég hafi verið búin að æfa rosalega vel og fallega utanbókar Tangó eftir Piazzola. Nei, samt eru sumir nemendur að spila á öllum afmælistónleikum. En ekki ég. Það sem ég var búin að hugsa um hvað yrði gaman að spila í Salnum á flygilinn þar á framhaldsdeildartónleikunum. En nei, það eru bara sumir sem fá tækifæri til að spila en aðrir ekki. Reyndar mun ég spila á alveg nóg af tónleikum. En allir eru þeir niðrá Engjateigi og allir á vinnutíma þannig að enginn getur komið að hlusta á mig. Mikið er þetta fúlt. Mig sem langaði svo að spila á hátíðartónleikum í nýju fallegu fötunum sem ég keypti mér í Danmörku og verða rosa stressuð og þykja þetta mjög krefjandi svo ekki sé minnst á tangóinn minn sem ég er búin að æfa svo vel. En allavegana....langaði bara að deila þessu með ykkur, sumir eru lúserar aðrir ekki. Ekki það, ég er enginn lúser, ég fékk helgarstarf á Árbæjarsafni!!! Vei vei vei, nú er bara að leita sér að einhverri skemmtilegri vinnu virka daga.



torsdag, marts 18, 2004

Ég þekki engan í Borgó, en hvað ég er glöð, ég er svo glöð!!! Þetta er svo frábært, nú loksins verður Gettu Betur spennandi keppni á ný!!



Á þriðjudaginn í síðustu viku fór ég í nýjasta "mollið" í Danmörku, Field's. Field's á að vera stærsta verslunarmiðstöðin á Norðurlöndunum og er staðsett á Amager ekki svo langt frá brúnni yfir til Malmö. Sneddý. Mollið var opnað formlega á þriðjudaginn og var opið til klukkan tólf á miðnætti og lagði ég leið mína þangað ásamt föruneyti um klukkan átta. Svo endaði allt saman með flugeldasýningu. Ég keypti mér sama sem ekki neitt. Ég nennti því ekki. Byggingin var svoleiðis troðin af fólki að ég hef sjaldan séð annað eins. Ég gekk þar bara um og skoðaði hvaða búðir væri þar að finna og viti menn...þetta voru allt sömu verslanir og hér, enda sömu eigendur að þeim. Reyndar var þarna mjög skemmtileg búð sem heitir Bahn..eða eitthvað en þar var að finna Bodum vörur, en þær er nú svosem líka hægt að fá hér, í Húsgagnahöllinni. Svo var þarna búðin Glitter, en hún er líka á Strikinu og ég sé mikið eftir því núna að hafa ekki keypt mér neitt þar. Mér varð mikið hugsað til Jennýjar inni í henni, allir eyrnalokkarnir...og allt flokkað eftir litum og gerðum. En ég verslaði bara á Strikinu. Ég er svona eins og Laugavegsfólkið hér, vil bara vera í miðbænum í Köben, það er svo vinalegt.



mandag, marts 15, 2004

Borte med Blæsten

Jæja, þá er ég nú komin enn einu sinni frá Danmörkinni. Í þetta sinnið var mikið gert á stuttum tíma. Í DK var afskaplega kalt en gott veður. Ég nenni ekki að rekja alla ferðasöguna hér en lofaði að nefna Elsu Nínu og Sunnu nafn. Þær voru mjög skemmtilegar í ferðinni og borguðu nokkrum sinnum fyrir mig í lest. Ég er svo sniðug að stjórna öllum í lestarnar og svona og þegja svo bara þegar kemur að því hver á að klippa fyrir hvern og svona. Þá bara óvart var einhver sem klippti fyrir mig í lestarnar...hehehe.
Ég keypti mér margt og mikið úti og meðal annars keypti ég mér stórmyndina Borte Med Blæsten. Ég er núna búin að horfa á hana og hún endar ömurlega. Ég þoli ekki svona myndir þar sem maður er látin hanga eftir í enhverjum vafa. Ég vildi sjá að allt endaði vel að lokum og Mr. Buthler og Scarlet O'hara væru ríjúnætet í lokin. En nei. Þess vegna ætti maður bara að halda sig við Hroka og Hleypidóma þar sem allt endar vel, ekki alltaf að vera að púkka upp á svona Casablanca og Gone With The Wind þar sem maður getur sjálfur búið til endinn.
Altsaa.... Á föstudaginn gekk ég inn í virkilega merkilega og fjarlæga stofnun, allavegan mínum draumum. Ég og pabbi fórum inn í Det Kongelige Musik Konservatorium. Gengum þar inn á bókasafnið og fram hjá prófasölunum. Pabbi hefur ábyggilega fengið svona gæsahúð þar sem hann sat einu sinni inni í þessum prófsal og freisti þess að komast inn í þessa konunglegu menntstofnun. En allavegana, ég fór að velta fyrir mér hvort draumar mínir um þessa stofnun muni einhverntíman rætast. Þá þýðir víst ekki að mæta bara í tíma og geyspa eins og ég gerði í dag. Með þessu áframhaldi verða draumar mínir á hverfanda hveli.....



mandag, marts 08, 2004

Fake Plastic.....dress

Nú hef ég endurheimt græna kjólinn minn. Nú fylgir ekkert sjal með honum því það er komið í kjólinn og afgangurinn fylgir með í poka svo ég geti saumað á Barbiedúkkurnar mínar. Saumakonan uppljóstraði því við mömmu áðan að kjólarnir í Mondo eru bara illa saumaðir og ódýrir og eru seldir á allt of háu verði. Auðvitað eru þeir flottir, en það er líka gaman að eiga góða flík sem dugir oftar en fimm sinnum. Kjóllinn er sem sagt bara algjör gervi kjóll, en er ekki eins mikið gervi eftir að saumakonan lagaði hann.
Nú rétt áðan eyðilagði Bergur fyrir mér stemmninguna þegar ég ákvað að hlusta á Fake Plastic Trees. Ég fór inn á bloggið hans og allt í einu byrjaði eitthvað ömurlegt Britney Spears lag að hljóma ofaní Fake Plastic Trees. Ohoh, aumingja ég. Þurfti að byrja stemmninguna alla upp á nýtt.
Nú held ég að ég fari að leggja mig, þarf að pakka í kvöld og vakna svo í nótt og halda til Danmerkur. Ég ætla ekki að gera eins og margir og gera útlandablogg. Ég nenni ekki að leita uppi svoleiðis staði, verð of bissí að versla. Nenni heldur ekki að taka litla krúttið mitt með....nema kannski að pabbi verði með sína. Aldrei að vita. Blogga eftir viku.



lørdag, marts 06, 2004

I will always love you....úhúhú

Þetta lag þótti mér alveg æðislegt þegar ég var 9 ára. En í dag finnst mér það bara flott í Moulin Rouge.
Í gær fór ég með systur minni á Brúðkaupssýninguna Já. Alveg merkileg samkoma. Ég finn eiginlega ekki orðin til að lýsa því fólki sem þangað sækir og sérstaklega því fólki sem sér um svona sýningu. Ég og Heiðbjört vorum mjög heillaðar af kjólunum, hugmyndunum að skreytingum, glösum og borðbúnaði. Svo var þarna kynning á tónlistarfólki sem "sérhæfir" í brúðkaupum. Þarna var strákur að syngja og hann byrjaði á því að syngja Grow Old With Me. Þetta er mjög flott lag, Páll Rósinkranz tók það á disknum sínum og það sem var svo merkilegt var það að ef maður fær ekki Pál til að syngja í brúðkaupinu sínu þá getur maður bara hringt í þennan strák því allt sem hann syngur er bara copy paste frá Páli. Svo byrjaði hann náttúrulega að tala um konuna sína, hún ætti sig ein. Þetta fólk gengur alveg upp úr svona væmni. Dettur oft í hug Bjarni Ara. Alveg merkilegt hvað hann getur verið væminn, þ.e. þóst vera væminn. Maður hefur nefnilega á tilfinningunni að þetta fólk sem hugsar ekki um annað en brúðkaup og væmin Withney Huston lög, sé kannski bara að gera þetta allt saman upp. Fólk sem heldur brúðkaup upp á nokkrar milljónir og gerir út á að allt sé dýrt og flott, ætli það sé í rauninni mjög hamingjusamt fólk. Hversu mörg af þeim hjónaböndum sem birtast í þættinu Já, eða báðir aðilarnir lifa fyrir að skipuleggja brúðkaup, haldist gift í allavegana 50 ár? Mér skilst að það séu bara alveg svakalega mörg hjónabönd í dag sem halda ekki neitt. Maður fær því á tilfinninguna að því meiri sem glæsileikinn er, því meira leikrit. Ég styð því hugmyndir Hófíar og Bjarkar um framleiðslu þáttarins Skilnaðarþátturinn Nei.
Og svo þetta fólk...jakk. Það er svo rosalega ástfangið að það vill að allir viti það, ég fæ alveg hroll við tilhugsunina um karlmenn sem eru þykjast vera voða rómantískir og finnst From This Moment með Shania Twain, alveg æðislegt lag. Ég óska mér ekki svoleiðis karlmanns, svoleiðis menn hljóta að vera hommar.

(Ég vil taka það fram að ég hef ekkert á móti brúðkaupum almennt, allar stelpur dreymir um prinsessubrúðkaup, ekki strákar)

Ég held ég hafi séð Liam Neeson í Kringlunni í morgun...hmm...er samt ekki viss.



onsdag, marts 03, 2004

Augnabliks hamingja

Á maður að skrifa þetta sem eitt orð eða tvö?
Allavegana. Í gær opnaði ég tölvupóstinn minn og varða afskaplega hamingjusöm og bjartsýn í nokkrar sekúndur. Ég hafði fengið póst frá Plúsinum og "subjectið" var "Hundaheppinn ertu" !. Ég hélt að loksins hefði ég unnið 20.000 kr. fyrir að svara einhverjum auglýsingatölvupósti. Ég sá fyrir mér alla hlutina sem ég gæti keypt mér með góðri samvisku í Köben í næstu viku en nei. Í tölvupóstinum var verið að spyrja hvort ég hefði áhuga á að kaupa einhverja hundabók. Rosalega varð ég svekkt.