Þessa dagana er mikil spenna í mér. Ég er sem sagt mjög spennt. Nú á ég bara eina viku eftir af táningsárunum, sem er mjög spennandi. Ég held að það sé ástæðan fyrir því að ég á mjög erfitt með að einbeita mér við píanóið. Ég kalla svona letiköst píanókrísur. Stundum fer ég í svona píanókrísur, þar sem ég tel mínúturnar þangað til einn klukkutími er liðinn eða bara eitt lag. Í píanókrísum er tíminn ekki skipulagður eins og flest alla aðra daga. Venjulega skipulegg ég hverja mínútu á tveimur klukkustundum. Fyrst byrja ég á tónstigum í ákveðið margar mínútur, svo byrja ég á einhverju lagi og æfi það ákveðið lengi og með ákveðnum hætti og áherslum. Og svona gengur það í tvær klukkustundir. En nei ekki núna. Núna sest ég við píanóið, horfi á nóturnar og tölvuna til skiptis. Mestar líkur eru á að ég endi við tölvuna.
Ég reyni að tengja þetta við Friends æðið mitt. Ég horfði á alla seríu númer tvö á laugardag og sunnudag. 24 þætti.
Enda er ég mjög steikt og súr núna. Ég er sýrð af Friends bröndurum og mjög spennt að fá fleiri þætti lánaða hjá Sunnu.
En verkefni dagsins er auka hljómfræðitími og tónfundur þar sem Charlie Parker lagið Moose The Mooche verður flutt snilldarlega af mér. Eða svo vona ég.....