The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

fredag, april 30, 2004

VestFJARÐAaumingi

Ég er aumingi. Ég er að fara vestur á eftir og mér er nú þegar orðið flökurt. Þegar ég var fimmtán ára var mér ekkert eðlilegra en að ferðast með bíl eða skipi (bát). Eftir að ég flutti til Reykjavíkur hefur þróunin verið algjörlega niðrá við. Ég er orðin ferðalangs aumingi. Ég held ég þurfi að biðja mömmu um bílveikistöflu svo ég muni nú örugglega ekki æla á leiðnni. Það er fátt ömurlegra en að stoppa einhversstaðar í Kollafirði og ætla að reyna að æla. (Kollafirði langt í burtu frá Kollafirði í Reykjavík) Ástæðan fyrir því að ég nefni Kollafjörð er sú að hann er svo hræðilega langur og virðist aldrei ætla að enda. Ég verð því að vera svarti sauður ættar minnar og kallst vestFJARÐAauminginn, ólíkt t.d. móðurbróðu mínum sem er víst vestjarðatröllið.
Kannski er ástæðan fyrir flökurleikanum sú að ég er með hálfklárað hljómfræðidæmi fyrir framan mig en ætlaði að vera löngu búin með það og annað að auki áður en ég legði af stað. Tilhugsunin um hljómfræði í bílnum er mér óbærileg.

Tilhlökkun ferðarinnar er hins vegar augnablikið þegar maður kemur keyrandi fyrir fjallið og Otradalur birtist. Í minningunni er augnablikið þrúngið spennu, tilhlökkun, æsingi og þannig mætti lengi telja. Fyrst og fremst er tilfinningin gleðileg og hamingjan sem fylgir augnablikinu er ólýsanleg. Þetta mun vera síðasta augnablikið mitt að þessu sinni en nú förum við vestur til að hjálpa ömmu og afa að flytja. Þó svo ég muni upplifa þetta augnablik aftur á ævinni verður það aldrei eins. Því ástæðan fyrir tilfinningu þessa augnabliks er auðvitað ævintýrin sem bíða manns í Otradal. Þó Otradalur haldi áfram fegurð sinni og mér muni alltaf finnast ég eiga hlutdeild í þessari jörð, verður það aldrei eins án ömmu og afa. En núna verða amma og afi miklu nær og ævintýrin munu bíða mín í Hrafnhólunum.



torsdag, april 29, 2004

Hver fer út að hlaupa í rigningu?

Það geri ég. Ég held ég sé orðin brjáluð. Fer út að hlaupa í grenjandi riginingu, og vitiði hvað, mér fannst það bara svalandi. Markmiðið er að skokka upp Esjuna í sumar, eða í lok júní. Þá meina ég skokka en ekki skríða, sem er nú samt viss um að ég muni gera. Ég og Heiðbjört ætlum að drífa Danina með okkur upp á þetta fjall til að leyfa þeim að upplifa eitthvað sér íslenskt. Þau hafa nefnilega ekki klifið mörg fjöll í Danmörku þannig að þetta ætti að vera ágæt upplifun.

Ég fletti Fréttablaðinu í morgun. Ég rakst á umfjöllun um útvarpsráð (nennti ekki að lesa greinina) og sá ég þar mynd af pabba og frjálslyndaflokksmerkinu (sem var í horninu á myndinni). Mér fannst þetta rosalega merkilegt og kallaði á pabba til að segja honum þetta. Jájá, hann hafði séð þetta og kippti sér ekkert upp við þetta. Svo koma Heiðbjört niður og ég sagði henni að það væri mynd af pabba í Fréttablaðinu. Já, sagði hún, hún hafði séð það og fannst það greinilega ekkert merkilegt. "Það var önnur mynd af honum um daginn". Nú? Ég hafði ekki hugmynd um það. Fjölskyldunni finnst greinilega ekkert merkilegt lengur þegar birtist mynd af pabba í blaðinu. Ætli það sé svona að þekkja einhvern sem er á barmi frægðarinnar. Engum finnst merkilegt LENGUR, þegar myndir birtast af einstaklingnum í blöðunum, jafnvel viðtal í fréttunum. Hvernig væri það ef ég yrði fræg? Ég myndi hoppa yfir um af kæti í hvert sinn sem ég sæi sjálfan mig á öldum ljósvakans. (segir maður það ekki annars).



tirsdag, april 27, 2004

Vonbrigði dagsins

Í svona dagbókarfærslum er oftast einhverjum atburðum dagsins gert hærra undir höfði en öðrum. Sem dæmi má oft finna titlana "Hápunktur dagsins" eða "Ferðalag dagsins" eða eitthvað í þá áttina.
Ég ætla núna að fjalla um vonbrigði dagsins í dag. Þannig var að ég sat í vinnunni rétt fyrir hádegismat og horfði á sjónvarpið. Ég sá að eftir að Ísland í bítið var búið kom myndband með Diana Krall. Ég ákvað að sitja aðeins lengur og horfa. Myndbandið var við lagið "Just the way you are" sem hún hefur fengið að láni til að gefa út í nýjum búning hjá Billy Joel.
Ég hef hlustað nokkuð á Diana Krall undanfarið og hef miklar mætur á henni. Stíll hennar er fágaður og einstaklega smekklegur. En ég verð að segja að hjá eins vinsælli jazzsöngkonu og Diana Krall er, var þetta nú alveg fyrir neðan allar hellur. Útsetningin var bara alveg eins og sú upprunalega. Það var lítill jazz-fílingur í laginu og söngur hennar gjörsamlega tilbreytingarlaus. Það eina sem var gott við lagið var saxafónsólóið sem náði að segja manni að þetta ætti að vera jazz. Enda ekki hjá því komist að hafa saxafón þar sem hljóðfærið er í upprunalegu útgáfunni með ákveðna frasa á milli erinda, sem reyndar voru alveg nákvæmlega eins og gerðu ekki neitt fyrir lagið.
Þetta voru vonbrigði dagsins.
Ánægja dagsins er hins vegar heilinn minn sem er "on fire" yfir hljómfræðinni. Það er alveg ótrúlegt.



mandag, april 26, 2004

Leiðindafærsla

Svo hljóðar sumarprófið 2002 í hljómfræði II: Festið gís moll í sessi og notið til þess m.a. #vii°7(hækkað, sjöunda, fullminnkað, sjöundahljóm). Leggið áherslu á v-sæti með undirforhljómi og forhljómi. Farið hefðbundna leið í dúrinn fjórum formerkjum neðar og festið í sessi með tilbrigði við gabbenda. Leggið áherslu á V-sæti með V(7)/V (fimmta dúr (sjöundahljóm) af fimmta sæti) og leysið með gabblausn. Farið í mollinn einu formerki ofar, festið hann í sessi með því að fara í #vi°7 (hækkað sjötta hálfminnkað, sjöundahljóm) og leysa á grannsæti. Farið krómatískt í stækkaðn aukahljóm og leysið. Ljúkið síðan með fullgerðum og fullkomnum aðalendi sem felur í sér vii°7/v og i6/4 (sjöunda fullminnkað, með sjöund af fimmta moll og fyrsta moll fersexundar). Lengd: 32-40 hljómar.

Svona er gaman hjá mér fram í næstu viku!



lørdag, april 24, 2004

Franski sjóliðar og bylgjandi dansgólf

Gærkvöldið var vægast sagt óvenjulegt. Ég, Jenný og Bergur ákváðum að fara á MH djamm til að dansa við Nik og Jay. Á leiðinni þangað hittum við Ingu, Salbjörgu og Ragga en stelpurnar ákváðu að slást með í hópinn. Þegar á staðinn var komið dönsuðum við tryllt við Hot og tónlistina sem plötusnúðarnir góðu spiluðu. Eftir smá stund uppgötvuðum við þó, okkur til mikillar skelfingar að loftið bylgjaðist allt og hristist undan þunga dansins á hæðinni fyrir ofan. Þar sem við höfðum aldrei komið þangað, þetta var ekki einlegur skemmtistaður og virtist allt bara mjög svo ótraust, ákváðum við að fara. Þaðan lá leiðin á Felix. Þar var reyndar ekkert skemmtilegt, aðeins fullt af frönskum sjóliðum og léleg tónlist. Við ákváðum að fara þaðan. Gengum áleiðis að Hverfisbarnum. Á leiðinni hittum við tvo franska sjóliða sem voru að leita að Felix. Einhvernveginn náði Bergur að sannfæra annan þeirra um að Hverfisbarinn væri miklu álitlegri staður. Frakkinn ákvað þá að slást í för með okkur, sem við vorum nú ekkert allt of hrifin af. Svo hvarf hann eitthvað. Við fórum þó ekki inn á Hverfisbarinn heldur gengum við í átt að bílnum og ætluðum við aftur til Jennýjar í spjall og snakk.
Þegar við gengum fram hjá MH djamminu sáum við tvo lögreglumenn vera að tala við einn af eigendum staðarins, sem við höfðum séð fyrr um kvöldið, vera að virða dansgólfið sem bylgjaðist fyrir sér. Bergur var búin að ákveða að gólfið myndi gefa sig og álíka mikill harmleikur myndi eiga sér stað eins og í indverska brúðkaupinu. Sem betur fer gerðist ekkert svoleiðis og kvöldið endaði í kósý kóki og snakki.



fredag, april 23, 2004

Næring hégómans

Í gær voru bakþankar á Fréttablaðinu um fegurðarsamkeppnir. Konan sem skrifar var augljóslega mjög á móti fegurðarsamkeppnum. Það er vissulega rétt hjá konunni að margt er hægt að læra af fegurðarsamkeppni, t.d. eins og naglahirðu sem eru mjög djúp og flókin fræði.
Um daginn dreymdi mig að ég væri í fegurðarsamkeppni. Keppnin var haldin að Klifi í Ólafsvík og ruglaðist einhvernveginn inn í fermingarveislu Eggerts. Allt í þessum draumi var alveg hræðilegt og mér leið skelfilega illa.
Af þessu tilefni og því að í kvöld er einmitt fegurðarsemkeppni Reykjavíkur ætla ég að velta þessu fyrirbæri aðeins fyrir mér. Nú mun ég sannfæra alla um það að ég ætla ekki í fegurðarsamkeppni. Eftirleiðis mun fólk virða afstöðu mína.

Ef ég tæki þátt í fegurðarsamkeppni gæti ég átt það á hættu að vinna. (Möguleikinn væri fyrir hendi)
Þær stúlkur sem taka þátt í þess konar keppni eru skikkaðar til að hafa áhuga á líkamsrækt, þurfa að borða hollt, fara í ljós og svo framvegis. Það gæti ég ekki.
Eins og frægt er orðið eiga fegurðardísir að vilja heimsfrið og allt það. Hvað gerist ef einn þátttakandi mætir í viðtal og segist aðeins vilja lifa í friði frá öllum hégóma, yfirborðsfullu fólki, sorpblöðum, er eigingjarn og hugsar aðeins um sitt og sína, segist vera sama hversu mikið hann tekur í bekkpressu og alveg sama hversu mörgum kalóríum eða hitaeiningum hann brenndi í dag og pældi ekki í því sem hann borðaði og ofan á allt, væri ekkert gefið fyrir að ferðast? Það er einmitt þessi manngerð sem myndi ekki taka þátt.
Mín niðurstaða er sú að fegurðarsamkeppni er aðeins vettvangur til að búa til stereotýpur.
Auðvitað er það draumur allra stúlkna að fá að vera fegurðardís eina kvöldstund. Alla langar einhverntíman á ævinni til að vera fallegur. En sumum er nóg að láta sig dreyma og líta á sjálfa sig sem fegurðardís í hversdagsleikanum. Ég segi við þær stelpur sem taka þátt í fegurðarsamkeppni: ef þið fílið tónlistina á FM og Kiss, viljið fara í hárlengingu, naglalengingu og hafa leðurtösku húð er það gaman fyrir ykkur. Það væri ekki gaman fyrir mig. Ég held að manneskja sem þekkir ekki flottu fatamerkin, hlustar á Radio Reykjavík og Skonrokk, finnst sport að hafa farið á Roskilde, er með suttar neglur, rífst um kvótakerfi og landsbyggðastefnu, þekkir sögu kartöflunnar og fannst gaman í öllum íslenskuáföngunum í menntaskóla og kann Sound of Music utan af, eigi ekki heima í fegurðarsamkeppni.
Ég vil samt geta þess að öllu má ofgera og mér finnst þær stelpur sem finnst þessi hlutur alveg hræðilegur og bölva fegurðarkeppnum í sand og ösku fyrir að upphefja ytri markaðsfegurð, ekki meiri manneskjur en þær sem taka þátt í fegurðarsamkeppnum. Þær stelpur eru bara bitrar og þora ekki að auglýsa sína alvöru drauma. Þær sem taka þátt í fegurðarsamkeppnum tel ég hins vegar villuráfandi einstaklinga í leit að frægð, frama og hégóma.



torsdag, april 22, 2004

Vei!! Ég fer á Masterclass í Vestmannaeyjum í sumar!!



Nik & Jay

Það er mér ánægja að tilkynna að á morgun, föstudaginn 23. apríl mun vera dimmisjóndjamm á Jóni Forseta. Á efnisskrá plötusnúða er m.a. dúettinn Nik & Jay. Allir á Jón Forseta að dilla sér við Hot!!



onsdag, april 21, 2004

The World is a Vampire....

Í þessum skrifuðu orðum hleypur Jenný Halla um miðbæinn dulbúin sem sjóræningjakona. Ég öfunda hana svolítið þar sem kuldinn var heldur meiri þegar ég dimmiteraði. Nær hefði verið að dimmitera sem magadansmær í 11 stiga hita heldur en -2 gráðu frosti eins og ég gerði. Ég sé Jennýju fyrir mér niðrí bæ, skuggaleg og brjálaða, rænandi og ruplandi kveikjandi bál og dansandi í kringum það. Dansandi inn í eldinn. (Dance into the fire) Reyndar minnir þessi lýsing frekar á einhverja seiðkonu með vélabrögð á 17. öld. Heimurinn snýst allavegana í dag um sumar að sól. Því í Reykjavík er sól og ágætt útsýni yfir Snæfellsnesið sem er allt hvítt.
Vampírur koma þessu ef til vill lítið við. Heimurinn er ekki með vígtennur þó svo hann sjúgi blóð. Í heiminum ríkir stríðsástand, fólk rænir og svíkur, skemmtir sér og hlær. Heimurinn er sjóræningi. Allavegana hjá einum sjötta bekknum í MR.



tirsdag, april 20, 2004

Strætóþjóðfélagið

Ásamt því að velta fyrir sér hvernig lit vefsíðan mín eigi að vera, fæ ég hinar ýmsu hugmyndir á strætóferðum mínum. Hvort þessar hugmyndir hafi verið geymdar lengi í undirmeðvitund minni frá því ég sá þær einhverstaðar og skjóti upp kollinum núna, eða hvort þetta sé alfarið frá mínu uppfinningasama höfði, skal ósagt látið.

Mér datt í hug að gera þema bálka. Þema bálkar eða greinar eru ekkert svo óalgengar og eru oft framhaldssögur eða -umfjallanir. Þemað í mínum bálki væri Strætó. Eins og margir hafa orðið varir við, við lesningu síðunnar minnar, liggur mér strætó mikið á hjarta þar sem síðustu spor ökuprófsins hafa skolast eitthvað til í skipulagi mínu.

Ekki svo að skilja að bálkarnir yrðu aðeins um leiðarkerfi strætó, heldar væri bálkurinn umfjöllun um hinar ýmsu samfélagsgerðir og stéttir þjóðfélags okkar. Til dæmis væri hægt að velta fyrir sér hvaða félagslegu hlutverki Strætó hefur að gegna. Hvert er dulið hlutverk Strætós? Einnig mætti lýsa ákveðnum þjóðfélagslegum fyrirbærum. Í Stræó má nefnilega finna hinar ýmsu stéttir og gerðir einstaklinga. Fátæka, ríka, fatlaða, heilbrigða, fullorðna, gelgjur, dóna, kurteist fólk, brjálæðinga, montrassa, feimna, róna, óþolandi fólk, skemmtilegt fólk, kunningja, óvini, vini o.s.fr.
Ekki mætti aðeins tala um fólkið sem maður mætir í Strætó, heldur hvert ferðinni er heitið. Strætó er fyrst og fremst tæki til að komast á milli staða. Maður tekur Strætó þegar maður fer í skólann, vinnuna, til vinar, í heimsóknir, niðrí bæ, til læknis, til tannlæknis og þar fram eftir götunum. Þar gæti verið efniviður í góða Strætósögu.
Þegar maður ferðast með Strætó fylgist maður ekki bara með mannlífinu inni í Strætó, maður horfir út um gluggann og sér þar vitsmunalíf, náttúru, ónáttúru, mengun og allt þar á milli. Maður verður stundum vitni að hinum ólíklegustu hlutum. Svo ekki sé talað um vangaveltur manns um gatnakerfi borgarinnar. Nú ef það er aðeins skítur á rúðunni og ekkert sés getur maður velt fyrir sér hvort veðrið sé slæmt þann daginn eða stundina, eða óþrifnað Strætisvagna.

Í dag sá ég til dæmis heilan regnboga. Ég hef það fyrir reglu að óska mér ef ég sé regnboga. Mér þykir heldur leiðigjarnt að vera alltaf að reyna að komast undir hann. Án þess að hugsa mig tvisvar um óskaði alls annars en venjulega. Þetta kom sjálfri mér mikið á óvart. Einu sinni var ósk mín ávallt eftirfarandi: Ég óska mér að eignast stóran svartan flygil. Allt í einu, þegar hugsanir mínar festu athygli við annað var ég orðin bálkahöfundurinn Carrie Bradshaw sem skrifaði um leiðir kvenna til að vekja athygli á sér hjá hinu kyninu. Þá fór ég ennfremur að hugleiða að skrifa bók fyrir karlmenn um hvernig þeir eigi að vekja athygli kvenmanna. Hver veit það einmitt betur en kona?
Ég held að hugleiðingar mínar í Strætó, eins og annarra, séu efni í heilan bókaflokk.



mandag, april 19, 2004

Prófavor, prófalaust vor

Vorinu fylgir ferskur vindur, ilmandi gola, falleg sólsetur og skemmtilegar rigningar. Í mínum huga hefur vorið alltaf borið með sér einn hlut sem af fæst mikið frelsi eftir á. Próf. Það er mér því mikil ánægja að þetta vor er þar stór undantekning. Í fyrsta sinn síðan ég var sex ára þarf ég ekki að hafa áhyggjur af vorprófum og get því legið í sólbaði, þá daga sem það er hægt, farið í verslunarferðir, keypt mér ís og klæðst fallegum vorfötum, meðan aðrir jafnaldrar mínir og samferðamenn sitja inni og læra undir próf.
Svo mun ég mæta með hvíta húfu daginn sem tilvonandi stúdentar útskrifast og dansa mig ókeypis inn á skemmtistaði borgarinnar í bjartri vornóttinni. Húfan liggur í hillunni minni og brosir til mín. Ég og húfan erum báðar svo himinlifandi yfir þeirri staðreynd að við erum búnar að ganga í gegnum þetta erfiði sem aðrir ganga í gegnum núna.

Svona leið mér þangað til klukkan 17:01 í dag. Á þeirri stundu rann upp fyrir mér að ég ætti að mæta í hljómfræðitíma klukkan 17:30. Vonbrigðin voru ekki einungis þau að ég gæti ekki setið inni hjá mér og horft á sólardaginn fyrir utan, heldur neyðist ég víst til að taka lokapróf í Hljómfræði II. Prófið verður eftir hálfan mánuð og miðað við dæmin sem ég hef verið að gera myndi ég falla á prófinu með 6.6. Kröfurnar eru samt ansi háar því ég verð að fá 8.0 eða meira til að ná.
Jafnframt uppgötvaði ég að þegar allir verða búnir í sínum skemmtilegu prófum mun ég líklega verða kölluð í viðtalsinntökupróf í FÍH í síðustu vikunni í maí.

Og nú spyr ég. Er einhver sem vill skipta á hljómfræði og íslenskuprófi? Ég er til. Sá sem telur sig geta fengið hærra en átta í hljómfræðinni en á í basli með íslenskuna, endilega láti mig vita.



Parkódín fortissimo

Ég og afi höfum ákveðið að þróa lyf sem ber nafnið Parkódín largo. Ég hef nú útfært þessa hugmynd enn betur og ætla ennfremur að þróa lyfið Parkódin piano. Þetta lyf mun augljóslega vera ekki eins sterkt verkjalyf og Parkódín þar sem Parkódín forte er sterkara en venjulegt Parkódín. Parkódín largo hefur enn ekki verið sett hlutverk né áhrif. Reyndar er hlutverkið ef til vill að finna hér.
Til þess að vera alveg laus við verki fyrir fullt og allt gæti svo fólk tekið Parkódín fortissimo. Svo ef fólk er orðið leitt á magnyl töflunum (á skrifstofunni í skólanum) gæti það keypt sér Parkódín pianissimo, svona til tilbreytingar.



søndag, april 18, 2004

Jæja, þá er ég komin með myndaalbúm.



Sól sól skín á mig.........ský, ský burt með þig, gott er að láta sólina skín' á sig, sól, sól skín á mig!!

Ég elska sólina. Ég gekk áðan stífluna. Svo hljóp ég. Svo skokkaði ég. Svo gekk ég aftur. Þegar ég koma heim leið mér virkilega vel. Sólin skein á mig og ég gerði armbeygjur og magaæfingar. Svo settist ég út í svaladyr og fór í sólbað. Þetta er í annað sinn í vor sem ég fer í sólbað svona. Og sumardagurinn fyrsti er ekki liðinn. Þetta finnst mér alveg magnað.
Þegar þessu öllu var lokið drakk ég stórt glas af kóki. Það var besta tilfinningin. Svo fór ég á viktina og hún hafði ekkert breyst. Ég var jafn létt og í morgun, jafn létt og í gær og hinn.
Finnst ykkur ekki skemmtilegar svona færslur þar sem maður lýsir öllum deginum í smáatriðum?

Mér datt í hug, núna rétt í þessu að breyta þátíðar beygingu nokkurra orða. Datt eiginlega í hug að víxla þeim. Orðunum, skokka og skína. Mér datt þetta í hug út af einhverri grein sem ég las um daginn um veikar beygingar danskra sagna. Samt fann ég eitt orð í Harry Potter og fangen fra Azkaban, sem beygist ekki veikt. Það var orðið at skændes sem beygist; skændtes. Hvernig væri ef við breyttum þá beygingu orðsins að skokka í, skokkti. Ég hef skokkt Svo myndum við segja að sólin hafi skínað. Sólin skínaði. Þetta hljómar svo fáránlega að ég er í hláturskasti hérna. Ásta ef þér finnst þetta fyndið erum við saman nörd.



lørdag, april 17, 2004

Gelgja upp á nýtt

Ég hef ákveðið að þessi færsla verði hégómaleg með fullt af "sko"-um og gelgjulegum setningum. Kannski svolítið verslólegt svona.

Djö..er ég ógesl ömurleg. Er bara hérna heima ein inni í herbergi og allt sko. Mín bara að drekka kók. Sko alvörunni kók sem inniheldur fullt af sykri og bara mín í einhverju sykurkasti með köku fyrir framan sig. Mín finnur sko bara hvernig maginn stækkar og lærin verða feitari og feitari. Er bara að hlusta hénna á geðegt lag með Diana Krall. Ohoh, hún er svo hipp og kúl. Ingrid vildi sko bara að hún væri svona hipp og kúl eins og Diana Krall og bara geðek.

Nei ég gefst upp. Ég hef ekkert til að skrifa sem gelgja. Ég hef drukkið kók núna á hverjum degi í langan tíma og er bara alveg sama. Ég veit að kippan úti á svölum verður bráðum búið og það þýðir ekkert meira kók fyrir mig í nokkra daga. Þá hef ég ærna ástæðu til að hella þessu í mig aftur. Svo ekki sé talað um að Diana Krall er ábyggilega ekki mjög hipp og kúl í augum og eyrum 15 ára gelgju. Væri Heidi í Sjúgabiebs ekki frekar eitthvað svoleiðis.
Í dag var ég fulltrúi saxafónleikara í Tónskóla Sigursveins á hljóðfærakynningu. Þangað lögðu leið sína forskólanemendur ásamt foreldrum. Einhverjir sögðu mér að þeir væru búnir að velja sér hljóðfæri en ætluðu að spila á saxafón eftir að þeir væru búnir með hitt hljóðfærið. Ég lét það vera að nefna við þá að þeir gætu bara lært á bæði hljóðfæri í einu, sett foreldrana á hausinn og verið heila eilífð í tónskóla, átt sér lítið líf fyrir utan skóla og tónskóla og skemmt sér best sem lúðrasveita-og tónlistarnörd í grunnskóla. (svolítið ýkt staðreynd um mig) Aðrir þorðu ekki að prófa að blása í tryllitækið sem saxafónn er en þegar á heildina er litið voru flestir mjög áhugasamir um hljóðfærið. Upp úr krafsinu hafði ég þrjá sem voru staðráðnir í að spila á saxafón og þar af heilar tvær stelpur. Það var ég mjög ánægð með. Mér finnst um að gera að fá fleiri stelpur til að spila á saxafón. Þó svo að ég sjái alltaf fyrir mér karlmann spila á saxafón og finnst það svolítið töff og jafnvel kynþokkafullt (þ.e. ef spilarinn er kynþokkafullur) þá get ég alveg séð fyrir mér þessa ímynd breytast. Í framtíðinni munu allir karlmenn sjá fyrir sér sexý konur spila á saxafón. Í framtíðinni mun þetta líka verða þannig að ákveðinn hópur karla verður veikur fyrir konum sem spila á gítar og trommur. Þá verður það líka þannig að stelpur munu alltaf vera veikar fyrir karlkyns þverflautuleikurum og óbóleikurum. Sérstaklega óbóleikurunum. Ég sé alveg fyrir mér hvernig táningsstelpur fylla Laugardalshöllina til að öskra og æpa á unga flotta þverflautuleikara og óbóleikara í poppblástursbandi. Hvernig líst ykkur til dæmis á "Justin Timberlake hinn ungi og vinsæli þverflautuleikari frá Bandaríkjunum mun koma fram....". Mér líst bara vel á þetta.



Nú hef ég bætt inn tenglum á þríburana og vil biðjast afsökunar á því hvað það tók langan tíma. Svo hef ég líka bætt inn tengli á rímorðaleitarvél. Ég get sagt ykkur það að núna mun ég ekki gera neitt annað alla daga en að finna rímorð. Nú gerist miklu einfaldara að semja ljóð. En ég mun samt aldrei láta þess getið að skáldskapur minn komi ekki beint frá mínu hjarta og mínu innihaldsmikla og uppflettifljóta höfði.



fredag, april 16, 2004

Stífla

Ég er í smá stíflu. Einhverra hluta vegna virðist ég ekki geta skrifað á bloggið mitt nema einmitt þegar ég á í einhverjum vandræðum eða því álíka.

Núna er ég með stíflu. Ég er með hljómfræðistíflu, og ritstíflu. Reyndar er það nú rétti sannleikurinn að ég er að bíða eftir að fá diska með skoskri hljómsveit til að hlusta á og kynna mér. En svo er það bévítans hljómfræðin. Af hverju getur maður aldrei drullast til að gera hljómfræði um leið og maður kemur í tíma. Núna er ég nefnilega búin að gleyma öllu sem mér var kennt fyrir páska og allt dæmið mitt í klessu og bara ekkert flott.

En úr einu í annað og svo þetta verði ekki eingöngu neikvæð færsla get ég upplýst ykkur um það að ég fór í Smáralindina áðan og keypti mér skó. Skóna góðu hef ég verið að velta fyrir mér að kaupa í ár. Já, og lét verða að því í dag. Nýr eigandi skónna er himinlifandi yfir kaupunum og vill helst fara strax í bæinn í nýju skónum. Eiganda og skóm heilsast vel.



torsdag, april 15, 2004

Einu sinni var íslenska þjóðin óhreinasta og ógeðslegasta þjóð í heimi. Núna er íslenska þjóðin ein sótthreinasta þjóð í heimi. Einu sinni var Ísland hreinasta land í heimi. Núna er Ísland..ja á góðri leið með að verða eitt af óhreinustu löndum í heimi. (ekki strax samt).

Ég er samt ekki Grænfriðungur eða Vinstri Grænn. Ég er heldur ekki á móti Kárahnjúkum, ég er á móti Impregilo. Þetta var bara svon pæling. Og mér fannst orðalagið svo sniðugt.
Fyndið hvernig velmegun og iðnbylting hefur snúið þessu við.



tirsdag, april 13, 2004

Money, always funny

Ég held að nú muni ég staðfesta skírn mína aftur. Ég var nefnilega ekki alveg viss síðast. En núna er ég alveg viss. Ég er alveg viss eftir margar umræður og rökræður við MHinga og MRinga um trú.
Því fylgir náttúrulega að halda veislu aftur. Mér veitti ekki af smá aur. Svona eins og Eggert. Eggert er strákur og þess vegna vissi fólk ekkert hvað það ætti að gefa honum svo fólk einfaldlega stakk pening í umslag og gaf honum. Hann er nokkuð sæll eftir gærdaginn og matinn.
Ég, Heiðbjört, Sunna og Júlíanna fluttum tvisvar sinnum í gær, í sitthvorri veislunni lagið In The Shadows. Þýðingin var mín og alger snilld. Ég var reyndar svo afslöppuð fyrir trumbusláttinn í seinna skiptið að ég át á mig gat áður en við fórum að syngja. Röddin og maginn voru ekki alveg að samþyggja þessi átök en sem betur fer voru fáir sem höfðu vit á að heyra það og ábyggilega enginn annar en ég sem heyrði röddina bresta stundum. Júlíanna söng lagið í fyrri veislunni handa systur sinni en ég fyrir Eggert. Heiðbjört og Sunna sýndu svo snilldartakta í bassanum og bakröddum. Gaman það.



fredag, april 09, 2004

Sá hlær best er síðast hlær

Svo hljóðar hið páskaeggjalega orð.
Í fyrradag átti ég afmæli. Dagurinn var góður. Ég vaknaði korter í sjö og var mætt í vinnuna klukkan átta. Svo kom ég heim og lagði mig. Svo tók við undirbúningur og skreytingar fyrir veisluna mína. Svo pöntuðum við pizzu og ég opnaði pakkana í kvöldmatnum. Ég fékk margar fallegar gjafir. Fékk svolítið í safnið, bolla í stellið og fjögur ný Mikasa glös. Mamma og pabbi gáfu mér litla lófatölvu sem er líka með myndavél og ég verð að segja, einkennilegu flassi. En virkar ágætlega.
Veislan var frábær. Voða skemmtileg. Anna, Anna og Halldóra gáfur mér voðalega fallega nælu. Jenný gaf mér Hugo Boss ilmvatn og Bergur gaf mér litla sæta tösku. Nokkrir krakkar gáfu mér saman lítið páskaegg, bók og litla freyðivínsflösku. Þennan hóp hef ég ákveðið að gefa skammstöfunina RIS. Einnig fékk ég The Sound of Music nótnabók og ég var bara að fatta í þessum skrifuðu orðum af hverju Ásta tengdi mig við Sound of Music. Svo fékk ég margt fleira fallegt.
Í morgun fór ég út að labba með fjölskyldunni. Ég og Eggert tókum sprettinn og gerðum svo magaæfingar og armbeygjur hjá Stíflunni. Rosa dugleg. Nú sit ég við að borða páskaegg og drekka pepsi.
Gleðilega páska!



mandag, april 05, 2004

Gleði, gleði, gleði.....þið kunnið restina

-Í gær var Sporthúsið kvatt í hinsta sinn, að þessu sinni. Sú kvaðningarferð kostaði mig miklar harðsperrur í dag. Gleðin við þann atburð er sú að ég hef nýtt kortið mitt, sem ég keypti á hálfvirði, og haldið öllu nokkurn veginn í lagi, fyrir utan mikla vöðbólgu í öxlum einstöku sinnum. En bakið og allt hitt hefur haldið sig á mottunni í þennan tíma. Svo ekki sé minnst á að hver tími kostaði mig aðeins um 400 krónur, eða aðeins minna.

-Nú er gott veður og vor á næstu grösum. Það er gleði.
-Í dag á ég bara tvo daga eftir af táningsárunum, sem er mjög spennandi. Það er gleði.
-MR var ekki í rúslitum á föstudaginn í Gettu Betur sem er mikil gleði, þó hefði ég viljað sjá Borgó vinna. Þetta var svolítið fúlt. En ég gat ekki annað en glaðst að sjá Verslingana fagna. Þrátt fyrir að einn liðsmaður hafi eyðilagt öll bekkjarkvöldin í 10. bekk fyrir okkur. Fífl!
-MH vann söngkeppni framhaldsskólanna. Það er gleði. Mörgum fannst lagið ekkert spes en mér fannst þetta flott hjá þeim. Þrátt fyrir að ég þekkti ekki lagið, sem hefði kannski verið betra hefði ég þekkt það, fannst mér flutningurinn frábær. Loksins vinnum við söngkeppnina og þrátt fyrir að við höfum haft betra atriði en þetta áður þá bætir þetta það upp. Í fyrra og hitteðfyrra hefðum við átt að vinna til verðlauna. En eins og allir vita er Söngkeppni Framhaldsskólanna tilviljanakennd keppni, sem snýst um það hverjir sitja í dómnefnd og svo framvegis.
-Ég hef ekki fleiri DVD diska af Friends til umráða. Það er gleði. En einungis í bili. Ég mun útvega mér fleiri. Það er líka gleði.
-Fleiri og fleiri koma til að skoða Tónlistarrýninn og ég hef tvær umfjallanir í burðarliðinum. Það er gleði.



torsdag, april 01, 2004

Vei, ég fer til Ástralíu

Ég hef fengið link á Tónlistarrýninn á musik.is!! Vei, vei.

Í dag fór ég í Idol hraðkeppni og vann! Ég fer til Ástralíu í keppni þar. Simon sagði að ég væri æði!
Svo fór ég og keypti mér miða á Bruce Springsteen tónleika og fer á þá í kvöld. Svo fór ég niður við stjórnarráð og sá borgarstarfsmenn taka Hannes Hafstein og setja Davíð Oddsson í staðinn. Skemmtilegur dagur!