Ég er aumingi. Ég er að fara vestur á eftir og mér er nú þegar orðið flökurt. Þegar ég var fimmtán ára var mér ekkert eðlilegra en að ferðast með bíl eða skipi (bát). Eftir að ég flutti til Reykjavíkur hefur þróunin verið algjörlega niðrá við. Ég er orðin ferðalangs aumingi. Ég held ég þurfi að biðja mömmu um bílveikistöflu svo ég muni nú örugglega ekki æla á leiðnni. Það er fátt ömurlegra en að stoppa einhversstaðar í Kollafirði og ætla að reyna að æla. (Kollafirði langt í burtu frá Kollafirði í Reykjavík) Ástæðan fyrir því að ég nefni Kollafjörð er sú að hann er svo hræðilega langur og virðist aldrei ætla að enda. Ég verð því að vera svarti sauður ættar minnar og kallst vestFJARÐAauminginn, ólíkt t.d. móðurbróðu mínum sem er víst vestjarðatröllið.
Kannski er ástæðan fyrir flökurleikanum sú að ég er með hálfklárað hljómfræðidæmi fyrir framan mig en ætlaði að vera löngu búin með það og annað að auki áður en ég legði af stað. Tilhugsunin um hljómfræði í bílnum er mér óbærileg.
Tilhlökkun ferðarinnar er hins vegar augnablikið þegar maður kemur keyrandi fyrir fjallið og Otradalur birtist. Í minningunni er augnablikið þrúngið spennu, tilhlökkun, æsingi og þannig mætti lengi telja. Fyrst og fremst er tilfinningin gleðileg og hamingjan sem fylgir augnablikinu er ólýsanleg. Þetta mun vera síðasta augnablikið mitt að þessu sinni en nú förum við vestur til að hjálpa ömmu og afa að flytja. Þó svo ég muni upplifa þetta augnablik aftur á ævinni verður það aldrei eins. Því ástæðan fyrir tilfinningu þessa augnabliks er auðvitað ævintýrin sem bíða manns í Otradal. Þó Otradalur haldi áfram fegurð sinni og mér muni alltaf finnast ég eiga hlutdeild í þessari jörð, verður það aldrei eins án ömmu og afa. En núna verða amma og afi miklu nær og ævintýrin munu bíða mín í Hrafnhólunum.