6 ára eða 66 ára. Hver er munurinn?....
Komið þið nú öll sumarsæl og blessuð. Ég hef þjáðst af mikilli bloggleti undanfarið. Orsök hennar eru óljós. Verið er að rannsaka þau.
Elsa Nína hringdi í mömmu áðan mjög æst yfir því að hafa séð mig í sjónvarpinu sitja á Árbæjarsafni við það að prjóna, þetta var víst tekið annaðhvort í dag eða í gær. Mömmu fannst þetta undarlegt þar sem ég er bara búin að sitja úti á svölum í sólbaði alla helgina. En Elsa Nína og Jónas þekktu mig bæði. Þetta var Ingrid!! Já, bara ef. Nei, ég hefði ekki viljað vera að vinna þriðju helgina í röð. Ágætt að fá frí núna.
Um síðustu helgi kom kona (svona milli fimmtugs og sextugs) á safnið og spurði mig hvort ég væri gömul kona. Ég neitaði því kurteislega. Þá hélt konan áfram.: "Já, þú átt að vera gömul kona", Aftur svaraði ég neitandi. "Já, en þú ert að leika gamla konu!". "Nei, ég er að leika unga konu" sagði ég. Konan sagði ekkert svo ég hélt áfram: " Sjáðu til, í gamla daga voru líka til ungar konur. Þær voru klæddar svona. Þær ungu konur urðu svo gamlar og þeim man þín kynslóð eftir."
Ég man ekki hvort ég útskýrði þetta nákvæmlega svona en inntakið var allavegana þannig. Mér finnst þetta svolítið fyndið. Það er nefnilega þannig að Íslendingar fatta hlutverk okkar ekki. Það gera hins vegar túristarnir. Hversu oft hefur maður ekki lent í því að kallar á sextugsaldri kalli á eftir manni "Nei, amma!!" eða "Nei, krakkar, sjáiði gömlu konuna!". Íslendingar detta einhvernvegin bara inn í tímann þegar þeir voru sex ára og voru sendir í sveit. Þar voru húsfreyjurnar klæddar í treyju eða skyrtu, pils og mittissvuntu og voru kannski með kollu með skúf eða skuplu. Sumar voru kannski í peysufötum. Útlendinar eru miklu gáfaðri en Íslendingar í þessum efnum. Útlenginar fatta að við erum þarna til að sýna hvernig gamli tíminn var í Reykjavík fyrir 100-200 árum, en ekki þarna til að leyfa Íslendingum að upplifa gamlar æskuminningar sérstakleg fyrir þá, þegar þeir hlupu upp á torfþökunum á gamla bænum og máttu snerta eldhúsdótið og setjast í stólana. Svo átta þeir sig ekki alveg á hvar þeir eru staddir og geta þess vegna ekki gert barnabörnum sínum grein fyrir því í hvaða tíma þau eru stödd. Þessvegna koma börnin upp að manni og spyrja "ert þú í gamla daga?" eða "ert þú dáin?" því tímaskyn þeirra ruglast verulega þegar æskuljóminn kemur í augu ömmu þeirra og afa. Á þessum tímapunkti verður kynslóðabilið ekkert á milli barnanna og ömmurnar og afans. Saman hlaupa þau um Árbæjarsafn í kassabíló með kandís í kramarhúsi, öll sex ára.
.............enginn