The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

tirsdag, august 31, 2004

Þá fer allt af stað á ný. Tónskólinn byrjaði í gær. Píanótími og skemmtileg æfing milli hálfátta og tíu. Önnur aftur í kvöld. Jeij! Í morgun var mjög dugleg og æfði mig niðrá Engjateigi í heila tvo og hálfan tíma. (Ætlaði að æfa mig meira..en...) Svo byrjar skólinn á mánudaginn. Fer fyrst á kynningarfundi og slíkt. Ekki veitir nú af, ég hef ekki hugmynd um hvar Árnagarður er nákvæmlega.
Í síðustu viku reyndi ég að lesa eina blaðsíðu í bókinni Introductuion to Language og skildi ekki orð. Það hlýtur nú samt að bestna.

Um helgina var svo síðasta helgin á safninu. Sunnudagurinn var sérstaklega ánægjulegur þar sem ég fékk að vera í peysufötum. Það var svo gaman!! Séra Þórhildur kom til að skíra í kirkjunni og sagði mér fréttir af Bergi. Jenný Halla var í heimskókn hjá mér akkúrat þegar hún kom. Eftir skírnina hringdi ég bjöllunum og gekk frá í kirkjunni. Þegar ég kvaddi svo Þórhildi sagðist hún biðja að heilsa Jensínu. Mér þótti þetta svo skemmtilegt því ég þurfti að hugsa mig um sem snöggvast hver þessi Jensína væri áður en ég kveikti. Þetta segir mér það eitt að Bergur talar um Jensínu við fjölskyldu sína og greinilegt að mamma hans bara tekið það upp. En allavegana, mér fannst þetta mjög fyndið.

Eins og venjulega hef ég frá engu markverðu að segja og get ekki skrifað neina pistla af viti nema um það sem ég er að gera dags daglega. Engar djúpar samfélagspælingar hafa runnið um höfuð mitt undanfarna daga. Carrie Bradshaw heldur mér vel upplýstri um daglegt brauð í Nýju Jórvík og þessvegna ekki þörf á að ég rífi mig um daglegt brauð í Reykjavík. Ætli ég sé ekki bara að verða svona einföld að ég get ekki hugsað dýpra. En, erum við ekki öll að verða alltaf grunnhyggnari og einfaldari.......?



lørdag, august 28, 2004

Danski prinsinn á hvíta hestinum

Það er með miklu stolti en jafnframt mikilli ánægju sem ég tilkynni að nú hafa mínir ungmeyjardraumar verið kvikmyndaðir, settir á hvíta tjaldið og sýndir um víða veröld.
Kvikmyndin ber heitið The Prince and Me, eða Prinsinn og ég. Handritið var staðfært að litlum hluta og fjallar nú um unga menntaskólapíu í Wisconsin í Ameríku. Verður hún ástfangin af danska ríkiserfingjanum (sem einnig hefur verið staðfært og hann gerður að jafnaldra hennar). Danski ríkiserfinginn er myndarlegur, hávaxinn og skolhærður, ekki svo ólíkur dönskum sjarmörum. Reyndar svolítil blanda af Freddie Prince Jr. og Michael Vartan. Góð blanda það. Áður en unga stúlkan veit af er hún stödd í hringamiðju danskrar menningar, í leigubíl hjá dönskum leigubílstjóra, í höll hinnar grimmu dönsku drottningar og undir stjórn óþolandi dansks stílista. En eins og allir vita eru engir danskir leigubílstjórar í Kaupmannahöfn, danska drottningin ljúf og góð og danskir stílistar virkilega þolanlegt fólk.
Draumurinn tilheyrir kannski ekki alveg endilega mér, flestar íslenskar stelpur dreymir nákvæmlega sama drauminn. En í mínu tilfelli erum við ekki að tala um danskan ríkiserfingja, enda hann harðgiftur maðurinn. En danskur draumaprins myndi nægja mér. Þ.e.a.s. vel efnaður, gáfaður, myndarlegur....og svo framvegis. Systur mínar dreymdi nákvæmlega sama drauminn fyrir alls ekki svo löngu síðan. Heiðbjört situr nú hér í festum eftir að hafa fallið fyrir íslensku borgarbarni og ber sá drengur öll einkenni um arfleifð Íra hér á Íslandi. Sunna heldur samt fast í sinn draum svo og ég.
Þakka ég Amerískum handritshöfundum, leikstjóra myndarinnar, leikurum og sérstaklega Julia Stiles, fyrir að hafa túlkað sjálfan mig á svo undraverðan hátt.



torsdag, august 26, 2004

Bara að athuga hvort þetta dót virki ekki. Hibba var að kvarta yfir einhverjum ERROR.
Annars er ég bara í hinu hljúfa fríi (með hangandi fullt af hljómsveitaræfingum á næstu vikum yfir mér).

Í dag fór ég með mömmu í Krónuna og Möbleslottet. Er að leita að skrifborði. Í Krónunni sá ég skilti sem stóð á SAFAR. Þetta kom mér hálf spánskt fyrir sjónir. Ég og mamma gátum engan veginn fundið út úr því hvort Safi væri fleirtöluorð eða ekki. Ég vildi að ég gæti spurt afa núna. Orðabókin segir hins vegar: safi, -a,-ar. Þannig að þetta virðist vera rétt. Svona er vor íslenska tunga furðuleg.



mandag, august 23, 2004

Þá er hinni löngu útlegð í Vestmannaeyjum lokið. Hef ég tekið mér daginn í að jafna mig eftir erfiði síðustu viku. Auðvitað lauk prógramminu í gær á tónleikum og afhendingu viðurkenningaskjala fyrir þátttökuna. Og auðvitað þurfti einhver að misskilja nafnið mitt og skrifa Ingrid ÓSK!! Ekki nóg með það að nafnið væri skrifað svona heldur hafði einhver reynt að leiðrétta það með því að bæt kommu fyrir ofan O og breyta s-inu í r, með bláum penna, en skjalið var svartletrað, mjög flott uppsett með gylltum ramma.
Vestmannaeyjabær er fyndinn lítill og furðulegur bær. Þar eru heil ein umferðarljós með beygjuakreinum og öllu. Svo er það eitt stopp merki. Það sem mér finnst svolítið fyndið er að fólk stoppar á rauðu ljósi. Það er fyndið í ljósi þess að ekki er til siðs að gefa stefnuljós né stoppa á STOP merkjum.
Svo fannst mér líka svolítið fyndið hvernig allir bæjarbúar eru að farast á taugum yfir litlu pysjunum sem villast til bæjarins á þessum árstíma og enginn pappakassi má standa tómur út í horni því þeir eiga að vera notaðir í pysjuveiðar.
Annars veit ég að ég gæti aldrei átt heima í Vestmannaeyjum, sko aldrei.

Hið langþráða frí mitt byrjaði svo í dag. Fríið byrjaði ég á því að sortera nótur og nótnabækur. Nú munu ryðja sér til rúms í herberginu mínu, ásamt öllum nótunum mínum, íslenskubækur í miklu magni. Hefi ég ekki enn fundið þeim stað en mun það gera von bráðar.
Fyrsti dagur sumarfrísins var einnig notaður til borðtennisspils. Hefi ég lært að það sem mestu máli skiptir í borðtennis er að halda á spaðanum eins og Kínverjar og standa sem fjærst borðinu. Þökk sé snillingnum bróður mínum, að ég veit þetta núna. Einnig er honum að þakka að ég veit að ég mun aldrei vinna til stórra verðlauna í borðtennis.

Eigið góða daga.



onsdag, august 18, 2004

Jæja, gott fólk. This is Vestmannaeyjar calling.

Ég er að rotna í Vestmannaeyjum. Ég er mjög einangruð hérna. Ég kemst ekkert. Hér er sjór allt í kring, eitt netcafé með einni tölvu sem erfitt var að fá í gang, vondar pizzur og smábæjarbragur yfir öllu. Ég veit, ég er orðin Reykvíkingur. Þvílíkt og annað eins borgarbarn, það hélt ég að ég myndi aldrei verða.
Vistin hér er annars ágæt, en hún er strembin. Ég leyfi mér að bölva andskotans sextándapörtum Mozarts, þetta píanótríó er að gera mig alveg brjálaða. Svo og allt annað. Chopin hefur reyndar verið mér hliðhollur en það er ekki nóg. Það er ekki hægt að spila Chopin í fjóra fimm tíma á dag þegar Mozart og önnur tónskáld bíða óþreyjufull niðrí tösku eftir að ég fullkomni þeirra lög.
Ég verð bara að viðurkenna að mér finnst þetta rosalega erfitt. Að sitja í tónskólanum allan daginn er bara erfitt. Að æfa sig fjóra tíma sjálfur og mæta svo á æfingar, það gerir alveg átta tíma æfingar svona í heildina. Annars verð ég að segja iPodinn minn hefur bjargað lífi mínu. Þökk sé Nik og Jay (hip hop, eitthvað sem ég hélt að ég myndi heldur aldrei læra að meta) og The Darkness, þá eru dagarnir skemmtilegir. Ætli þessi hip hop áhrif séu ekki af of mikilli umgengni við þennan mann og of mikilli lesningu á bloggi þessa sómamanns.
En, ég þoli ekki takkaborðið hérna lengur, ætla að bæta enn einum klukkutímanum við í dag við píanóið. Verið sæl að sinni.



fredag, august 13, 2004

Í dag, kæru vinir, föstudaginn 13. ágúst 2004, er ég, Ingrid Örk Kjartansdóttir, fædd 7. apríl 1984, orðin stoltur eigandi græns iPod's minis. Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn er lítill og dúllulegur grænn iPod mini og hefur ekki enn verið gefið nafn.



søndag, august 08, 2004

I believe in a thing called love, just listen to the rythm.....

Ég fór í brúðkaup í gær hjá þeim Fjólu og Davíð sem nú eru orðin hjón. Ótrúlegt en satt. Furðulegt að eiga hjónavini. Allt var mjög fallegt, kjóllinn hennar Fjólu, athöfnin, veislan, maturinn og ístertan. Svo má ekki gleyma þeim hjónum, þau voru svo glæsileg, falleg og hamingjusöm. Mér finnst samt fyndið að krakkar sem ég var að fara með á MH böll, bara fyrir nokkrum árum, séu orðin hjón. Fólk sem ég var að spjalla við uppi á Miðgarði, bara fyrir nokkrum mánuðum. Já öll erum við að fullorðnast.

Svo fór ég í nótt með Bergi og vini hans Martini á djammið. Byrjuðum á partýi í Kópavogi. Ég er eiginlega ekki alveg með á hreinu hver þekkti hvern þarna og af hverju við vorum í þessu partýi, en ég bara fylgdi með. Skemmtum okkur svo konunglega niðrí bæ. Fór í tvær mínútur inn á Hverfisbarinn eftir að hafa beðið í röð í svona tuttugu míntúr. Það var samt mjög skemmtileg bið og varð ég margs vísari um fólk úr MH. Á föstudaginn var ég hins vegar lengi þar inni með Jenný Höllu og vinnufélögum hennar, eftir vægast sagt svæsið Sing Star partý. Ég held ég muni aldrei fá leið á að syngja eftirfarandi:

Touching youhooooooooooooo, touching meheeeeeeeeeee, touching you God you'r touching me, I believe in a thing called love, just listen to the rythm of my heart.......

Já, sum lög eru bara skemmtileg og eins og ég lærði hjá Fjólu og Davíð í gær þá eru flestir sem einmitt trúa á ástina. Og það er sama hvort maður tjáir það með sítt hár í latex galla og með rafmagnsgítar, eða í jakkafötum með píanóleikara og rós í brjóstvasanum.



fredag, august 06, 2004

Í dag er föstudagur sem þýðir að það er víst komið að orði vikunnar.

Orð vikunnar er:

mistur, -urs H 1 móða; hitamóða. 2 ráðleysi; misturs-lamb, -kind (staðbundið málfar) kyrkingslegt lamb eða kind.


Hvað ætli sé að vera kyrkingslegur? Jenný Halla og Bergur, þið eruð mjög mikið misturs-fólk. Hugsið ykkur ef maður myndi segja við einhvern að hann væri kyrkingslegur!



tirsdag, august 03, 2004

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Thom York er alveg einstaklega ófríður maður. En ég hef líka komist að þeirri niðurstöðu að Radiohead er hljómsveit sem heillar alla, á einn eða annan hátt. Meira að segja Berg langar til að kynna sér Radiohead betur, og þá er nú mikið sagt. Bergur vill hins vegar mena að Radiohead sé einhver apríl veiki. Það gæti alveg hugsast, Viðar mágur minn er fæddur í apríl og það er enginn sem veit meira um Radiohead enn hann.
Allavegana.

Setning vikunnar er:

Ég hélt að nútíminn, það væri fyrst og fremst að hafa í sig og á - Orð Ólafs Kárasonar Ljósvíkings við Pétur Pálsson, Pétur Þríhross, í skáldsögu Halldórs Laxness "Hús skáldsins" (1939) (5. kap.), þriðja hluta Heimsljóss. HKL 1939.

Orð í tíma töluð 1999:150