Hvað haldiði? Ingrid keypti sér bara kort í ræktinni!!!
Nú mun ég byrja að pumpa eins og brjálæðingur þangað til ég hef farið svo oft að tímarnir borga sig að fullu. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég er ekkert svo mikið fyrir pumpið, langar ekkert að vera með rosa upphandleggsvöðva og læti. Ég vona bara að hlaup á bretti og einhver æfingar geri bakinu mínu gott. Þannig að það er nú kannski ekkert fáránlegt að ég kaupi mér kort í líkamsræktarstöð. Ég lifi nú ekki á körfuboltanum í 12 ára bekk allt mitt líf. Og ykkur þykir kannski fyndið að ég hafi æft íþróttir, en það gerði ég, í heilan einn vetur.
Mér finnst svolítið fyndið að Sunna dýrkar/ði körfubolta, bæði að spila hann og að horfa á hann í sjónvarpinu. Mér fannst það og hefur alltaf fundist, mjög leiðinlegt að horfa á körfubolta. Ég get skemmt mér vel yfir handbolta, en hef aldrei getað spilað hann. Eins er farið með fótbolta, ég var alltaf sett í vörn og svo setti ég hendurnar fyrir andlitið og lagðist á grúfu þegar boltinn nálgaðist. Svo ákvað ég að fara að æfa körfubolta, því mér fannst svo gaman í körfu. Þannig var því nú farið að ég var best í körfunni. Ég stal boltanum af öllum, hitti á körfuna, gat driplað án þess að taka skref og þannig. Ég var BEST. Á æfingum, þ.e.a.s. Ég var samt alltaf lélegust af stelpunum í bekknum mínum. En þær voru ekki að æfa körfubolta. Með mér á æfingum voru bara stelpur sem voru yngri en ég og mun lélegri. Ég náði samt að vinna mig upp í að fá "góð Ingrid!" í skólaleikfimi. En, ég meiddi mig svo oft í fingrunum á þessari íþrótt að ég hætti. Þetta samræmdist heldur ekki alveg hlutverki mínu sem lúðrasveitanörd. Þannig er nú allur ferillinn minn. Og þetta er sem sagt eina skiptið á æfi minni sem ég hef verið góð í einhverju (á æfingum, sem sagt).
Og nú verður gerð heiðarleg tilraun til þess að stunda hreyfingu, af einhverju tagi. Þó ég sé anti-sportisti. Já, þið getið bara hlegið. En nördar eru líka fólk, nördar fara líka á líkamsræktarstöðvar. Og þó ég verði ekki best....þá hlýt ég að verða betri en einhver annar.