Lífið er fallegt....
...og það er ég líka. Allt er fallegt. Ég æfði mig fallega í morgun, í langan fallegan tíma og núna er fallegur föstudagur og fallegur laugardagur á morgun. Í gær sá ég fallegan mann í fallegri bíómynd. Fegurðin er allt um kring.
Við komumst að því um daginn í aðferðum og vinnubrögðum, (í skólanum) að erfitt er að finna málfræðileg dæmi um 2. og 3. persónu á bloggsíðum. En bloggsíður eru fjársjóður til málnotkunarkönnunar. Bloggsíður eru aðallega skrifaðar í fyrstu persónu og þar sem sú er staðreyndin ætla ég að halda þeirra hefði við. Ég mun ávallt halda þeim sið að skrifa aðeins um mig, ágæti mitt og glæsileika. Ég hef nefnilega komist að því að fólk er fífl. Nema ég. Ef þið sjáið mig gera mig að fífli á einn eða annan hátt skuluð þið ekki halda að ég hafi núna rangt fyrir mér. Í hvert sinn sem ég læt kjánalega eða fíflalega er ég aðeins með látalæti. Það er svolítið erfitt að lifa í heimi, fullum af fíflum en vera svo sjálf ekki fífl. Ég verð því að vera með. Þannig að í hvert sinn sem ég geri mig að fífli, er það bara smá grín. Þannig að fram vegis mun ég aðeins skrifa um sjálfan mig, og ef til vill hversu mikil fífl aðrir eru.
Í nótt ákvað ég til dæmis að látast með. Vera fífl. Mig dreymdi svo fíflalegan draum. Hugsið ykkur, ég get látist vera fífl, líka þegar mig dreymir. Þannig var að mig dreymdi ósköp eðlilegan draum þar sem ég hitti fólk og svona...blablabla. En seinna um nóttina breyttist svefninn minn, já eða gerð draumsins, er ekki alveg viss. Svefninn var ekki lengur bara svefn, heldur var ég farin að sofa nýjum svefni sem byggðist upp á hljómagangi og raddfærslum. Tegund svefnsins var sem sagt bassi, tenór, alt og sópran. Þetta var frekar furðulegt. Mér leið mjög vel og vildi helst bara sofa sem lengst og átti mjög erfitt með að vakna í morgun. Ég var mjög ánægð með þennan raddfærsludraum/svefn.
Pabbi sagði að nú væri þetta of langt gengið, þegar hljómfræðin og tónlistin væri að taka yfir sjálfri mér í svefni. Ja, ég veit ekki. Það líður örugglega ekki á löngu þangað til mig verður farið að dreyma sagnbeygingar, tíðir, föll, frumlag og andlag. Þ.e.a.s. að svefninn minn verður gerður úr orðflokkagreiningu og setningarfræði.