The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

tirsdag, november 30, 2004

I'm in heaven, I'm in heaven, and my heart beats so that I can hardly speak.....!

Ég elska Ellu og Louis, þau eru bara svo mikil krútt, og það býr svo mikið grúv innra með þeim. Ég finn hvernig gimbill brýst út úr mér í formi grúvsins þegar ég hlusta á þetta lag, og ekki bara grúv, bara hamingja, stjórnlaus hamingja yfir því að vera að hlusta á þetta lag. Þetta lag er endorfín, þetta er eins og að borða súkkulaði eða að vera yfir sig ástfanginn. Reyndar dettur mér alltaf líka í hug aumingja svertinginn í The Green Mile sem fékk að hlusta á lagið áður en hann var tekinn af lífi. Já svona er þetta.

Í dag rústaði ég einu tónlistarsöguprófi. Og þá meina ég RÚSTAÐI í orsðins fyllstu merkingu. .......en ég legg líka aðra merkingu í þetta orð en þið. ...... það gengur bara betur í næsta prófi.

Annars er lífið bissí, verulega bissí. Hljómfræði á laugardag og svo slatti af tónleikum í næstu viku, lestur fyrir málfræði og ég veit ekki hvað og hvað. En það tekur allt enda klukkan 16:30 þann 17. desember. Þá tekur við alsæla í nokkra daga í fallegri Evrópuborg og svo alsæla undir sæng á Íslandi í viku.

Ég bið ykkur vel að lifa og gangið á Guðs vegum!



søndag, november 28, 2004

Mille regretz

Þessi lína er úr texta við lag Josquin des Prez sem var uppi 1440-1521. Það er nú kannski lítið sem ég sé eftir þessa daga, nema kannski það að hafa farið í tölvuna á föstudagskvöld, ansi létt á þvi eftir nokkra bjóra og farið að skipta mér af á bloggsíðum annars fólks, ekki alveg með fulde femm. Eftirsjá í því.
Nú er ég sem sagt að læra fyrir tónlistarsögupróf. Sem dæmi um það sem er til prófs er að geta þekkt þetta yndisfagra lag:

Rose, liz, primtemps, verdure,
Fleur, baume, et tres douce odour.
Belle, passes en doucour,
Et tous les biens de Nature.
Avez don't je vous aour.
Rose, liz, primtemps, verdure,
Fleur, baume et tres douce odour.

Ég vildi að ég skildi þetta alveg, en ég veit samt að þetta fjallar eitthvað um fegurð, blóm, vorið og svona annað í þá áttina. Það var snillingurinn Guillaume de Machaut sem samdi þetta lag. Hann var sem sagt uppi 1300-1377.

Ég og pabbi erum búin að ákveða (þ.e.a.s. ég er búin að ákveða) að fara í messu í Vor Frue Kirke sunnudaginn 20. desember. Ég hlakka mikið til. Svo þegar messan er búin förum við beint á Jensens Böfhus í hádegismat. ohoohoh, ég er svo spennt. Þetta verður svo mikið æði.

En jæja.....aftur að lestrinum.



onsdag, november 24, 2004

Ég fer í hátíðarskap, þótt úti séu snjór og krap.......

Núna eru amma og afi loksins komin í hvíta fallega rammann ofan á píanóið, alsælir krakkar í brúðarfötunum með bros á vör. Ég vil trúa því að myndir í okkar heimi virki eins og myndir í Harry Potter, við bara sjáum það ekki. Þannig að núna getur afi komið hvenær sem hann vill og tékkað hvort ekki sé í lagi með mig. En nú er allavegana eitt verk búið, þó mörg séu eftir. Ég er nú samt að komast í svo mikið jólaskap að hvað og hverju fær Georg Jensen óróinn minn (1984! ) að koma upp úr kassanum og verður hengdur í gluggann. Sama má segja með Georg Jensen- óróann minn 2003. Svo fer ég að leita mér að rauðri seríu í gluggann og bráðum fer ég að þurrka rykið úr herberginu. Svo má ekki gleyma aðventunni og jólunum í litlu húsunum hérna í herberginu mínu. Aðventukransinn verður brátt settur á sófaborðið á efri hæðinni í fyrirofanskrifborðiðvegi og aldrei að vita nema fjölskyldan í inníhillunnigötu fái seríu á svalirnar. Þannig að kannski fer ég bara að koma hlutunum í verk. Hver veit.



mandag, november 22, 2004

Afskaplega erum við fallegar frænkur, ég verð nú bara að segja það.

Nú sit ég hérna á þjóðarbókhlöðunni að reyna að blogga. Ég kann ekki að taka af þessa línu sem kemur hér undir þannig að ég læt þetta bara gott heita. Gangi ykkur vel að læra fyrir próf, heyrumst þegar ég kem heim frá DK. Bæjó.



lørdag, november 20, 2004

Er lífið pólitík?

Þessari spurningu verður kannski auðsvarað. Lífið er ekkert frekar pólitík en hún er tónlist (eins og ég vil halda fram). Ég ætla að biðja Berg um að hætta ekki að lesa, heldur verður þetta blogg byggt á samræðum okkar í gær.

Eftir skemmtilega vísindaferð meðal íslenskunema og einhverra annarra nema sem ég kann ekki að staðsetja innan deildar í Háskólanum, fór ég að hugsa um hvað pólitískar skoðanir manns skipta oft miklu máli þegar maður kynnist nýju fólki. Ef maður hefur ekki myndað sér skoðanir á málum er maður talinn áhrifagjarn, skoðanalaus, villuráfandi almenningur. Og hvað þá verra, útilokaður úr samræðum. Þetta er nú kannski ekki svona slæmt, því um leið og ég hafði sannfært fólk í gær um það að stundum væri gott að vera einfaldur og áhrifagjarn var ég tekin aftur inn í hópinn og ekki talin svo glötuð. Já, þetta var upplifun mín í gær.
Ennfremur fór ég þá að velta fyrir mér hversu pólitískar skoðanir skipta miklu máli í samskiptum kynjanna. En ég verð að segja að í þessari vísindaferð var mikið um pælingar og samskipti kynjanna, þvers og kruss. Gæti það verið að þegar maður hittir strák þá skipti pólitískar skoðanir hans máli. Ég verð að viðurkenna að ég er soldið complexuð þegar kemur að þessu, samt er það ekkert til að hafa áhyggur af. Skiptir það aðra máli hvar ég stend. Skiptir það fólk máli þegar ég er ósammála þeim, vill fólk halda áfram að tala við mig eða ekki.
Í gær var ég svo að tala við Berg á msn. Hann vill halda því fram að það sé mjög óhagstætt fyrir ríkið að reka landsbyggðina og vill fella hana niður. Ég reyndar vann hann í þeim rökræðum og kaffærði hann í rökum fyrir atvinnubótavinnu og styrkjum til atvinnurekstur á landsbyggðinni.
En mér þykir vænt um Berg. Ég hata hann ekki þó hann sér þeirrar skoðnuar að landsbyggðin sé bara á hverfanda hveli en mér þyki vænt um landsbyggðina. Það er kannski einmitt málið, mér líkar svo vel við hann því hann hefur skoðun, og færir rök fyrir sínum skoðunum. Þannig að pólitísk staða hans skiptir mig ekki máli. Heldur það að hann hafi skoðun.
En þá er ég aftur komin að þeirri spurningu hvort pólitík sé lífið. Eru samskipti okkar byggð á pólitík. Þar sem ég sat meðal vinstrisinnaðra, meðvitaðra og uppreisnargjarnra Árnagarðsnema komst ég að því að hjá sumum er pólitík lífið. Til dæmis hjá flestum í Árnagarði, svipað og hjá flestum í MH.
Nú er ég algjörlega týnd í þessum pistli og hef komist að þeirri niðurstöðu að ég mun aldrei komast að niðurstöðu. (og ef einhver ætlar að færa rök fyrir því að þessi niðustaða sé í raun og veru ekki niðurstaða þá öskra ég á sá og hinn sama næst þegar viði hittumst!) Ég er nógu rugluð fyrir.

Fyrirfgefið mér að hafa látið ykkur lesa þetta.



tirsdag, november 16, 2004

Gleðilegan dag íslenzkrar tungu!!

Í dag er nú sérstakur hátíðisdagur Íslendinga, sérstaklega hér í Árnagarði meðal vor íslenzkunema. Mér finnst að í dag ætti Árnagarður að vera skreyttur með borðum í fánalitunum, hér ætti að vera boðið upp á veitingar og veigar og hvert skáldið á eftir öðru ætti að standa á kókkassa niðrí anddyri og flytja okkur ættjarðarljóð og lesa upp úr bókum sínum. En...jájá, smá uppákoma í Stúdentakjallaranum í kvöld, en það er ekki nóg. Ég vil fá íslenzka súkkulaðiköku, og svo gætu allir þeir sem vildu fengið uppskriftina að kökunni á íslenzkri tungu, og svo væri íslenzkt gos á boðstólnum, allt íslenzkt. Svo finnst mér að í tilefni dagsins ætti enginn útlenskukennsla að vera í Árnagarði....haha, grín. (takið eftir því að ég segi grín en ekki djók í tilefni dagsins). Svo ætti að fylgja með hverri sneið af kökunni einn góður málsháttur á íslenzku. Já, eða utan á gosdósinni. En verið sæl að sinni og gangið á Guðs vegum.




mandag, november 15, 2004

Tár !

Ok Computer- diskurinn minn er horfinn. Ég veit ekkert hvar hann er. Hvar ætli hann sé? Kannski þar sem debetkortið mitt eða silfurkrossinn hennar ömmu er. Ég vil fá Radiohead diskinn minn...uhuuuhuuu......



lørdag, november 13, 2004

Úff....


Ég held ég hafi áður deilt mínu erfiða lífi og erfiðu ákvörðunum með lesendum. Ég skil stundum ekki hvað ég er að gera. Ég heldað vandamál mitt sé aðallega það að ég hef úr of mörgu að velja og get gert allt.
Í fyrsta lagi tími ég ekki að hætta í neinu í tónlistinni. Tónlist er mín ástríða, sama hvort ég er að spila á sembal í samspili Aríu eftir Bach, eða pikka upp hljóma við góða jazz standarta, spila skala á saxafóninn eða syngja nýjasta sykurpopplagið, hlusta á Un Spospiro eftir Lizt eða þungasta rokk með Radiohead eða ACDC. Stundum velti ég fyrir mér af hverju ég hætti ekki bara þessu rugli og bara helli mér út í tónlistina. En þá koma upp í hugann allar sagnbeyginar, eintölu orð og fleirtöluorð, Íslendingasögur og skyldleiki mála. Hvað er að mvér? Ég vil allt. Ég vil gera allt og ég vil kunna allt. Einn daginn ætla ég að sigra heiminn. Já, ætli það ekki. Samt er ég alltaf að kvarta yfir öllu sem ég þarf að gera, meðan það var ég sjálf sem kom mér í þessi vandræði. En jæja, þetta fer einhvernveginn.



onsdag, november 10, 2004

Kæri Draumaprins

Ég bið þig að fyrirgefa það sem ég þarf að segja þér. Eftir að ég hef létt á hjarta mínu vona ég að samband okkar geti verið sem fyrr.
Ég þarf því miður að segja þér að ég hef ákveðið að gefast öðrum manni. Ég og Jeff Buckley höfum fellt hugi saman í ómi söngs hans og sálu okkar. Við erum ákafleg hamingjusöm og samband okkar er mjög tilfinningalega náið, sálir okkar sameinast sem ein í tónlist drauma okkar og þeirrar sem hljómar í eyrum okkar alla daga. Við ætlum að berjast saman í gegnum frumskóg ástarinnar þangað til afkvæmi okkar geta leikið sér á engjum ástarinnar og svo göngum við öll saman á ströndum hamingjunnar. Þegar við höfum nært okkur á ávöxtum ómblíðunnar og drykkjum hljómsveitarleiksins, siglum við út á hafsjó kærleikans í snekkju fimmundahringsins og komum aldrei aftur.

En þá vaknaði ég. Jeff Buckley varst þú, minn ástkæri Draumaprins. Þú varst þar við hlið mér á hafsjó kærleikans og söngst mér seiðandi ljóðasöngva. Ekki halda, minn hjartfólgni Draumaprins, að allt milli okkar sé búið. Það er aldrei búið. Það er aldrei of seint.
Eins og Jeff Buckley söng með sinni ljúfu rödd. It's never over. It's never to late.

Je t'embrasse.
Þín innilega,
Ingrid Örk.



tirsdag, november 09, 2004

Hjálp!

Það er verið að spila allar útgáfur af laginu 15. september úr Hárinu, sem hafa verið gerðar í útvarpinu. Spare me! Já já, ég var með æði fyrir þessu lagi þegar ég var 14 ára og söng það af mikilli innlifum við píanóið og einföldustu F og C hljóma. En, sú tíð er ekki lengur, þetta er örugglega eitt væmnasta lag sem ég bara veit um (fyrir utan kannski Endless Love með Lionel Richie).

Talandi um væmni. Ég fór á Cinderella Story í gær. Úff, ég vissi ekki hvert ég ætlaði í fyrri hluta myndarinnar. Ég hálf skammaðist mín fyrir að vera þarna. Seinni hlutinn var samt aðeins betri. En hverju sem því líður er alltaf gott að fara á "americanhighschoolpromhappyendingmovie" með yndislega fallegum karl-aðalleikara.

.....og já. Þessar yfirlýsingar hjá mér eru ef til vill orðnar þreyttar en: Ég ætla að giftast aðalleikaranum!!



mandag, november 08, 2004

Bóbó; bangsi eða bókasafn?

Undarlegt sístem hérna á Bóbó (Þjóðarbókhlöðunni). Hér er andrúmsloftið mengað af einhverju svefnlyfi, en samt sem áður er reynt að hleypa inn kulda til að koma til móts við nemendur og reyna að halda þeim vakandi. Þessi kuldablástur er ekki alveg að ganga. Það er eins og Vetur Konungur standi hérna inni og sé alveg að gefa upp öndina, en þó að reyna að sinna skildu sinni svona rétt fyrir dauðann. Kuldinn nær því ekki að hafa yfirhöndina í stríðinu milli hans og hins þægilega svefn-andrúmslofts.
Í örvæntingu sinni reyna nemendur með öllum ráðum að halda sér vakandi. Setjast jafnvel í tölvuverið, tékka hverjir eru á msn og lesa nokkrar bloggsíður. Þótt ótrúlegt sé en satt, er mun auðveldara að lesa bloggsíður sem fjalla í sjálfu sér ekki um neitt, heldur en fræðilegar kennslubækurnar sem innihalda mjög áhugaverðan fróðleik og mikil sannindi. Hinn áhugaverði sannleikur fær nemendur þrátt fyrir allt til þess að vilja sofna yfir honum.
Eða er það ef til vill bara veðrið sem leikur metnaðarfulla og þekkingarþyrsta nemendur svo grátt, og kannski sú staðreynd að próflok og jólin eru eftir einn og hálfan mánuð?
Nemendur setjast jafnvel við tölvurnar og láta sköpnargáfuna njóta sín, með því að skrifa pistla á bloggsíðu sína. Pistla sem fjalla um ekki neitt, en vona samt að sem flestir lesi og hugsi með hlýju og aðdáun til þeirra, og vonast svo til þess að vakna um leið og halda áfram að lesa og læra.



fredag, november 05, 2004

Heimurinn hann gæti verið verri.....

Bergur sagði mér að slappa aðeins af. Okei, ....en samt...

-Jamie Cullum stal hugmyndinni minni um útsetninguna af Everlasting Love...djö..!
-ég þoli ekki Jóhönnu í Íslandi í Dag. Vill einhver taka þessa konu úr sjónvarpi, hún er dónalegur fréttamaður.
-vill fólk hætta að tala um tölvupósta!! Arrghh, ég þoli ekki þessa tölvupósta, ég vil að póstur sé bara eintölu orð, mér finnst þetta hljóma fáránlega í fleirtölu.
-rigning er ömurleg.

-það sem er kannski ágætt er að loksins virðist íslenska þjóðin komin með siðferðiskennd...þ.e.a.s. stjórnvöld. Vonandi að þetta sé upphafið af góðri siðferðiskennd borgarstjórnar....en eitthvað segir mér að svo er ekki.

Já, það er satt sem Sandra segir, maður hefur það nú bara mjög gott þrátt fyrir allar hörmungar heimsins. Núna er ég til dæmis að drekka kók og lesa Billed Bladet frá því í síðustu viku, gæti það verið betra?



torsdag, november 04, 2004

Beðið eftir dauðadómnum

Ég fór að hugsa út í það hvort það sé ekki bara táknrænt að rétt áður en Bush er endurkjörinn byrjar jörðin að spúa eldi og brennisteini. Má vera, má vera.

Ég svaf til klukkan níu í morgun, sem er mjög óvenjulegt. Málið er að ég var svo dauðþreytt í gær. Ástæðan fyrir þessari þreytu tel ég vera hið ógurlega forpróf sem ég tók í gær. Þegar ég hafði lokið við Chopin, frekar ósátt en nokkuð sátt á stressmælikvarða, þakkaði ég pent fyrir mig og gekk út. Ég taldi að úrskurðurinn myndi taka svona tvær mínútur. En nei, ætli ég hafi ekki beðið í tíu mínútur. Þá var ég orðin nokkuð viss um að ég þyrfti að taka þetta aftur í vor. Ég hef aldrei fundið fyrir jafn miklum hnút í maganum á ævinni. Ég sat þarna eins og ég biði eftir dauðadómnum. Venjulega eru prófin bara búin sem ég tek og ég hugsa lítið út í þau. En þegar maður þarf að bíða eftir niðurstöðu, já eða nei, tekur þetta bara helvíti mikið á líkamlega. Það sem mér þótti líka mjög furðulegt var titiringurinn í fingrunum. Þegar ég kom inn í prófið bjóst ég við þessari venjulegu lömunartilfinningu sem ég fæ iðulega í handleggina og fingurnar þegar ég spila undir álagi. Þegar svo ber undir vilja fingurnir ekki láta af stjórn og fara ekki eftir því sem ég bið þá um. Núna hegðuðu þeir sér svolítið öðruvísi. Þeir titruðu. Ég hef heldur aldrei fundið fyrir jafn miklum titringi í fingrunum á ævinni. Það var mjög erfitt að stjórna þeim í þessum skjálfta. Eftir þessi líkamlegu átök, varð ég mjög þreytt. Þetta gekk nú samt allt saman vel og allt útlit er fyrir að ég muni fara í sitgspróf í vor. Jibbííí........ meira stress!!!!