The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

mandag, december 27, 2004

Gleðileg Jól

Ég er búin að hafa það mjög gott í gær, takk fyrir að spyrja. Í nótt leiddist mér samt svo. Sendi Bergi sms því hann er nú alltaf til í msn spjall...neinei, var hann og Jenný ekki bara saman í partýi. Ég meina það...! Nei, nei. nú ætlar fólkið að koma til mín að spila. Jeij! Mamma og pabbi ætluðu reyndar í matarboð í Hveragerði, en þora að ég held ekki. Fer eftir því hvenær veðrinu linnir.
Áðan lá ég og horfði á West Side Story. Ég hefði átt að sleppa því. Ég fylltist svo mikilli gleði. "Maria, I've just met a girl named Maria...." en svo horfði ég á endinn. Og hvað þá? Jú, mér leið svo illa. Og ekki nóg með það heldur horfði ég á eftir því á Nóa Albínóa. Damn it! Þess vegna á maður bara að láta sér nægja að horfa á Friends og hlusta á tónlistina úr svona söngleikjum. Ekki horfa á myndirnar! Við það að hlusta á svo yndislega tónlist fyllist maður gleði og hamingju. Mæli eindregið með því. En ætli ég haldi núna bara ekki áfram að slappa af og hafa það gott. Bæjó :)



fredag, december 17, 2004

Langt blogg

Jæa. Þá er ég búin í síðasta prófinu og held heim á morgun til DK. Djók, ég kem aftur fyrir jól. Ætla bara að skella mér í eitt stykki afmælisveislu og versla soldið fyrir jólin. Voða gaman hjá mér.

Ég er búin að vera ein síðustu daga og það hefur nú margt gengið á. Á miðvikudaginn uppgötvaði ég til hvers þessir appelsínugulu púðar eru á pósthúsum. Í minningunni eru þeir alltaf þurrir og þjóna engum tilgangi. En þeir eru sem sagt til þess að bleyta frímerki. Þetta vissi ég ekki. Enda var ég aldrei látin setja frímerki, ég var bara látin stimpla á pósthúsinu hjá ömmu og afa. Aldrei treyst fyrir meiru.

Á miðvikudaginn ryksugaði ég herbergið mitt og skúraði. Ég ákvað að skúra líka baðherbergið í leiðinni. Ég tók mottuna inni á baði og ætlaði að dusta aðeins af henni úti á svölum. Ég var ekki í skóm svo ég bara rétti fram hendina og bara hristi mottuna. Ég hristi hana nú samt svo mikið að allt í einu sé ég bara á eftir mottunni fram af svölunum. Ég hleyp í ofboði mínu niðrá bílastæði, en þar er engin motta. Þá hljóp ég aftur upp í herbergi og í þetta sinn í skóm, kíkti fram af svölunum og sá þá hvar mottann hafði svifið niðrá svalir hjá henni Guðnýju. Great, hugsaði ég. Ég sá ekki annan kost en að banka bara uppá hjá henni Guðnýju og biðja vinsamlegast um mottuna sem og ég gerði og hún brást öll hin vingjarnlegasta við og náði í bölvans mottuna.

Nú er þar frá að segja að ég fór í próf í aðferðum og vinnubrögðum núna í dag. Ég verð aðeins að segja ykkur frá furðulega gaurnum í Árnagarði. Hann er alltaf voðalega nett klæddur, í rosa töffaraföt og með rosa gellað hárið. En guð, það er bara eitthvað við hann. Hann er svo mjór og svo horfir hann á mann með einhverju geðsjúklingslegu augnaráði, en samt er eins og hann sé smá vitlaus. Drengstaulinn, hann getur ábyggilega ekki gert mikið í því þó hann sé svoleiðis. Allavegana. Ég fór út í Aðalbyggingu og finn stofuna mína. Sé þá að frönsk málfræði III átti að vera í sömu stofu. Sé ég ekki hvar furðulegi gaurinn kemur, lítur á nákvæmlega sömu töfluna og ég og á sömu hurð og ég ætlaði inn um. Týpískt, hugsaði ég, þessi gaur er í frönsku. Þetta er svona gaur sem heldur hann sé voða kúl, en er svo í frönsku og finnst hann voða artí fartí. Hvað ætli sé með þennan gaur? hugsa ég. En svo snýr hann sér við, lítur eitthvert annað og gengur í burtu. Hjúkk!! Mér finnst bara eitthvað rosa óþægilegt við þennan gaur. Hvað ætli það sé nákvæmlega? En allavegana. Ég veit ekkert hvernig fólk er í frönsku, Myndi samt ætla að það væri svona rosa artí fólk með alpahúfu. (Sorrý Tóta, ég veit þetta á ekki við þig) En hugleiðingar mínar voru sem sagt á engum rökum reistar og alveg út úr kú.

Svo langaði mig bara að birta þennan textabút áður en ég held út í heim. Þetta er handa Jennýju og Bergi...og auðvitað handa öllum hinum.

Madonna að rappa:

Greta Garbo, and Monroe
Deitrich and DiMaggio
Marlon Brando, Jimmy Dean
On the cover of a magazine
Grace Kelly; Harlow, Jean
Picture of a beauty queen
Gene Kelly, Fred Astaire
Ginger Rogers, dance on air

They had style, they had grace
Rita Hayworth gave good face
Lauren, Katherine, Lana too
Bette Davis, we love you

Ladies with an attitude
Fellows that were in the mood
Don't just stand there, let's get to it
Strike a pose, there's nothing to it

Vogue, vogue



søndag, december 12, 2004

Í gærkveldi var ég í fertugsafmæli hjá Otra frænda mínum. Hann á afmæli í dag, hamingjuóskir til hans. Í afmælinu fékk ég að spreyta mig sem dinnermúsíkant. Í afmælið var boðið kraftaelitu landsins. Ég nefni nokkra fræga menn: Magnús Ver, Andrés Guðmundsson, Hjalti Úrsus og svo enginn annar en Samúle Örn íþróttafréttamaður. Þeir voru ekki einu kraftajötnarnir en tveir þeirra tóku sig til og áttu í hrókasamræðum nánast ofan á flyglinum sem ég átti í mestu erfiðleikum með að spila á þar sem allt lék á reiðiskjálfi þegar þeir hölluðu sér upp að honum, BÁÐIR! Ég verð að segja að ég upplifði sjálfa mig sem písl í þessu afmæli, í Mary-jakkanum mínum og nýju fallegu skónum mínum númer 37! Ég hafði sett rúllur í hárið á mér og var með fallega liði í ljósa hárinu mínu. Þetta var, verð ég að segja, vægast sagt mikil upplifun. Ég held ég hafi aldrei verið svona nálægt neinum þeirra. Ég hef alltaf haldið mig í þokkalegri fjarlægð á öllum samkomum kraftafólksins. Sumir í fjölskyldu minni sem hafa nú talist stórir og herðabreiðir hurfu inn í vöðvahaf þessarar samkomu. Þessir gaurar eru kannski ekkert allir svo stórir, Otri er hæstur af þeim, en samt eru þeir mjög stórir. Ég kæmist margföld inn í þessa ofsafengnu upphandlegsvöðva og ef í mig væri troðið öllu því sem þessir menn láta ofan í sig myndi ég pott þétt springa í orðsins fyllstu merkingu. Öllu má nú ofgera segi ég nú bara. Furðulegt hvað sumir geta fengið á heilann.................segi ég af öllum!



torsdag, december 09, 2004

Ósk mín skærasta, er að eignast kærasta....

Alveg óviðkomandi því sem er að gerast í dag en þessi lína er bara svo mikil snilld.

Í gær drógu foreldrarnir litlu börnin sín tvö, með sér á aðventukvöld Rotaryklúbbs Grafarvogs. Þar var þemamáltíð. Þemað var Thanks giving, meira að segja amerískar brownies og allt. Ingrid var bara með glósumiðana sína, sem er snilldar uppfinning, um þróun málvísinda og setningaliði.

Þar var staddur stórskáldið Einar Már Guðmundsson. Hann söng aríu fyrir viðstadda. Sem er algjör lygi. En hann las upp úr nýju bókinni sinni Bítlaávarpinu. Sú bók er greinilega algjör snilld. Allavegana eins og hann las upp úr henni. Hún virtist allavegana vera betri skáldskapur en vitlausa bókin sem ég er að lesa eftir Hallgrím Helgason. Höfundur Íslands. Hugmyndin á bak við þá bók er sniðug. Ég verð samt að segja að hann vinnur illa úr þeirri hugmynd. Afa fannst hún ekki góð, ég man ekki hvað hann hafði fyrir sér í því. Mér finnst hún svosem ágæt en samt soldið léleg. Hallgrímur hefur þar sem ég er stödd í sögunni (10. kafli) vitnað ógeðslega oft í Sjálfstætt Fólk, Laxness sjálfan og Heimsljós. Þetta er allt samt svo augljóst og ótrúlega bein tengt. Sem dæmi birtist nú allt í einu hjónin á Mýri, Geirlaug, mýrarfrúin, Jói á Mýri.....does it ring any bells?. Þetta er svo ótrúlega augljóst og svo ótrúlega sniðug hugmynd en svo ótrúlega asnalegt samt. Þó mér finnist þetta svona asnalegt hefði ég ekki getað sjálf unnið betur úr þessari hugmynd og gert hana áhugaverðari. Á hverri einustu blaðsíðu get ég fundið tilvitnanir í Laxness og hans sögur. Eina ánægjan sem ég hef af þessari sögu er hvað mér finnst ég sjálf rosalega gáfuð að fatta allt og geta tengt við Bjart og Sumarhús, og jafnvel Ólaf Ljósvíking.

Í kvöld fór ég svo á jólatónleika söngdeildar TSDK. Þar tókum við Sandra og Guggý netta Bach syrpu og gerðum lýðinn trylltan ásamt Jóhönnu söngkonu. Þar var einmitt annað skáld á ferð. Guðmundur Ólafsson, en hann tók aríu með glæsibrag fyrir tónleikagesti. Og það er ekki lygi. Hann hefur einmitt skrifað skemmtilegar bækur eins og Lísa og galdrakallinn í þarnæstugötu. Sem er algjör snilldar barnabók, og jú bók fyrir spilltar ungar stúlkur með of mikið málæði og of mikið hugmyndaflug.



mandag, december 06, 2004

Lifðu hratt......of hratt

Mikill pirringur og hálfgert vonleysi einkennir þennan dag. Sökum mikilla anna hef ég hugsað mikið um að blogga, en ekki látið af því verða. Fyrr en nú, þegar annir eru í hámarki og pirringur sem mestur. Ég sit í prófalestri og heilmikil tónleikavika framundan. Ein aðal ástæða þess að ég ætlaði að blogga var lítið atvik á laugardaginn var. Ekki svosem merkilegt atvik, eða augnabliks stund, en maður ætti nú að geta með smá sagnalist gert heilan stórviðburð úr ekki neinu.
Þannig var að eftir tæpra fjöugurra klukkustunda hljómfræðipróf og hálf vonlausa samspilsæfingu, var Ingrid orðin svolítið steikt í höfðinu. Hún ákvað að fara og kaupa sér grænmetispizzu á pizzastað sem hún hefur aldrei áður komið á eða keypt þar pizzu. Smá tilraunastarfsemi í gangi þar. Ingrid var fúl og pirruð og vildi bara fá pizzuna sína strax, fara heim og eta hana og leggjast svo undir sæng og sofa í marga klukkutíma. Úti var snjókoma, hálfgerð hundslappadrífa, leiðinlegt skyggni og bílastæðin þröng. Ingrid arkaði að verslunarkjarnanum þar sem pizzastaðurinn var. Þar kom hún að tvöföldum dyrum og maður einn var á leið út um þær aðrar með pizzu og kók í fanginu. Ingrid ræðst þá á hina hurðina en ekkert gerist. Þá togar hún þær til sín, en enn haggast ekki hurðin. Um leið segir maðurinn sem er á leið út hinum megin "Þú getur farið inn hérna". Ingrid er pirruð og getur ekki glaðst mikið yfir þessu leiðnlega atviki og segir bara mjög þurr á munninn "takk". En í þeim töluðu orðum kannast hún við rödd mannsins og uppgötvar að maðurinn er enginn annar en hin útjaskaði, fyrrum kyntröll og píkuskrækir Stefán Hilmarsson. Þetta atvik gat ekki annað en glatt litla hjarta Ingridar, sem á sínum tíma lifði fyrir að geta sungið og spilað lög Sálarinnar hans Jóns míns. Á þeim tíma fóru foreldrar hennar á eitthvað kosningadjamm þar sem móðir hennar réðst á Stefán Hilmarsson og bað hann vinsamlegast um að árita lítinn mina handa litlu dreymnu stúlkunni sinni heima í Ólafsvík sem spilar á saxafón og píanó og heldur að hún geti orðið söngkona. Stefán Hilmarz var hrfin og skrifaði á lítinn miða eftirfarandi : Elsku/Kæra (man ekki alveg) Ingrid. Lifðu hratt EN örugglega. Kveðja Stebbi Hilmars. Þessi miði kom upp í huga Ingridar þar sem Stebbi kallinn hafði nú alveg hitt naglann á höfuðið. Ingrid lifir hratt, of hratt. Hún vill að allt gerist í dag og getur ekki beðið eftir að útskrifast með allr háskólagráðurnar og verða forseti. Ingrid tók orðum Stebba svo bókstaflega að hún lifði það hratt að einn daginn réðst hún á hurð sem sat föst fyrir framan hann. Af því að hún gengur svo hratt og hreyfir sig svo hratt. Já, ef hann bara vissi.........

....en aftur að málfræðinni.