Þegar ég var lítil fannst mér skemmtilegast að leika mér. Það sem mér þótti skemmtilegast var að setja upp veitingahús í kofanum, búa til smá fjölskyldudrama í höfðinu um fólkið sem bjó í kofanum mínum. Mér fannst líka afskaplega skemmtilegt að setja upp leikrit og söngleiki og gerði það mjög oft með Barbie dúkkunum mínum. Ég og Jenný lékum okkur í morð-Barbie og spunnum afskaplega dramafulla sögu í kringum það þegar geðbiluð stúlka myrti bróður sinn(Barbie kallinn var með lausan haus og þetta var besta lausnin til að þurfa ekki að nota hann í leiknum). En það sem ég vildi sagt hafa var það að ég var sem sagt svona stúlka sem hljóp út í haga á sumrin og söng yfir fegurð heimsins, gerði snjóengla í snjónum á veturna og orti ljóð um stjörnurnar og fannst virkilega merkilegt að bak við kofann minn var bara girðing og skurður en ekki annar heimur (en hann var reyndar til í höfðinu á mér). Áðan var ég að lesa bloggsíðuna hennar Ástu. Ásta var svona barn sem velti fyrir sér ástæðu þess að heimurinn er eins og hann er og setti fram kenningar um ástæður hlutanna í kannski svona ljóðrænu samhengi. Það segir kannski meira en mörg orð að í dag er Ásta að læra stærðfræði, ég get ekki lært stærðfræði. Þetta finnst mér soldið fyndin staðreynd. Enda var ég bara glöð yfir því að heimurinn skildi vera en eyddi kannski ekki of miklum tíma í að velta fyrir mér af hverju hann væri.
Þrátt fyrir þennan ólíka barndóm þá eigum við Ásta eitt mjög mikilvægt atriði sameiginlegt. Það er blessaði nördisminn. Ástu finnst fyndið að gera ýmislegt sem mér finnst fyndið að gera en engum öðrum finnst fyndið. Sem dæmi þá heyrðust margar efasemdaraddir þegar nemendur í TSDK tóku upp á því að syngja Mario Bros Theme a capella í árshátíð, en við Ásta trúðum á þetta og sannfærðum aðra með okkur. Nýjasta dæmið hennar Ástu finnst mér alveg frábært og það má lesa á bloggsíðunni hennar. Þetta er sko uppátæki að mínu skapi. Ég ætla að biðja fólk um að bera virðingu fyrir nördismanum og bið frænkur mínar sérstaklega að taka þetta til sín. Við höfum nokkur uppátæki í pokahorninu sem mér finnst við ættum að framkvæma. Er það ekki Hófí??!!!