The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

lørdag, april 30, 2005

Æskuminning

Búðardalur er búinn að skjóta upp kollinum oft í þessari viku og minningar frá Búðardal. Það byrjaði allt með því að ég keyrði niðrá Essó um daginn og beið meðan Eggi Beggi fór að kaupa kók og nammi. Þar sá ég Jón Egil inni í sjoppunni. Einhverra hluta vegna flæktist þá Jón Egill greyið inn í drauma mína í vikunni sem lítill feitur strákur sem gat ekki sagt stærðfræði. Svo fór ég að skoða bloggsíðu hjá einhverjum strák sem kom svo í ljós að bjó víst einu sinni í Búðardal. Hann var að tala um leiki í mjólkurstöðinni...sælar, en þó soldið sárar minningar. Það var bara sama hvernig maður stóð í dimmalimm alltaf skyldi maður fara aftast! Svo var náttúrulega toppurinn að leika sér í mjög furðulegu listaverki sem jafnvel enginn veit hvað átti að tákna fyrir utan mjólkurstöðina og eini tilgangur þess var að vaggast í læðingnum í Hvammsfirðinum. Í kjölfarið minntist ég margs úr Búðardal. Svo var það í dag að ég leit upp úr hundleiðinlegri bók sem heitir Íslensk orðhlutafræði og fór með mömmu í Krónuna. Þar mættum við konu úr Búðardal. Mömmu bekkjarbróður míns úr sem sagt 1.-4. bekk. Svo núna sit ég hérna við skrifborðið mitt, horfi út um gluggann á sólina og vorið (það er reyndar eitthvað að brenna upp á Kjalarnesi) og vildi svo ótrúlega heitt óska að ég væri bara lítil stúlka, annaðhvort í Búðardal eða Ólafsvík á leiðinni út í löggu og bófa eða Eina krónu. En ætli sé ekki skemmtilegra þó að vera orðin semi-fullorðin manneskja í háskóla, svona þegar á heildina er litið......en samt!!! Ég vil ekki vera að lesa inni í vorinu!!!!



Gæti verið að mig sé að dreyma......

Steik.....steik...steik......regla sem bætir við endingu 1.p. ft., -m, sem einnig er notuð í vh. nt og fh.nt. og þt.; #horf-ði-i-u#-- "horf-ði-i-u-m#......já, það má segja að ég sé steikt í dag. Ég get engan vegin einbeitt mér við þessa blessuðu beygingarfræði og er alveg sammála einum samkennara mínum í Tónharp að það er miklu skemmtilegra að vera bara alltaf að æfa sig heldur en að lesa einhverja svona steypu. Það er líka mjög auðvelt að fara bara að dagdreyma hérna við skrifborðið mitt fagra. Samt er ég komin með smá leið á því.
Í gærkveldi fór ég að skoða íbúð í húsi þar sem Páll Óskar býr. Það gæti endað svo að frændfólk mitt flytji þar inn og ef svo fer var ákveðið í gær að einn daginn myndum við frænkurnar stilla okkur upp fyrir framan dyrnar hans Palla og syngja fyrir hann Sjáumst aftur. Það væri náttúrulega bara snilld.
Nú er mér orðið illt í augunum, höfðinu, öxlunum og heilanum. Ætla að fara í sturtu áður en ég verð vitstola. Vonandi vakna ég bara bráðum frá þessari beygingarfræði, hún var bara draumur og ég þarf ekki að taka próf í henni.

.......hvað ef þú ert bara tálsýn ein?



torsdag, april 28, 2005

Kim Larsen og Kjukken á klakanum!!!

Já litlu börnin mín. Kim Larsen og hljómsveitin með gítarleikaranum í köflóttu buxunum eru bara að koma til Íslands og halda tónleika. Ég get ekki hugsað mér annað en að kaupa mér miða enda hérna einstakt tækifæri á ferð. Ég er ekkert sérlega dugleg að fara á tónleika í DK þegar ég er þar. (að Roskilde undanskliinni) Kim Larsen á einstaklega mikið af góðum lögum og ég get alveg mælt með prógramminu hans og Kjukken. Þeir taka gömlu góðu lögin sem hann gerði fræg með Bellami og ef ekki bara líka Gasolin lögin, eins og This is my life, Lille Henry, Langebro og Ræbelderstræde (held það sé skrifað svona). Svo hefur Larsen gert algjörlega ódauðlegt lagið Det var en lördag aften, sem var víst uppáhaldslag langömmu minnar. Reyndar mæli ég með útgáfu Nordic Heart á þessu lagi en ég veit samt ekki til þess að það hafi verið gefið út, en hef heyrt það á tónleikum, algjör snilld!!
Svo er náttúrulega mjög þekkt lagið Midt om Natten. Ég veit ekki hvort þeir séu með það í prógramminu sínu, en það breytist eflaust stöðugt. En fyrir áhugasama var hljómsveit að nafni The Loft, sem tók algjörlega grunn lagsins Midt om Natten og gerði nýtt lag sem heitir City of Dreams og hefur verið spilað á skemmtistöðum í Danmörku núna í bráðum ár.
Svo er bara fullt af fleiri góðum lögum sem má nefna með Kim Larsen, svo sem Joanna, Susan Himmelblaa, Papirsklip, Jutlandia, Sammen og hver faar sig og Sölsvtænk. En þau tvö síðastnefndu eru að ég held bara gömul klassísk þjóðlög frá DK en hafa algjörlega verið gerð ódauðleg í útgáfu Kim Larsens. Einnig mæli ég með lengdri útgáfu (tónleikaupptöku) af Ræbelderstræde (??) með fimm mínúndna löngu trommusólói. Þar er algjör snilld á ferð.

...sådan kan det går når man ikke passer på!!



onsdag, april 27, 2005

Jæja litlu sætu englabossarnir mínir....

Er ekki bara allt gott að frétta af ykkur. Af mér er allt fínt að frétta. Kláraði blessað prófið í morgun og í fyrramálið tekur við próflestur fyrir beygingarfræði og hljómfræði en þau próf eru í næstu viku. Þar á eftir tekur setningarfræðin við og þegar ég hef lokið því prófi vonast ég til að komast út í Langey. Svo er ég komin með vinnu og byrja þar 17. maí. Þannig að ég mun eiga helling af pening þegar ég fer til DK af því að ég fæ heilan mánuð útborgaðan 1. júlí. Fögnum því.
Svo fór ég í Kringluna eftir prófið og tók þar nettan skótrans. Mátaði helling af skóm en keypti enga. Keypti mér samt eyrnalokka. Get ekki verið með samviskubit yfir þeim því þeir voru ódýrari en bíóferðin um helgina.

Munið svo bara að..." ...so if you don't wanna cry like I do, keep away from runaround Sue..wowowo oooooo " !!



mandag, april 25, 2005

Rock with Bach

Ég og Bach erum kunningjar. Ekkert meira en það. En á miðvikudaginn ætlum við að vera BESTUSTU vinir í ca. 3 mínútur.
Í gær fór ég í lúxus bíó. Sá ótrúlega dull, en samt fína mynd eftir Woody Allen. Ég er engin fan, en þetta var fínt. Ég hefði satt best að segja frekar viljað sjá Beyond the Sea. En það vill eflaust enginn koma með mér því ég byrja pottþétt að syngja með og sá sem kæmi með mér myndi deyja úr skömm. En, anyways. Í myndinni Melinda & Melinda, var kona. Hún var tónlistarmanneskja. Hún var stödd í partýi. Þar var maður. Hann var að spila á píanó. Hann var að spila Bach, mjög líklega Fúgu ( ekki það, það kom hvergi fram að þetta hafi verið Bach eða Fúga, en maður bara er farinn að þekkja Bach). Einhver kemur og hvetur konuna til að taka við laginu og spila Fúguna. Konan fer eitthvað að drepa tittlinga...fæturnir á henni sáust ekkert en...allavegana, segist ekki muna þetta. En sest samt því þráin til að spila er svo sterk. (látið mig þekkja þetta) Sest ekki bara gellan og spilar Fúguna bara eins og hún hafi aldrei gert annað!!!
Ég get alveg sagt ykkur litlu krílin mín að ég mun aldrei getað bara spilað eitt stykki Fúgu svona upp úr þurru, sem ég spilaði síðast fyrir svona tíu árum. Hvað þá fyrir framan fullt af fólki og bara búmm!!! Bíómyndir eru óraunsæjar. Þess vegna eru þær svo skemmtilegar!
Nú ætla ég að fara að rokka með Bach.....eða kannski bara swinga með Ellu.

Það nýjasta nýja, er reyndar að swinga Sálina. Ágæt tilraun.



onsdag, april 20, 2005

Flottustu mæðgur Íslands......

Fyrirsögnin í nýjasta Séð og Heyrt. Ég skil ekki hvaða rugl þetta er, allir vita að ég,mamma og Hibba erum flottustu mæðgur Íslands!!!

Mér finnst síðasti pistill svo asnalegur að ég ætla að skrifa aftur í dag. Ég er að bíða eftir að þjóta af stað í hljómfræði og ætla að velta hér upp spurningu sem mér datt í hug um daginn eftir umræður í Tónharp (vinnunni) um það að Lóa litla á Brú lifir endalaust sem danstónlist. Skólastjórinn (pabbi) og þverflautukennarinn ræddur um hinar klassísku tegundir danstónlistar sem lifa endalaust og töluðu með sínum reynsluþungu röddum til okkar litlu ungu tónlistarkennaranna (allir ungu tónlistarkennararnir þarna eru nett kúl og frábærir, sérstaklega ég!!) og reyndu að miðla til okkar sinni reynslu. Þá fór ég nú samt að hugsa. Hvaða tónlist verður spiluð á ellismella dansleikjum eftir 50 ár? Munum við vilja dansa gömlu dansana eða dansa við harmonikkutónlist. Hvar verður Madonna, Micheal Jackson, Usher, 50 Cent, Justin???!!!..já eða Britney!!!! Já eða þá bara, hvaða tónlist verður spiluð þegar mamma og pabbi fara á ellismella dansleiki. Ég sé mömmu fyrir mér neita að dansa nema að einhver nái í CCR. En verðum við ekki erfiðara gamalt fólk? Hvað haldið þið?



tirsdag, april 19, 2005

Swiss Mokka....fyrir fólk með þokka

Ég las á bloggsíðu hjá einhverjum sem ég þekki alls ekki neitt, um daginn, að það getur verið erfitt að vera mjór. Það getur verið jafn niðrandi að heyra "djöfull ertu mjó" eins og "þú ert nú allt of feit". Fyrir þá sem ekki geta gert neitt í því hvað þeir eru grannir er þetta bara ekkert skemmtilegt. Þessu er ég alveg innilega sammála. Svona fólk eins og ég sem virðist bara fara minnkandi með hverjum deginum. (Allavegana virðist eins og ég hafi verið spikfeit sumarið 2003 ef ég miða við buxur sem ég keypti þá sem ég mátaði um daginn..úff!) Það getur oft verið erfitt að vera í lítilli stærð. Sem betur fer fara stærðir minnkandi í tískuheiminum, sem betur fer fyrir mig. Fyrir þá sem vilja reyna að gera sér í hugarlund hversu létt og lítil ég er þá á ég lítinn frænda sem er 9 ára og hann er þyngri en ég. (hann er reyndar í ágætum holdum)
Mamma hefur lengi haft áhyggjur af ástandinu. Hún heldur að ég sé með átröskun eða eitthvað því um líkt. Þeir sem þekkja mig vita þó að svo er ekki og mamma veit það alveg líka, hún var nú líka svona hryllileg mjó þegar hún var ung.
En nú er mamma búin að finna aðferð til að fita litlu Ingridi. Nú sér hún til þess að alltaf sé til ís í frystinum svo litla Ingrid geti fengið sér Sviss Mokka hvenær sem hún vill. Ingrid stenst náttúrulega ekki mátið þegar til er a)súkkulaði, b) kaffi og c) ís!! Bráðum verð ég alvarlega háð þessum drykk, og þá meina ég með ísnum. Þarna sá mamma sér leik á borði og hefst nú barátta hennar enn á ný til að fita mig.
Ætlunarverk hennar mun án efa takast þar sem nú tekur við mikil seta við skrifborðið í prófalestri og þar sem það var einmitt ísinn góði sem fékk fjölskyldu Ingridar til að anda léttar sumarið 2003. (þegar Ingrid mætti búlduleit til Íslands)

Þannig að nú varpa ég spurningu til ykkar lesendur góðir. Hver hefur betur, stífluhringurinn (ætla að vera rosa dugleg að fara hringinn í vor og sumar) eða mamman? Og, hvað haldiði að Ingrid verði þung í haust?



fredag, april 15, 2005

Swiss Mokka á la Arnarfjörður

Ég og Eggi Tobbi erum nýbúin að uppfylla allar okkar lífsþarfir dagsins í dag, með því að drekka heilan helling af Swiss Mokka á la Arnarfjörður! Það skal tekið fram að Eggert fékk sér Koffínlaust Swiss Mokka á la Arnarfjörður. Þessi drykkur er sko ekkert venjulegur. Í honum má finna ekta súkkulaði, súkkulaði og möndlukaffi og ís úr vél. Hluttföllin eru einhvernvegin svona:
súkkulaði brætt í mjólk 7
gott kaffi
ís úr vél

(ráðlagðir skammtar 70% súkkulaði á móti 30% kaffi og endalust af ís úr vél.)

Annars var ég að heyra mest stjúpid hugmynd á ævi minni (eða það finnst mér svona við fyrstu heyrn) að kaupa hús í Hólminum!!! Hvenær fáum við þá íbúðina í Köben?? Ég bara spyr.

...hehehe, smá grín.
Haldið áfram að tjútta um helgina....og munið....að við höldum áfram hraða nú, hikum aldrei ééééég og þúúúú..!!!



torsdag, april 14, 2005

Halló litlu dásamlegu stuðboltarnir mínir!!

Síðastliðin vika er bara búin að vera ...bara fín. Ég er allavega aðal gellan í bænum um þessar mundir í nýja undurfagra jakkanum mínum sem ég fékk í afmælisgjöf frá Bex og Jensínu. Til að toppa það fékk ég ótrúlega gott krullujárn frá Elísabetu Jónínu frænku minni og fjölskyldu hennar Nonna og Sunna Maríusi. Þannig að Ingrid státar nú af fegurstu lokkum bæjarins. Svo ekki sé minnst á fallega skrifborðið með SKÚFFUNUM! sem Ingrid fékk frá mor og far.
Það sem mér finnst leiðinlegast við þessa viku er f**king beygingarfræðin. Ég skil ekki boffs í henni og prófið er eftir þrjár vikur. Nú er kennslu lokið og ég bíð ennþá spennt eftir að byrja að læra beygingar- og orðmyndunarfræði. Það væri voðalega leiðinlegt að falla í þessum fáu einingum sem ég hef verið í á þessari önn. En ef svo fer er bara að snúa sér að tónlistinni og fara kannski að syngja meira, spila meira á saxinn og auðvitað verða bæjarins klárasti píanóleikari.....(in your dreams Ingrid!!). Ég gæti allavegana titlað mig sem ráðvilltu tónlistarkonuna sem fílar allt. Gjörsamlega allt!!

En fyrir áhugsama ætla ég að halda smá tónleika held ég í næstu viku ásamt henni Gunnþóru en á efnisskránni er prófyfirferð sem inniheldur m.a. lög eftir Schubert, Bach, Tchaikovsky, Martinu, Heller og Bubba Morthens. Seinna í vor verða svo fyrstu tónleikar sönghópsins Dömubandið. Algjör leynd hvílir yfir efnisskránni og verður hún ekki kunngjörð fyrr en rétt fyrir tónleikana. Látið ykkur hlakka til!



torsdag, april 07, 2005

Ég á afmæli í dag júhúúúúú!!!

Í dag á ég afmæli. Jeij! Ég fékk rosa flottar afmælisgjafir í morgun og dýrindis morgunverð. Langaði bara til að skrifa hér það sem stóð inn í kortinu hans Eggerts:

Congratz með ammlið yo!
nú er hún 21 árs gömul.
Nei ahahahaha plataði þig
þú ert 21 árs GÖMUL!
ertu ekki örugglega orðin 21 árs
eða er ég bara að reyna að
fylla í eyðurnar á þessu stóra
korti og á eftir því kemur
lifðu í krukku en ekki í lukku o.s.fr.
Congratz með ammlið aftur homie!
frá: Bubu Thorberg, 2 Pet, Eastside, bling bling, dude.

Svo fékk ég líka geisladisk með lögum frá Söngkeppninni í MH 2003. Hibba hafði mikið fyrir því að nálgast þessar upptökur og þar á meðal var ég. Soldið erfitt að hlusta á það þegar fölsku nóturnar koma en annars mjög gaman. Byrjunin á laginu mínu er sérstaklega flott þar sem Siggi litli spilaði svo undurfallega á gítarinn. Algjör snilld. (enda bjó Siggi í Búðardal, engin furða).

Bergrún frænka átti afmæli í gær og bróðir Bergs hann Þórður á líka afmæli í dag. Hamingjuóskir til þeirra!



tirsdag, april 05, 2005

Draumfarir mínar

Einvherntíman á milli 0:15 og 07:30 í nótt var ég stödd í mikilli fegurð. Þetta var afmælisvikudraumurinn. Hann var yndislegur og ég ætla rétt að vona að hann gangi eftir. Í draumnum voru græn engi og tún, skógar og mikil hamingja. Ég sat uppi í tré og hamingjan og ástin umvafði mig. Draumurinn var mjög myndrænn og tilfinningin var svo góð að mig langaði sko ekki til að fara á fætur í morgun. Svo einhversstaðar milli svefns og vöku voru komnar of margar mýs og hamstrar (ábyggilega af því að ég vissi að draumurinn væri búinn og ég vildi ekki dreyma neitt annað, þá koma svona hlutir sem ég veit að mig langar ekki til að dreyma) svo ég stökk fram úr og í sturtu. Ég vona að öll þessi hamingja gangi eftir. Um daginn dreymdi mig að ég fengi ekki vinnu á Árbæjarsafni. Sá draumur gekk eftir og ég var mjög sorrí yfir þessu öllu saman. Í þeim sama draumi voru fleiri svona svekkjandi fréttir og ég ætla að vona að þær gangi ekki eftir. Ekki það, það væri mjög týpískt.
Í gær fór ég á masterclass sem var bara fínt. Ég var að fara yfir um af stressi en píanóleikarinn Philip Jenkins var bara hinn viðkunnanlegasti og sagði mig spila "very expressive". Allir hinir sem spiluðu stóðu sig líka mjög vel og ég held að allir hafi haft gagn og gaman af þessu. Svo í morgun þegar ég var að æfa mig fór ég aðeins fram til að fá mér vatn. Mætir þá ekki bara sjálfur píanóleikarinn klári. "Hello, how are you?". Þá hafði hann verið að æfa sig inni á sal, enda hafði ég heyrt voða læti þar inni og hann virtist bara vera vel þreyttur eftir þessi átök. Það tók mig samt smá tíma að ákveða hverju ég ætlaði að svara því Englendingar geta greinilega verið alveg yfirmáta kurteisir. Ekki það, mér finnst kurteisi alveg mjög fínn siður. Nú ætla ég að reyna að finna einhvert nýtt kurteisishjal, eins og að fara bara eftir boðum ömmu Fríðu og segja, Komdu sæl en ekki hæ.

Langamma mín Júlíana Silfá fæddist á þessum degi árið 1896. Hún lifði frekar lengi og var falltaf jafn ákveðin. Enda hrútur!