Þessi ógnvænlega og ótrúlega spennandi frásaga hefst á augnlæknastofu á ónefndum stað í Reykjavík.
Ingrid Örk situr og bíður þess að kallað sé á hana inn til augnlæknisins.
-Ingrííid!?, heyrist skyndilega kallað. Ingrid stendur upp og gengur í átt til augnlæknisins og heilsar honum.
-Það eru nú ár og öld síðan við hittumst, segir hinn viðkunnanlegasti augnlæknir.
-Já, svarar Ingrid.
Hefst þá skoðunin. Augnlæknirinn skoðaði í augun í Ingridi og sagði henni frá öllu því sem hefði hrjáð augun í henni í gegnum tíðina og þó ekki, því öllu var bjargað þegar hún var lítil og hún hefur aldrei þurft að nota gleraugu, þangað til núna.
Þegar augnlæknirinn hafði lokið skoðuninni tók hann við að skrifa gleraugnarecept handa henni.
-Ertu búin að ákveða hvar þú ætlar að kaupa gleraugu, spyr hinn bráðskemmtilegi augnlæknir sem hafði sagt marga skemmtilega brandara á meðan á skoðuninni stóð.
-Nei, svarar Ingrid, en mamma lét mig nú samt hafa eitthvað afsláttarkort sem henni áskotnaðist einhversstaðar í ákveðna gleraugnaverslun hérna í bænum.
-Já, einmitt, segir augnlæknirinn. Já, Svaaaan...uuu, Svaaaanhiiiii..nei?
-Svanhvít, segir þá Ingrid, mamma mín.
-Já, einmitt, segir þá augnlæknirinn.
Ingrid hugsaði þá, já vá, roslega man hann vel eftir mér, samt er rosalega langt síðan ég kom hingað síðast. Ég hlýt að hafa verið svo sérstakt keis.
Líður þá smá stund áður en augnlæknirinn tekur til máls.
-Hérna, ég ætti nú kannski ekki að segja það en hérna, þegar ég var að læra þá fór ég á námskeið, krufninganámskeið í Englandi og hérna þá keypti ég mér beinagrind.
-Já, alvöru beinagrind? spyr Ingrid.
-Jájá, alvöru, En hún hérna var alltaf svo rosalega hvít. Hún var alveg snjóhvít og ég hérna....kallaði hana alltaf Svanhvíti. Þess vegna man ég alltaf hvað mamma þín heitir.
Ingrid kafnaði ekki úr hlátri fyrr en hún kom heim, fannst soldið dónalegt að engjast um á gólfinu fyrir framan augnlækninn. Svanhvít móðir hennar, var fegin að hafa ekki verið á staðnum, því hún hefði fengið algjöran krampa úr hlátri.
En svona getur þetta verið. Maður veit aldrei hvað annað fólk hugsar um mann hvort sem það er af illu eða góðu, eða bara einhverjur fyndnum og af algjörri tilviljun.
En dúllurnar mínar, nú verðið þið miklu fallegri næst þegar ég sé ykkur. Ég hlakka til englabossarnir mínir!!