The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

fredag, september 30, 2005

Heimskonan Amma

Amma er reyndar ekki nafn á konu. En það er heiti yfir ákveðna konu í mínu lífi. Hana ömmu. Amma mín skellti sér fyrir rúmlega sólarhring til útlanda. Hún skellti sér gamla konan bara í Evrópu reisu. Ekki nóg með það að hún sé alltaf að þvælast til Danmerkur (sem er nú kannski ekkert skrýtið þar sem hún er dönsk) heldur ákvað hún bara að fara ein (ekki alveg ein kannski, en með öðru fólki frá Bíldudal og svona, en án okkar sko) til austur-Evrópu. Þetta finnst kannski mörgum ekkert mjög merkilegt. En ef þið þekktuð hana ömmu mína, þætti ykkur hin mesta skemmtun að lesa það sem ég ætla nú að segja ykkur.
Hún amma mín festist í lyftu í gær. Ég hef nú fengið mjög óskýrar fréttir af þessu. En hún Jóna, frænka okkar á Bíldudal var þá stödd með henni í lyftunni og annað fólk sem með er í för. Það sem er nú það allra skemmtilegasta við þetta allt saman er að fyrr í kvöld fékk ég þær fréttir að hún hafi fest sig í lyftu. "Já, já, ég frétti það í gær" Nei! sko í dag! Aftur! Ég var nú ekkert nema eitt spurningamerki. Það er ein af mínum verstu martröðum að festast í lyftu, þess vegna skil ég ekkert í sjálfri mér að um leið og ég heyrði þetta þá fór ég að skellihlæja, áður en ég vissi hvort það væri allt í lagi með hana grey ömmu mína. Það sem er enn skemmtilegra er að meðan amma skellihló inni í fastri lyftunni, þá æpti Jóna frænka eins og hún ætti lífið að leysa. Þetta finnst mér bráðfyndið. Og eiginlega enn fyndnara að amma skildi bara hlæja á meðan hún væri í lífshættu í Sviss. En þá skulum við nú láta staðar numið af henni nöfnu minni, sem ég er strax farin að sakna og hlakka til að fá hana heim og heyra ferðasögurnar. ......vantar líka svo ógurlega mikið að láta hana stytta gallabuxurnar mínar.



mandag, september 26, 2005

Krókódíllinn

Jæja, tölvan að komast í gagnið á ný, þökk sé rándýru tölvuumboði og hjálpsemi Tryggva. Tónlistin að komast aftur í gagnið en allt er bara horfið. Súrt. En maður verður að lita á björtu hliðarnar. Þess vegna ætla ég að birta hér þennan snilldar texta. Ef þið getið orðið ykkur úti um lagið, mæli ég eindregið með því.

Ég þekki kátan krókódíl
sem keyrir stóran rútubíl
hann ekur út um bæinn
hann er nú meiri gæinn
hann skoppar um og skransar
og skottísinn hann dansar
svo gengur hann í jakka já
og skóm og síðum frakka.

Ég þekki kátan krókódíl
sá krókódíll er giftur fíl
þau leigja lítið raðhús
og lítið gufubaðhús í
rókókókóstíl.

Ég þekki kátan krókódíl
sem kom alla leið frá Níl
hann segist hetia Haffi
og helir uppá kaffi
og ef hann burstar tennur
þá æði á hann rennur
því öll sú heljar glíma
tekur einn og hálfan tíma.

Ég þekki kátan krókódíl
sem kærir sig ei neitt um víl
hann hlær að góðu gríni
með gríðarstóru trýni
og hlustar allra hels á Bógómil.

Ég þekki kátan krókódíl
sem keyrir stóran rútubíl
hann ekur út um bæinn
hanne r nú meiri gæinn
hann skoppar um og skransar
og skottísinn hann dansar
svo gengur hann í jakka já
og skóm og síðum frakka.

Ég þekki kátan krókódíl
sá krókódíll er giftur fíl
þau leigja lítð raðhús
og lítið gufubaðhús
í rókókókókrókódílsastíl!!!!



søndag, september 25, 2005

Jazzhátíð

Ég auglýsi hér með eftir skemmtilegum og tónelskum einstaklingi/ einstaklingum sem nenna með mér á einhverja tónleika á jazzhátíð. Áhugasamir hafi samband við mig......annars er náttúrlega alltaf hægt að skella sér einn á tónleika. En það er ekkert stuð. Heldur ekkert stuð að eiga fjölskyldu sem fílar ekki jazz og bíður þess að Led Zeppelin komi aftur saman.
Einnig auglýsi ég eftir snillingum í hljóðvörpum og hljóðskiptaröðum, sem myndu nenna að gera fyrir mig heimaverkefni.

Jazz on! ........(?)



lørdag, september 24, 2005

Að meikaða!!

Jæja. Loksins er ég að meikaða. Ekki sem súpermódel eða unglingastjarna í Hollywood, heldur þýsk fótleggja stjarna! Ég er alveg viss um að þýskir sjónvarpsáhorfendur furða sig yfir þessum fallegu fótleggjum í myndinni "Lífið væri ljúft", í atriði þar sem mæðgurnar fljúga aftur til Þýskalands. Ætli það sé íslensk flugfreyja sem á þessa fallegu fótleggi, þetta fallega hár, svo ekki sé minnst á þennan fallega rass? Nei, það er nú bara lítil stúlka í Reykjavík.

Loksins er ég að meikaða, og Jenný og Salbjörg líka. Jenný sýnir afburða tilþrif sem lesandi flugfarþegi í Icelandair vél. Salbjörg hefur aldrei verið betri en akkúrat núna í flugfreyjugallanum. Til hamingju fólk! Þetta er frábært. Við erum frábærar stúlkur!



tirsdag, september 20, 2005

Það er eitthvað rotið í Árnagarði

Ég held það bara. Samt ekki hérna á þriðju hæðinni því það er einmitt mesta hreinlætisfrík sem ég þekki sem sér um þrifin hérna í kringum tölvuverið.
Annars held ég að flestir sem hér sitja, daginn út og inn, séu að rotna. Rotna úr leiðindum.
Sem dæmi þá sit ég hérna með hljóðfræðiverkefni fyrir framan mig og nenni engan vegin að gera það. Röddun: hvernig myndast hljóð. Líður eins og í líffræðitíma...merktu heiti talfæranna inn á myndina. Rotið!
Kannski er það líka ennþá leiðinlegra þar sem ég gat ekki drullast til að taka iPodinn minn með mér í dag og í staðinn suðar Invention nr. 9 eftir Bach, inn í höfðinu á mér. Það væri auðvitað skemmtilegra að geta bara gert þetta heima þegar ég er í stuði...bara þegar ég vil og verið með alla tónlistina mína í bakgrunni.........en nei! Það er víst ekki hægt eftir geðsýkiskast mitt um daginn þegar ég reyndi að drepa tölvuna mína. En hún er nú víst að fara í hjarta ígræðslu þ.e.a.s. harðadisksígræðslu. Líffæragjafinn er erlent tölvufyrirtæki. Svona björgunaraðgerðir kosta nú dálítinn aur sem gerir það að verkum að ég er enn fátækari en ella. Soldið fyndið. Þegar ég ætla að hefja miklar sparnaðaraðgerðir geri ég tilraun til tölvudráps sem mun auðvitað kosta mig meira en ég á akkúrat núna. En þá er ekkert annað að gera en að tala við lánadrottna sem búa hér í bæ (Fiskakvísl) og vona að þeir þurfi ekki veð í neinu. (gæti kannski veðsett gullskóna mína). Við skulum bara segja að ef ég drægi sveitastyrkinn núna fengi ég hann með því sama.

....þið fáið engar tvöþúsund krónur þó þið farið yfir byrjunarreit!



søndag, september 18, 2005

Klukk!!

Ég hef verið klukkuð af henni Ástu. Mér skilst að þegar maður er klukkaður á maður að segja fimm hluti um sjálfan sig.

1. Ég heiti Ingrid Örk Kjartansdóttir og er 21 árs falleg og furðuleg fruntaleg frekja.

2. Ég er nemi í íslensku við Háskóla Íslands. Þó aðallega bara til að geta sagt að ég sé háskólanemi. Því aðallega lít ég á mig sem tónlistarnema í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og hef nú nýlega fengið inngöngu í FÍH á jazzbraut.

3. Ég er stúdent frá MH en umgengst bara MR-inga og er farin að þekkja margar MR sögur mjög vel. Ég mun samt alltaf líta á mig sem MH-ing út í gegn enda tónlistarfrík og hef gaman af að klæða mig í litrík föt og syngja Gleði, gleði, gleði.....

4. Þegar ég var lítil var ég rangeygð, ég var hvíthærð og hárið var alltaf í flækju í hnakkanum og mér fannst, að mér skilst, mjög leiðinlegt að vera í buxum. Þá bjó ég í Búðardal og lék mér þar í sandkassa fyrir utan húsið, föst í ól svo ég kæmist ekki neitt (þið vitið, svona eins og hundur).

5. Ég þekki kátan krókódíl, sem keyrir stóran rútubíl. Hann þeysist út um bæinn, hann er nú meiri gæinn, hann segist heita Haffi og hellir upp á kaffi........o.s.fr. Ég þekki kátan krókódíl, sá krókódíll er giftur fíl. Þau leigja lítið raðhús og líka gufubaðhús (...) í rókókókókrókódílastíl!

Nú ætla ég að klukka Viðar, Berg, Auði, Helgu og Óla (hann virðist blogga oftar en Jenný) Veit ekki hversu marga ég á að klukka, en látum þetta duga.



lørdag, september 10, 2005

Kæru landar!

Mér er það mikill harmur að þurfa að tilkynna ykkur þá leiðu staðreynd, að minn góði vinur, tryggasti samstarfsmaður en jafnframt einn góður fjölskyldumeðlimur, tölvan mín, liggur nú þungt haldin á bráðamóttöku Apple á Íslandi.
Sit ég nú við tölvu systur minnar sem gaf sitt góðfúslega leyfi til að leysa mína ástkæru tölvu af hólmi í dag.
Því bið ég alla, konur sem kalla, að sýna tölvu minni, og sjálfri mér þolinmæði í baráttu okkar við góðri heilsu og endurhæfingu tölvu minnar.
Af þessum sökum mun ég ekki gleðja les þyrsta aðdáendur þessarar síðu með undurfallegum textum, næstu vikuna.

Takk fyrir stuðninginn, hugulsemi ykkar og þolinmæði.

Gangið á Guðs vegum.



torsdag, september 01, 2005

Say it's OK...

Allt að fara af stað. Vinnan loksins búin. Ágúst náði að klárast áður en ég rotnaði algjörlega inni í Árbænum...var farin að óttast um flagnandi húð handa minna.
Skólasetning FÍH í dag. Ekkert nema gott um það að segja. Þetta verður skemmtilegur vetur.
Er búin að fá tilkynningu um námsefni fyrir hljóðfræði og hljóðkerfisfræði á Uglunni. Veturinn verður leiðinlegur. (enn sannfærðari um það að tónlistin sé bara málið)
Byrjuð að hringja í nemendur og allt í góðu þar.
Fer á morgun niðrá Engjateig til að fá stundatöfluna nokkurn vegin alveg á hreint. Þetta verður frábær vetur.

Franz Ferdinand á morgun og frábært sumarlokadjamm á laugardaginn. Skemmtileg helgi framundan.

Mæli annars með síðunni lolamusic.dk. Hljómsveitin Lola er einmitt að spila í kvöld á einhverri Live-hljómsveita keppni í Danmörku. Frábær hljómsveit þar á ferð sem mun ná heimsfrægð!
...takið sérstaklega eftir undurfallegum bassaleik bassaleikarans..sem er nú sjálfur ekkert af verri endanum. (Sunnu og Heiðbjörtu fannst hann eins og bangsi).

Gleðilegt haust!