The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

fredag, oktober 28, 2005

Brrrrrrrrrrrr.........

Enn hvað það er kalt úti. En ég býst nú við því að þið vissuð það. Já, þannig er nú það.

Á morgun á mín elskulega systir, Heiðbjört afmæli (ekki systir númer tvö, það er Sunna en það er langt þangað til hún á afmæli). Ég er búin að pakka inn gjöfinni og alveg ótrúelga spennt að sjá hana opna pakkann. Því ég þekki hana svo vel og veit hún verður svo rosalega ánægð! Og þá verð ég svo rosalega ánægð með sjálfan mig að vera svona góð manneskja. Já, svona er maður nú sjálfhverfur og eigingjarn. Annars er ég mjög spennt að fara í kökuboð til hennar. Ætla að gera mig ofsalega fína og vera í gullskónum mínum. Svo er það Jammsession í "pineapple-barnum" og spurning hvort maður kíki ekki á það. Er reyndar soldið kvíðin að fara því ég þekki svo fáa enn sem komð er í FÍH, ok, já ég veit, þekki fullt af fólki en bara svona smá. Reyndar er ég mjög spennt að vita hvernig þetta fer fram hjá þeim. Býst nú samt ekki við að stemmarinn verði sá sami og í DRH í sumar, enda voru nú allir þar bara á stuttbuxunum og flip flopps, með ekki vott af samviskubiti yfir bjórdrykkju því bjórinn var bara á 8 dkr. Samt sem áður býst ég nú við að margir hverjir í FÍH eru lengra komnir músíkantar en krakkarnir sem voru með mér í DRH þannig að útkoman ætti að verða öðruvísi og alveg pottþétt skemmtileg.
Svo finnst mér það voða gaman að ég er loksins búin að finna nafnið á framhaldsmenntuninni sem ég ætla í. Hún heitir Bachelor i musikpædagok eða eitthvað þannig. Massa spennt bara.



mandag, oktober 24, 2005

Áfram stelpur! - II hluti

Nú ætla ég að segja ykkur frá þessum skemmtilega degi. Ég vara við lesningunni. Þið gætuð dáið úr leiðindum, en ef til vill gæti leynst eitthvað skemmtilegt í þessari frásögn. En bara kannski.

Byrjaði þennan bráðskemmtilega dag á því að fara í tónskólann. Eiginlega bara til að koma í veg fyrir samviskubit, því stór hluti skynsemi minnar sagði "sofðu áfram, rúmið er of notalegt" en ennþá stærri hluti skynseminnar sagði "drullaði þér á fætur stelpurófa, það verður aldrei neitt úr þér ef þú æfir þig ekki!". Það varð því úr að ég skakklappaðist niðrá Engjateig.
Leið mín lá svo í hádeginu í Kringluna góðu. Eftir að einhver ömurleg snyrtivörukelling algjörlega hundsaði mig í Lyf og Heilsu hljóp ég upp í Hagkaup þar sem snyrtifræðingur strauk á mér andlitið og sagði mér nákvæmlega hvaða hreinsikrem ég ætti að kaupa mér. Nú þegar ég kom út úr Kringlunni með kók og kjötloku hringdi pabbinn alveg í stresskasti og skipaði mér að koma heim og ná í geisladiska. Jæja, fór ég þá heim, klæddi mig ofurvel og brunaði niðrí miðbæ þar sem ég skilaði geisladiskum til furðufuglanna í 12 Tónum (jeminn, var fyrst að fatta þessa nafngift í þessum skrifuðu orðum!)
Þá tók við smá bið eftir herlegheitunum þar sem ég var með svo gott stæði á Skólavörðustígnum og tímdi ekki að keyra í burtu. Ákvað ég þá að gerast alvöru miðbæjarrotta og skoða í búðarglugga á Skólavörðustígnum, laddla niðrí Te og Kaffi og kaupa mér "teikavei" swiss mokka. Laddlaði svo aftur upp að Hallgrímskirkju, sat á bekk og sötraði kaffið mitt og baðaði mig í vetrarsólinni. Nú, þegar loksins mamma og pabbi komu stökk ég upp í bíl til að hlýja mér. Það gat ég þó ekki gert lengi því ég var send inn í konuhafið til að selja geisladiska. Meðan ég gekk á milli misblíðra kvenna var ég oftar en ekki næstum búin að kalla "DAGBLAÐIÐ VÍSIR!", þó ég hafi aldrei látið verða að því. Lét ég mér nægja að öskra "Áfram Stelpur, nítjánhundruðsjötíogfimmkrónur!". Salan gekk bara ágætlega og þegar ég var loksins komin, ásamt Jennýju, Salbjörgu og Ingu niðrá Ingólfstorg ákvað ég að hætta að selja í smá stund. Stelpurnar voru allar svo æstar yfir þessu að þær neyddu mig til að standa upp á einhverjum stalli. Þegar ég loksins fann steypukant á torginu, stökk upp á hann og ætlaði að athuga hvort ég gæti setið þar eða auglýst diskinn betur, var einhver gömul kona sem ýtti mér niðraf. Ég get svo svarið það, hún varð alveg brjáluð kellingin. Hún var svona um sjötugt, bara eins og amma mín. Amma mín er samt ekki svona ill. Amma mín verður líka bara að sætta sig við það að sjá aldrei neitt því hún er svo lítil! Enda hitti ég Sunnu og kollinn á ömmu þarna einhverstaðar í Austurstrætinu.
Dagurinn endaði svo á því að ég fór ekki í Amerískar pönnsur til Jennýjar, sem mér þótti afar leiðinlegt. Svona verður maður stundum gráðugur í að selja. Ég seldi nokkrar plötur til viðbótar eftir að hafa hlýjað mér í heitum bílnum hjá pabba á Austurvelli.
En núna er klukkan rúmlega 10. Það eru 3 tímar síðan ég kom heim og mér er ennþá kalt inn að beini. Kalt .......kalt...kalt.....bbbrrrrrrrrrr........



søndag, oktober 23, 2005

Áfram stelpur!

Mamma kom með eina góða kenningu um karlmenn áðan. Hún er svona : "Ef þú sérð ekki draslið, þá sérðu ekki launamisréttið!".

Þess vegna hvet ég alla, þá aðallega konur, til að mæta á morgun á Ingólfstorg og kaupa diskinn Áfram Stelpur!. Allir geta tekið gripinn heim og bara átt hann ofaní skúffu, jú eða hlustað á textana og sungið með. Í hvert sinn sem einhver brýtur á ykkur, stelpur, eða jú þið þurfið að semja um launin ykkar, þá takið þið upp diskinn, já eða bara kunnið textana utanað og syngið þá hástöfum.

......svo vil ég líka aðeins gagnrýna nýja slagorðið Konur höfum hátt! Er þetta ekki bara "Girls aloud" eða "Lets get loud". Áfram stelpur! er miklu skemmtilegra baráttuorðasamband!

Og svo eiga náttúrulega allir að mæta í Barbie-bleikum fötum á morgun!



tirsdag, oktober 18, 2005

Sagan af Svartbakinum

Ég er 21 árs gömul. Ég hef einu sinni komist á baksíðu Moggans sem lummubakandi húsfrú í Árbænum. Ég hef einu sinni verið á pínulítilli mynd inni í svörtustu skúmaskotum Moggans með saxófón í hönd á sameiginlegum tónleikum tónlistarskóla Vesturlands. Áhugavert. Með öðrum orðum. Enn hef ég ekki náð heims frægð.
Hins vegar hefur hlutur sem mér finnst tákna einhvern ákveðin hluta æsku minnar, eiginlega þegar ég fer að hugsa um það, allan minn uppvöxt, komist á baksíðu Moggans og náð nánast heims athygli. Þarna stendur hann, bévítans svartbakurinn, í öllu sínu veldi, sperrtur að vanda, með gogginn upp í loftið eins og hann gerir nú alltaf þegar ég birtist og glottir framan í heiminn."Hahaha, ég komst attan á Moggann! Ég sem hef verið lokaður inni á hinum ýmsu skrifstofum, í Búðardal, Ólafsvík og núna Reykjavík, aldrei fengið að vera inni í stofu því Svanhvít og stelpurnar þola mig ekki. Nei ég er ekki nógu flottur fyrir þær, en núna haha, fæ ég að vera attan á Mogganum!! Ekki þið!!!"- gætu verið hugsanir hans akkúrat núna. Það er líklega eins og með "Mig vantar hugmynd"-leirlistaverkið hennar mömmu, sem maður mun jú alltaf tengja við hana, þá mun maður alltaf setja samasemmerki milli svartbaksins og pabbadót. Aldrei hefur mér líkað við furðufuglinn. Sú staðreynd að hann var einu sinni lifandi er líklega það sem hefur alltaf hrætt mig mest. En svona geta hlutir fylgt húsbónda sínum eins og skugginn. Þannig hefur það alltaf verið með Svartbakinn hans pabba. Hann hefur ávallt þurft að fylgja húsbónda sínum, því hann er svo merkilegt fyrirbæri.....eins og það sé ekki nóg af þessum fuglum hérna á þessu landi!
Það sem ég vil annars segja við Svartbakinn er eftirfarandi. "Og hvernig komstu aftan á baksíðu Moggans? Út af kvennafrídeginum sem kemur þér ekkert við. Hvað hefur þú gert? Það eina sem þú getur gert er að standa og glotta á fólk!!!"



torsdag, oktober 13, 2005

Barst eftirfarandi tölvupóstur áðan frá FÍH:

Ágætu Nemendur´.

Rokksaga fellur niður í ár. Verður tekin upp að nýju næsta haust.

Skólaritari


Kannski ekki sú sorglegasta tilkynning sem maður gæti fengið, en samt er orðalagið mjög niðurdregið. Mér gæti ekki verið meira sama, en þegar ég las þetta þá fann ég til með skólaritaranum. Eins og þetta sé alveg voðalegt ástand. Harmfullur tölvupóstur.



tirsdag, oktober 11, 2005

Tveggja Turna Tónlist

Allt síðasta vor skemmti ég mér í æfingapásum yfir byggingu nýrrar hæðar á Grand Hótel í Sigtúni. Tók verkið aðeins nokkra mánuði og fannst mér mjög gaman að sjá nú þegar ég sneri aftur í hornstofuna niðrá Engjateigi hvað hæðin var orðin fín, kraninn farinn og búið að gera svona agalega fínt í kringum húsið. Mér brá því heldur betur í brún í upphafi síðustu viku þegar risavaxnar gröfur mættu og tættu upp allt grasið sem er á milli tónskólans og Grand Hótel. Byrjuðu þær af miklum móð að grafa risa holu. Holan varð alltaf stærri og stærri og ég skildi ekkert hvað væri í gangi. Fékk svo það að vita að nú á að byggja, á þessu litla túni, tvo fjórtán hæða turna! Tvo! Þar með mun allt útsýni yfir Kringlumýrarbrautina hverfa og litla útsýnið frá skólanum yfir að Esjunni. Ekki nóg með það að þegar maður mun taka sér æfingapásu og líta út um gluggann, mun maður líklega sjá aðeins hótelgesti (og Guð má vita á hvaða klæðum!), heldur munu framkvæmdir standa yfir í allan vetur með tilheyrandi látum og hávaða. Fékk ég forsmekkinn af því í dag þegar einn trukkakarlinn mætti á bor og byrjaði að bora í jörðina. Þetta var svona höggbor þannig að ég neyddist eiginlega til að spila alltaf í takt við borinn. Ég á nefnilega mjög erfitt meða að fylgja ekki utanaðkomandi takti og látum. Olli mér þetta miklu hugarangri og mun ég ekki sæl æfa mig á Yamaha flygilinn fyrr en allavegana "höggormurinn" verður farinn og hættur að eitra tónlistina fyrir mér. Fjórtán hæðir, er það ekki soldið magnað stórt? Svona á íslenskan mælikvarða. Ég held þetta verði svona tveir turnar í Reykjavík. Turnarnir Tveir hjá Tónskólanum.



mandag, oktober 10, 2005

Monday, monday.....

Ég veit að þetta blogg hlýtur að vera orðið alveg hundgrautfúlt og leiðinlegt. Alltaf er ég að lofa að koma með svo ótrúlega skemmtilega færslu að annað eins hefur aldrei verið ritað í mannaminnum. En alltaf dettur mér ekki neinn skapaður hlutur í hug að skrifa um þegar ég opna blogger.com.
Þessi mánudagur er hins vegar bara einn venjulegur frekar grámyglulegur dagur. Þrátt fyrir sól finnst mér hann soldið myglulegur. Sérstaklega þar sem það er svo skítkalt úti og ég nenni ekki að læra. Reyndar tók ég eitthvað orkukast áðan og ryksugaði herbergið mitt. Veit ekki hvað kom yfir mig. Kannski var ég með svo mikið samviskubit yfir því að hafa ekki farið út að labba að ég varð að bæta það upp með einhverju, eins og til dæmis að ryksuga. Svo er alltaf frekar gaman að spila á píanóið. Var að endurhljómsetja Karma Police, frekar skemmtilegt. Svo sest ég við tölvuna, les blogg, hlusta á tónlist (sem er reyndar stór partur af náminu mínu), downloda tónlist....allt nema að opna word og læra. Allt, nema að læra. Allt.



lørdag, oktober 08, 2005

Alltaf þegar við kveðjumst.....

Ég er ein heima. Sko alveg aaaalein. Ég sofnaði áðan í mömmsurúmi með sjónvarpið í gangi og það var ótrúlega huggó hjá mér. En þar sem ég er nývöknuð seinnipart dags, sem ég legg nú ekki í vana minn, er soldið þreytt, ein heima og það er kommið soldið rökkur ákvað ég að hlusta á eitthvað ótrúlega, mjög svo væmið. Fyrir valinu urðu nokkrar mismunandi útgáfur af laginu Every time we say goodbye. Þetta er svo afskaplega sætt lag, en samt svolítið sorglegt. Alveg fullkomið fyrir stemmninguna, hvort sem það er með henni Ellu minni eða Oscar Peterson.

Every time we say goobye
I die a little
Every time we say goodbye
I wonder why a little
why the gods above me
who must be in the know
Think so little of me
They allow you to go

When you are near
there's such an air
of spring about it
I can hear a lark somewhere sing about it
there's no love song finer
But how strange the chance
from major to minor
Every time we say goodbye.......

........lifið heil!



tirsdag, oktober 04, 2005

Jæja góða fólk.

Ég hef nú bætt nýjum einstaklingum inn í tenglasafnið. Þar ber fyrst að nefna hann Viðar mág minn. Hann er einn mesti jólasveinn sem ég hef kynnst. Ég mæli eindregið með því að þið lesið síðuna hans reglulega því þar má oft lesa um hinar mestu hrakfallasögur samtímans.
Svo er það nú hann Siggi litli sem er byrjaður að blogga. Siggi er nú kannski ekkert lítill þar sem hann er eldri en ég en þegar ég var lítil var hann alltaf kallaður Siggi litli til aðgreiningar frá öðrum Siggum í Búðardal og að mér fannst til aðgreiningar frá afa mínum, honum Sigga. Hann dvelur nú í Gautaborg með henni Söndru sinni og eru þau hjú að stúdera tónlist þar í borg.
Annars átti ég aldeilis góða jazzhátíðarhelgi. Kenny Garrett var náttúrulega bara snilld og sömuleiðis allt hitt sem ég heyrði og sá. Þessi hátíð var nú svolítið dýr og kostaði svolitla peninga, en það er nú allt í lagi því ég spilaði í skírn um helgina, sem gekk bara ágætlega og var bara skemmtilegt. Hef aldrei gert það áður og mun vonandi koma til með að gera það aftur. Svo komst ég að því að ég á bara slatta af peningum inni eftir sumarvinnuna og er það vel. Sný ég mér nú að íslensku máli að fornu og öðru sem er á dagskránni svona frá degi til dags.

Lifið heil!