Já og jæjaEf það er eitthvað sem hefur fengið mig til að rífast og skammast í þessu þjóðfélagi síðustu árin þá eru það umræður um virkjanir. Þeir sem lesa fyrstu línurnar og hugsa "ohoh, enn einn mótmælandinn" þá skal sá hinn sami lesa lengra, því það get ég nú ekki sagt að ég sé.
Ég las umfjöllun í Mogganum í dag og Fréttablaðinu um hina geysimögnuðu tónleika í Höllinni um helgina þar sem virkjanaframkvæmdum var mótmælt. Við lesturinn rifjuðust upp fyrir mér svo skemmtilegir stjórnmálafræðitímar í MH þar sem áttu sér stað líflegar umræður og venjan sú að ég var alltaf á móti öllum hinum þegar koma að náttúruvernd og virkjanaframkvæmdum.
Tónleikarnir voru víst mjög góðir og allt það. Ég rak augun í mynd af sviðinu þar sem var búið að varpa upp á skjá orðum sem voru eitthvað á þá leið að enn væri hægt að hætta við. Sá sem myndi taka þá ákvörðun um að hætta við Kárahnjúkavirkjun væri enn vitlausari en sá sem kom með hugmyndina að hætta við. Er fólk að tapa glórunni í baráttu sinni geng virkjunum?
Mér þykir það stórmannlegt af öllum sem komu fram að leggja það á sig fyrir málstaðinn. En eins og einn greinarhöfundur í blöðunum í dag benti á hefði Höllin fyllst af fólki þó svo málstaðurinn væri enginn. En víst fólk er að leggja þetta á sig, er þá ekki betra að taka á málunum á skynsamlegan hátt, leggja fram skynsamlegar lausnir og halda sig aðeins á jörðinni. Mér finnst oft í íslensku stjórnmálalífi eins og fólk geti aðeins hallast í tvær fylkingar. Annars vegar fáránlega óskynsamlega með málstaðnum eða fáránlega óskynsamlega á móti málstaðnum.
Mér þætti gaman að vita hvort Damien Rice eða Damon Albarn hafi virkilega kynnt sér aðstæður á Austurlandi, talað við fólk sem býr þar, kynnt sér hvaða aðrar arðbærar lausnir væri hægt að leggja fram landsbyggðinni til handa. Ferðamál er jú einn kostur sem íbúar í 101 Rvk hafa bent á að myndi skila af sér gróða, störfum og einhverri uppbyggingu. En á meðan landið fær aðeins þá landkynningu að allar konur séu lausgyrtar og drykkfelldar ofurfyrirsætur býst ég ekki við mörgum ferðamönnum hingað. Af hverju halda þá íbúar í 101 Rvk því áfram að fara niðrí bæ um hverja helgi, stunda skyndikynni og verða sér og öðrum til skammar. Nú ef íbúum í 101 Rvk er svo annt um náttúruna ættu þeir kannski að berjast fyrir verndun náttúrunnar sem er aðeins nær 101 eins og kannski verndun svæðisins við Úlfarsfell eða Elliðavatn. Staðir þar sem þeir eiga hugsanlega eftir að njóta náttúrunnar, þ.e.a.s ef þeir komast þangað því þeir eiga fæstir bíla. Það er svo flott að búa í miðbænum og ferðast með almenningssamgöngum eða hjóli því þeir eru svo "náttúruverndarsinnaðir", þjappa sem flestum saman á einn stað, fjölga glæpum og almennum óskunda í miðbænum til að hafa þetta nú sem líkast heimsborgarabragnum.
Mér þætti líka gaman að vita hverjir taki mark á þessu tónlistarfólki. Jú, ábyggilega margir. En einhverra hluta vegna á ég mjög bágt með að taka mark á manneskju sem segir að við verðum að vernda náttúruna því þá kannski bara sko verði ekkert súrefni eftir á Íslandi! Björk er fínn listamaður en hún mætti alveg hugsa meira.
Af hverju er aldrei hægt að fara neina skynsamlega leið og gera málamiðlanir? Ég skil ekki þetta pólitíska líf. Getur enginn skilið að virkjanaframkvæmdir og stóriðja er eins og gullnáma fyrir Austurland? Er heldur ekki hægt að skilja, að við getum ekki virkjað allt landið og kannski er best að bakka með einhverjar áætlanir og skoða fleiri möguleika en vatnsfallsvirkjanir. Við getum alveg líka farið leið Dana og bara notað aðeins minna rafmagn!
Reynum að hugsa með höfðinu ekki skapinu fólk!