The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

søndag, januar 29, 2006

250 ára veseniskall

Já, í fyrradag, föstudaginn 27. janúar, hefði Mozart kallinn orðið 250 hefði hann lifað, sem er mjög ólíklegt að hefði getað gerst. Af því tilefni æfa nú nemendur í TSDK Mozart verk af fullum krafti. Verður haldið upp á afmæli hans með sérstakri Mozart/klassískri þemaviku í tónskólanum. Hápunktur hátíðahalda vikunnar, verður þegar nokkri nemendur munu flytja og skipta með sér Kegelstadd-tríóinu. Þetta er mjög skemmtilegt tríó, en ég get nú samt alveg sagt ykkur að píanóleikari síðasta kaflans, Róndósins (sem er by the way lengsti og erfiðasti kaflinn, bara svo það sé á hreinu) er alveg að fá sig fullsaddan af Mozart og skala-runum hans og finnst akkúrat núna, Mozart vera bara veseniskall með vesenisverk.....þó svo að hann hafi verið algjör snililngur og algjör unun að spila hann þegar vel tekst til....en bój ó bój!



onsdag, januar 25, 2006

Ameríka!

Samkvæmt Jóni tónheyrnarkennaranum mínum og Finni kennara í Hörpunni, er ég að fara að læra í Ameríku! Ég á að fara til Californiu þar sem alltaf er sól og ég verð ein af blondínunum sem eru víst gulls ígildi þar um slóðir. Svo á ég að drífa mig til útlanda í nám áður en einhver gómar mig, samkvæmt þeim. Þar verð ég víst svo klár og dugleg að ég fæ niðurfellingu skólagjalda og boðið að kenna með námi og fæ pening fyrir. Svo á ég að bjóða vinum mínum í partý í almenningsgarði og kaupa bara bús og snakk sem er víst svo rosalega ódýrt. Svo eiga mamma og pabbi bara að koma í heimsókn í sólbað. Svo mun ég kynnast svo mikið af fólki og allra þjóða kvikindum. Þar get ég líka nýtt valið mitt í eitthvað annað en tónlist, eins og kvikmyndasögu eins og Jón Hrólfur gerði, ég er samt meira að hugsa um stjörnufræðikúrs (eða eitthvað álíka). Þar er líka hægt að velja svo mismunandi brautir með mismunandi áherslum, klassík, jazz ...what ever! En nú er spurning. Ég þori ekki til Ameríku ein! Hver ætlar að koma með mér?



fredag, januar 20, 2006

Þá sagði hún bara "þú kannt ekki gott að éta"....."nei, þú kannt ekki gott að meta"

Hann elskulegi bróðir minn á stórafmæli í dag. Hann er sextán ára! Hamingjuóskir til hans, þó ég viti að hann nennir aldrei að lesa bloggið mitt. Ég gaf honum bestu afmælisgjöf í heimi.

Þannig var að fyrr í haust fór ég og sótti stóru systur mína um kvöld. Við fórum í sjoppu og keyptum okkur ís. Þegar við komum heim stóð kona ein inni í stofu. Ég og Hibba létum bara eins og ekkert væri, löbbuðum við ísinn inn í stofu og heilsuðum konunni. Hún stóð þarna og rausaði eitthvað helling við mömmu og pabba og svo kvaddi hún og fór. "Veistu hver þetta er?!" æptum við á pabba um leið og hún horfið úr forstofunni. "Ha? já, þetta er hún Steinunn Jóhannesdóttir sem er að gefa út með mér diskinn Áfram Stelpur!" svaraði pabbi. "Nei", sögðum við báðar í kór, "þetta er mamma Jóns Odds og Jóns Bjarna!". Það má þannig segja að við höfum báðar orðið 7 ára aftur þarna nokkur augnablik.

Því fannst mér og mömmu alveg upplagt að kaupa myndina um Jón Odd og Jón Bjarna á DVD og gefa Eggerti. Ég hlakka mikið til að setjast niður með honum og horfa á hana. Er löngu búin að tína spólunni.

...amma Soffía!, Jón Bjarni varð fyrir ruslabíl og steindó!



mandag, januar 09, 2006

Já og jæja

Ef það er eitthvað sem hefur fengið mig til að rífast og skammast í þessu þjóðfélagi síðustu árin þá eru það umræður um virkjanir. Þeir sem lesa fyrstu línurnar og hugsa "ohoh, enn einn mótmælandinn" þá skal sá hinn sami lesa lengra, því það get ég nú ekki sagt að ég sé.

Ég las umfjöllun í Mogganum í dag og Fréttablaðinu um hina geysimögnuðu tónleika í Höllinni um helgina þar sem virkjanaframkvæmdum var mótmælt. Við lesturinn rifjuðust upp fyrir mér svo skemmtilegir stjórnmálafræðitímar í MH þar sem áttu sér stað líflegar umræður og venjan sú að ég var alltaf á móti öllum hinum þegar koma að náttúruvernd og virkjanaframkvæmdum.
Tónleikarnir voru víst mjög góðir og allt það. Ég rak augun í mynd af sviðinu þar sem var búið að varpa upp á skjá orðum sem voru eitthvað á þá leið að enn væri hægt að hætta við. Sá sem myndi taka þá ákvörðun um að hætta við Kárahnjúkavirkjun væri enn vitlausari en sá sem kom með hugmyndina að hætta við. Er fólk að tapa glórunni í baráttu sinni geng virkjunum?
Mér þykir það stórmannlegt af öllum sem komu fram að leggja það á sig fyrir málstaðinn. En eins og einn greinarhöfundur í blöðunum í dag benti á hefði Höllin fyllst af fólki þó svo málstaðurinn væri enginn. En víst fólk er að leggja þetta á sig, er þá ekki betra að taka á málunum á skynsamlegan hátt, leggja fram skynsamlegar lausnir og halda sig aðeins á jörðinni. Mér finnst oft í íslensku stjórnmálalífi eins og fólk geti aðeins hallast í tvær fylkingar. Annars vegar fáránlega óskynsamlega með málstaðnum eða fáránlega óskynsamlega á móti málstaðnum.
Mér þætti gaman að vita hvort Damien Rice eða Damon Albarn hafi virkilega kynnt sér aðstæður á Austurlandi, talað við fólk sem býr þar, kynnt sér hvaða aðrar arðbærar lausnir væri hægt að leggja fram landsbyggðinni til handa. Ferðamál er jú einn kostur sem íbúar í 101 Rvk hafa bent á að myndi skila af sér gróða, störfum og einhverri uppbyggingu. En á meðan landið fær aðeins þá landkynningu að allar konur séu lausgyrtar og drykkfelldar ofurfyrirsætur býst ég ekki við mörgum ferðamönnum hingað. Af hverju halda þá íbúar í 101 Rvk því áfram að fara niðrí bæ um hverja helgi, stunda skyndikynni og verða sér og öðrum til skammar. Nú ef íbúum í 101 Rvk er svo annt um náttúruna ættu þeir kannski að berjast fyrir verndun náttúrunnar sem er aðeins nær 101 eins og kannski verndun svæðisins við Úlfarsfell eða Elliðavatn. Staðir þar sem þeir eiga hugsanlega eftir að njóta náttúrunnar, þ.e.a.s ef þeir komast þangað því þeir eiga fæstir bíla. Það er svo flott að búa í miðbænum og ferðast með almenningssamgöngum eða hjóli því þeir eru svo "náttúruverndarsinnaðir", þjappa sem flestum saman á einn stað, fjölga glæpum og almennum óskunda í miðbænum til að hafa þetta nú sem líkast heimsborgarabragnum.
Mér þætti líka gaman að vita hverjir taki mark á þessu tónlistarfólki. Jú, ábyggilega margir. En einhverra hluta vegna á ég mjög bágt með að taka mark á manneskju sem segir að við verðum að vernda náttúruna því þá kannski bara sko verði ekkert súrefni eftir á Íslandi! Björk er fínn listamaður en hún mætti alveg hugsa meira.
Af hverju er aldrei hægt að fara neina skynsamlega leið og gera málamiðlanir? Ég skil ekki þetta pólitíska líf. Getur enginn skilið að virkjanaframkvæmdir og stóriðja er eins og gullnáma fyrir Austurland? Er heldur ekki hægt að skilja, að við getum ekki virkjað allt landið og kannski er best að bakka með einhverjar áætlanir og skoða fleiri möguleika en vatnsfallsvirkjanir. Við getum alveg líka farið leið Dana og bara notað aðeins minna rafmagn!

Reynum að hugsa með höfðinu ekki skapinu fólk!



torsdag, januar 05, 2006

Gleðilegt ár...o.s.fr.

Já árið bara fór. Ég ætla ekki að koma hérna með eitthvað svona leiðnlegt uppgjör á árinu, ekki það, ég nenni alveg að lesa það hjá mörgum og það getur verið mjög skemmtilegt, en ég ætla bara ekki að vera svo dramatísk í dag þó svo ég hafi fengið tár í augun þegar 2005 hvarf og 2006 kom í staðinn á skjánum undir kórsöng "Nú árið er liðið..." en hver gerir það ekki?

Það er vægast sagt erfitt að koma sér upp úr sleninu og ætla að hætta að vaka fram eftir öllu og sofa fram eftir ölllu. Sérstaklega þar sem ég á eftir að horfa á margar Friends seríur í skápnum góða sem er í næsta herbergi og nóg er til af nammi og kóki.

Reyndi svo að bæta úr málunum aðeins áðan með smá taktmæla-píningu, eins og ég kýs að kalla það. Sömu frasarnir aftur og aftur og aftur, með taktmæli, aðeins hraðar...og aðeins hraðar. Tekur á taugarnar en er samt drulluskemmtilegt með góðri einbeitingu og miklum hraða og leikni í uppskeru.

Gamlárskvöld var mjög skemmtilegt. Mikið hló ég. Vissi samt oft ekki af hverju ég væri að hlæja (ok kannski smá ýkt) ég hló bara með fólkinu yfir Trivial. Skaupið var aulalegt, en gott inn á milli.

Þangað til næst bið ég ykkur vel að lifa.