Um prinsessur og kvenskörunga, dyggðir þeirra og ódyggðirUm daginn las ég bakþankana aftan (attaná (klassískur brandari úr Djöflaeyjunni)) á Fréttablaðinu. Þar var einhver kona, sem ég man nú ekki nafnið á, að velta fyrir sér þeim skilaboðum til ungra stelpna sem felast í gömlu ævintýrunum, eins og í Mjallhvíti, Þyrnirós og Öskubusku. Niðurstaða hennar var sem sagt sú að þær stúlkur sem eru fallegar, undirgefnar, stilltar og prúðar og segja aldrei skoðun sína, fá allt gott og auðvitað eins og í öllum sögunum góða gordjös gæjann. Þetta átti auðvitað að enda allt saman á því að við sættum okkur við lægri laun en karlarnir (gordjös gæjarnir sem verða að vinna fyrir kjólum fallegu undirgefnu öskubuskanna sinna).
Ég fór svona að velta þessu fyrir mér í víðara samhengi. Er þetta í alvörunni það sem okkur er innrætt, eða er þetta bara saklaust gamalt ævintýri? Er það kannski af þessum orsökum sem hlutirnir eru eins og þeir eru? Erum við ennþá að berjast við gamlar hefðir, viðmið og gildi út af gömlum sögum sem auðvitað miðast út frá sínum samtíma en ekki okkar samtíma? Af hverju eru þetta þá ævintýri sem allir kunna og Disney gerir teiknimyndir um?
Mér datt eftirfarandi í hug. Ef litlum stúlkum þætti ekki gaman að vera fínar og flottar og okkur væri alveg sama um það að allar sögur enda á að einhver sé drepinn, gætum við náttúrulega reynt að lesa Íslendingasögurnar fyrir litlar stúlkur í staðinn fyrir Grimm bræður. Í staðinn fyrir að litlar stelpur svífi inn í draumaheiminn eftir sögu um stúlku í fallegum bleikum glimmer kjóla heimi, búandi í höll með þjóna og fallegan góðan prins, góð krúttleg gæludýr, sætar og góðar, þá endar kvöldsagan svona "...en Hallgerður lét ekki undan beiðni Gunnars og lét hann ekki hafa lokk úr hárinu. Gunnar varð því að fara út og verða drepinn. Þá varð Hallgerður ekkja og erfði allt sem Gunnar átti, settist að í Laugarnesi og var sjálfstæður hamingjusamur kvenskörungur til æviloka...köttur út í mýri...o.s.fr."
Eða þá svona " .....þegar Eyjólfur sagði þetta gekk Auður að honum og sló hann utan undir og sagði "skaltu það muna vesæll maður meðan þú lifir, að kona hefur barið þig".....þar fékk Eyjólfur að kenna á því. Eyjólfur gafst samt ekki upp því hann varð svo reiður við þetta og lét drepa Gísla, hann varð svo særður í átökunum við menn Eyjólfs að hann dó af sárum sínum, sannkölluðum hetjaudauða......"
Þetta væru nú aldeilis saklausar fallegar sögur handa litlu telpunum og myndi ala upp heila kynslóð sem lætur sko ekki vaða yfir sig. Hvaða áhrif hefði þetta á litlu drengina? Aukaverkanirnar væru samt sem áður kannski óöld í íslensku samfélagi. Sturlungaöld nr. 2.
Engu að síður, sé ég þetta ekki fyrir mér. Ef fallegu prinsessurnar frá miðöldum eru slæmur kostur, myndi ég samt velja þær sögur til að lesa handa dóttur minni, af tvennu illu. Er ekki betra að vilja vera sæt, falleg og góð manneskja heldur en ákveðin og frek, jafnvel þjófótt og ótrygglynd? Auðvitað má draga mikinn lærdóm af þessum sögum líka. Eins og þolinmæði þrautir vinnu allar, eða flestar. Þyrnirós var þeirra allra þolinmóðust. Hundrað ár er langur tími. Dugnaður er líka dyggð, Öskubuska var mjög dugleg stúlka. Mjallhvít líka.
Ég veit ekkert skemmtilegra, sætara eða saklausara en lítil stelpa sem segist ætla að vera prinsessa þegar hún er orðin stór. Það er einmitt það sem ég ætla að verða þegar ég verð stór......prinsessa!