The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

mandag, maj 29, 2006

Helvítis framsókn og djöfuls íhaldssvikarar.......

....ég marg biðst afsökunar á því að vera að blóta á þessari síðu en ég get bara ekki annað. Þessi meirhluti þýðir það að tónlistarskólamálin verða ekki tekin upp strax í menntanefnd. Algjört rugl! Hvað ætla framsóknarmenn að gera í þeim málum, þeir hafa alls enga skoðun á þeim!

Annars er best að skrifa hér nýja færslu því hún móðursystir mín er að fara aftur vestur á Patró og þegar hún er búin í sumarfríinu sínu mun hún heimta að ég verði dugleg að blogga. Þannig að Elsa Nína mín, þessi færlsa er handa þér!

Ég hef samt sem áður ekkert að segja. Þessir dagar eru bara skemmtilegir og núna er Árbæjarsafn allt að vakna til lífsins á ný. Aftur tekur við ströng seta við prjónana og öskur á krakkahópa og "besservisser" taktar við útlendingana. Stuð og stemmning!



tirsdag, maj 23, 2006




Ég ákvað breyta smá til í herberginu og keypti mér rúmteppi í Jysk fyrir helgi og braut fermingar-bútasaumsteppið mitt varlega saman og setti í geymslu. Mér sýnist apinn minn bara vera ánægður með þetta!



mandag, maj 22, 2006

Furðulegheit....

Þessir dagar eru frekar furðulegir. Ég hef svo ótrúlega mikinn tíma til að gera ekki neitt. Ég er svona að reyna að spila....þrífa....taka til....skipuleggja...hanga í tölvunni...spila aðeins meira...slæpast. Þetta er svakalegt. Ég er með samviskubit yfir því að þurfa ekki að vera neins staðar!! SAMVISKUBIT! Ég er í fríi þangað til í næstu viku. Ég er alveg svakaleg. Ég þarf pottþétt að passa mig að njóta þess að vera í fríi því manneskur sem ekki njót frísins fara yfir um einn daginn úr stressi. En svona er maður nú furðulegur. Finnst alltaf eins og maður þurfi að vera einhversstaðar.

Núna ætla ég að fara og njót frísins míns og fara í bíó. Á morgun ætla ég svo að vakna og æfa mig. (Maður verður líka að nýta tímann í eitthvað).

Hallelúja!

Dav, dav Flemming!



fredag, maj 19, 2006

Alveg er ég hætt að skilja þetta......

Þegar Björn og Benny skrifuðu útsetningar að Abba lögunum sínum er eins og þeir hafi uppgötvað áður óþekkta hljóma eða hluti í tónlist. Svona eins og þegar Bach uppgötvaði að tónarnir ættu að vera tólf...eða þegar Schönberg uppgötvaði að maður þyrfti ekki að skrifa í tóntegund og gæti raðað tólf tónum upp í óreglulegri og ósamstæðri röð, helst með mikið af stækkuðum ferundum. Það sem Svíarnir uppgötvuðu var að það væri hægt að búa til aukarödd í lögin sem byrjar á hreinni ferund hljómsins og gengur svo niður skalann niðrá grunntón, alltaf á -oginu, eða offinu. Leikurinn endurtekur sig svo í næsta hljómi, hvort sem hann er dúr eða moll.
Þessari uppgötvun hafa Svíar verið guðs lifandi fegnir og rækilega eignað sér hana. Eða hvað?
Svo virðist reyndar sem aðeins lagahöfundar í Svíþjóð sem semja lög til að senda í Eurovision nýti sér þessa uppgötvun, en aðrir ekki. Enda er þetta stórmerkileg uppgötvun, að byrja á ferundinni í aukaröddinni! Svo virðist einnig sem öll lög sem eru samin samkvæmt þessari formúlu, eða innihalda þessa uppgötvun, endi sem framlag Svía í Eurovision!
Reyndar eru það ekki aðeins Svíar sem einhverra hluta vegna geta ekki samið júróvisjón lag án þessa patterns (uppgötvunar) heldur Norðmenn og Íslendingar líka. Núna í síðastliðnum febrúar varð mjög vinsælt lag á Íslandi sem keppti í forkeppninni hér og ég veit ekki af hverju en mér dettur alltaf Abba í hug! Lagið góða söng Friðrik Ómar og líkist byrjun lagsins, óneitanlega mikið á Abba. Einu sinni gerði ég líka þá skissu að niðurhala af netinu lagi sem tók þátt í forkeppni Norðmanna sem komst reyndar ekki áfram....ég er að segja ykkur það, uppgötvun Björns og Benny var líka í því lagi!
Framlag Svía í ár er engin undantekning. Carola kemur núna í þriðja sinn og syngur Abba-lag, þó svo það sé ekki Abba lag. Lagið er fjandi gott. Bara soldið stolið .....og soldið týpískt.

Góðar júróvisjón stundir.



søndag, maj 14, 2006

Jazzhljómfræði og ímyndaðir bræður

Ég minnist þess að hafa vælt mikið á þessu bloggi um hljómfræðina. Núna er það jazzhljómfræðin. Hún er nú reyndar ekki jafn stressandi og hin hljómfræðin en engu að síður verður maður að kunna þetta og ég hef satt best að segja ekki efni á að fá lágt í jazzhljómfræðinni þar sem stefnan er að sanna fyrir yfirmönnum FÍH að ég sé frábær nemandi....öööööö... En þar sem ég nenni nú varla að læra fyrir prófið á morgun ákveð ég að blogga. (ætla að fara yfir laglínugreininguna í kvöld)

Í ljósi pistils hennar Svövu Maríu um ímyndaða vini hennar Jóhönnu Bjarkar á bloggi Kubbanna, ætla ég að segja ykkur litla sögu.

Þannig er mál með vexti að þegar ég var lítil stúlka í Búðardal átti ég einhvern svona leyndan draum um að eiga stóran bróður. Aðrir krakkar áttu stóra bræður, Sunna frænka átti einn (og ekki gat ég kallað stóra bróður minn Svan því það var of augljóst...nafnið var líka upptekið), Lilja frænka átti heilt fótboltalið af stórum bræðrum, Jenný átti einn, Anna átti einn, Víðir átti tvo og Benni átti líka stóran bróður. Það varð því einhvernveginn úr að ég bjó mér til stóran bróður. Merkilegt nokk, hét hann Óli (alveg eins og bróðir hans Benna) og hvort hann leit ekki alveg eins út og Óli bróðir hans Benna. Óli stóri bróðir var rosalega góður í fótbolta.
Nú man ég voða lítið eftir honum annað en það sem ég hef nú þegar sagt. Ég man hins vegar eftir því að alltaf þegar Elsa Nína og Jónas komu í heimsókn var Óli stóri bróðir ekki heima, hann var ýmist úti í sjoppu, í fótbolta eða á geðveikrahæli. Ég á mér meira að segja einhverja óljósa mynd af Elsu Nínu í dyragættinni á eldhúsinu á Búðarbrautinni að yfirheyra mig um Óla stóra bróður þar sem ég stend frammi á gangi að reyna að afsaka fjarveru hans.
Ástæðan fyrir því að Óli stóri bróðir hefur einmitt skotið upp kollinum aftur og mér dettur hann oft í hug er sú að Óli stóri bróðir hans Benna er orðinn frægur kvikmyndagerðamaður og er alltaf í sjónvarpinu. Benni er líka orðinn frægur kvikmyndagerðamaður. Þannig að þegar ég heyri minnst á þennan mann dettur mér alltaf ímyndaði stóri bróðir minn í hug. Mér finnst þetta jafnvel óþægilegt, reyndar er þetta bara hlægilegt og fyndið.
Ekki man ég samt eftir því að hann hafi verið litli bróðir minn eins og Heiðbjört heldur fram að hann hafi stundum verið. En það getur vel verið. Ég man náttúrulega afar lítið eftir þessu. En allt ofangreint man ég.
Þegar ég var nú komin til einhvers meira vits, hætti ég þessari vitleysu og hef greinilega reynt að sætta mig við að eiga einn lítinn bróður og einn stóran frænda. Enda var frændinn ekki af verri endanum. Körfuboltamaður og sjarmör með meiru. Það þótti mér afar skemmtilegt og man eftir að hafa sagt vinkonum mínum að Svanur frændi ætti ábyggilega fimm kærustur! .

Bara við að skrifa þetta hef ég skemmt mér alveg konunglega við upprifjunina!



mandag, maj 08, 2006

Ljóð dagsins

Sólin dregur mig út í ljós sitt

allt sem ég þarf að gera inni

situr á hakanum.



torsdag, maj 04, 2006

Um prinsessur og kvenskörunga, dyggðir þeirra og ódyggðir

Um daginn las ég bakþankana aftan (attaná (klassískur brandari úr Djöflaeyjunni)) á Fréttablaðinu. Þar var einhver kona, sem ég man nú ekki nafnið á, að velta fyrir sér þeim skilaboðum til ungra stelpna sem felast í gömlu ævintýrunum, eins og í Mjallhvíti, Þyrnirós og Öskubusku. Niðurstaða hennar var sem sagt sú að þær stúlkur sem eru fallegar, undirgefnar, stilltar og prúðar og segja aldrei skoðun sína, fá allt gott og auðvitað eins og í öllum sögunum góða gordjös gæjann. Þetta átti auðvitað að enda allt saman á því að við sættum okkur við lægri laun en karlarnir (gordjös gæjarnir sem verða að vinna fyrir kjólum fallegu undirgefnu öskubuskanna sinna).
Ég fór svona að velta þessu fyrir mér í víðara samhengi. Er þetta í alvörunni það sem okkur er innrætt, eða er þetta bara saklaust gamalt ævintýri? Er það kannski af þessum orsökum sem hlutirnir eru eins og þeir eru? Erum við ennþá að berjast við gamlar hefðir, viðmið og gildi út af gömlum sögum sem auðvitað miðast út frá sínum samtíma en ekki okkar samtíma? Af hverju eru þetta þá ævintýri sem allir kunna og Disney gerir teiknimyndir um?
Mér datt eftirfarandi í hug. Ef litlum stúlkum þætti ekki gaman að vera fínar og flottar og okkur væri alveg sama um það að allar sögur enda á að einhver sé drepinn, gætum við náttúrulega reynt að lesa Íslendingasögurnar fyrir litlar stúlkur í staðinn fyrir Grimm bræður. Í staðinn fyrir að litlar stelpur svífi inn í draumaheiminn eftir sögu um stúlku í fallegum bleikum glimmer kjóla heimi, búandi í höll með þjóna og fallegan góðan prins, góð krúttleg gæludýr, sætar og góðar, þá endar kvöldsagan svona "...en Hallgerður lét ekki undan beiðni Gunnars og lét hann ekki hafa lokk úr hárinu. Gunnar varð því að fara út og verða drepinn. Þá varð Hallgerður ekkja og erfði allt sem Gunnar átti, settist að í Laugarnesi og var sjálfstæður hamingjusamur kvenskörungur til æviloka...köttur út í mýri...o.s.fr."
Eða þá svona " .....þegar Eyjólfur sagði þetta gekk Auður að honum og sló hann utan undir og sagði "skaltu það muna vesæll maður meðan þú lifir, að kona hefur barið þig".....þar fékk Eyjólfur að kenna á því. Eyjólfur gafst samt ekki upp því hann varð svo reiður við þetta og lét drepa Gísla, hann varð svo særður í átökunum við menn Eyjólfs að hann dó af sárum sínum, sannkölluðum hetjaudauða......"
Þetta væru nú aldeilis saklausar fallegar sögur handa litlu telpunum og myndi ala upp heila kynslóð sem lætur sko ekki vaða yfir sig. Hvaða áhrif hefði þetta á litlu drengina? Aukaverkanirnar væru samt sem áður kannski óöld í íslensku samfélagi. Sturlungaöld nr. 2.
Engu að síður, sé ég þetta ekki fyrir mér. Ef fallegu prinsessurnar frá miðöldum eru slæmur kostur, myndi ég samt velja þær sögur til að lesa handa dóttur minni, af tvennu illu. Er ekki betra að vilja vera sæt, falleg og góð manneskja heldur en ákveðin og frek, jafnvel þjófótt og ótrygglynd? Auðvitað má draga mikinn lærdóm af þessum sögum líka. Eins og þolinmæði þrautir vinnu allar, eða flestar. Þyrnirós var þeirra allra þolinmóðust. Hundrað ár er langur tími. Dugnaður er líka dyggð, Öskubuska var mjög dugleg stúlka. Mjallhvít líka.
Ég veit ekkert skemmtilegra, sætara eða saklausara en lítil stelpa sem segist ætla að vera prinsessa þegar hún er orðin stór. Það er einmitt það sem ég ætla að verða þegar ég verð stór......prinsessa!



mandag, maj 01, 2006

Prófalestur

Mér finnst 20. aldar tónlist leiðinleg. Sorrý. (Sumir eru fínir aðrir ekki sem dæmi var Milton Babbitt algjör sýruhaus).
Þó svo þessi prófalestur sé frekar boring þá er þetta ekkert á við undanfarin tvö ár. Mikið er ég fegin að vera laus við háskólann. Mikil lifandi ósköp.

Um helgina hitti ég bekkjarfélaga minn í jazzhljómfræði. Sá nemandi, stelpa, var alveg fáránlega sammála mér í því að þessi hljómfræði er ekkert rosa létt. Mikið var ég fegin því líka. Þá eru fleiri sem eru að klóra sér í hausnum yfir því vorprófi.
Talandi um vorpróf. Ég er ekki komin með Brahms utanbókar og á að flytja það 12. maí á tónleikum og svo á vorprófinu mínu í kringum 20. maí. Mér finnst ég frekar skrúvd!