The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

mandag, juli 31, 2006

Ég er pirruð.......

...ég er pirruð á Andra Snæ Magnasyni fyrir að hafa látið líta út fyrir að Draumalandið væri hlutlaus umfjöllun um spillingu, uppgang, kosti og ókosti íslensku þjóðarinnar. Svo var nefnilega ekki. Bókin endaði á endalausum fullyrðingum og hlutdrægnum skoðunum gegn virkjanaframkvæmdum á Íslandi. Ég er svo pirruð yfir því að eftir að hafa lesið bókina er ég jafn heilaþvegin af náttúruvernd og ungir menntskælingar eru heilaþvegnir af að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eftir að flokkurinn gaf þeim bjór. Bókin er svo sniðug.....til að byrja með. Svo hlutlaus umfjöllun um asnaskapinn í Íslendingnum í nútíma vestrænu samfélagi. En svo breytist hún þvert á mitt geð. Andri fer ekki í felur með hvar hann stendur í skoðunum um virkjanaframkvæmdir. Af hverju getur enginn nema jaðrfræðikennarinn minn úr menntaskóla, talað um málið út frá öllum sjónarhornum? Eina ástæðan fyrir því að hún vildi ekki tala um málið af hlutdrægni var sú að hún, sem kennari, vildi ekki láta í ljós sína skoðun, heldur benti okkur á jarðfræðilega ókosti, benti okkur á alla hlutina í skólastofunni sem eru úr áli, skoðanir Ausfirðinga og þar eftir götunum.
Eftir lesningu bókarinnar er ég á móti virkjanastefnu sjórnvalda. Ég er ekki á móti virkjun og álveri fyrir austan. Uppgangurinn er mikill. Það er vel! En ég hafði ekki kynnt mér stefnu sjórnvalda. Samkvæmt bókinni á að gjörsamlega blóðnýta alla orku á Íslandi undir mengandi iðnað. Fyrir nokkrum árum voru hjón í matarboði hjá mömmu og pabba. Kárahnjúkar komu þá við sögu...mikið. Ég lét þau orð falla að ég vildi alveg virkjanir og álver "bara ekki mikið af þeim". Allir fóru á hlæja! Hahahahah, já börnin! Þá var ég svona 17 ára. Mér leið eins og litlum vitleysingi. Oftar en ekki hef ég upplifað þessa tilfinningu. "Hvað veit hún?, svona ung!". Ég vissi þá að þessi setning hefði verið heimskuleg og ég væri bara lítil stelpa sem lét mér dreyma um einhvern gullin meðalveg, sem er auðvitað ekki til í heimi fullorðinna. Eða hvað?
Eftir að hafa lesið Draumalandið er ég aftur komin á þessa skoðun. Hér má nýta orkuna, reysa stóriðju úti á landi þar sem hægri flokkarnir eru hvort eð er búnir að eyðileggja helsta atvinnuveg landans með asnalegu kvótakerfi. En er þá þar með sagt að við verðum að nýta alla mögulega orku á landinu. Virkja allar ár? Reisa álver í hverju bæjarfélagi? Miðað við hversu mikla orku Kárahnjúkavirkjun mun framleiða, er stefna stjórnvalda að auka þessa orku á við fimm eða sex Kárahnjúkavirkjanir. Ef þið skilduð ekki þessa setningu skulið þið bara lesa bókina. Þannig að á næstu árum, er stefnan að reisa virkjanir á við fimm eða sex Kárahnjúkavirkjanir, ef ekki meira, og álver á við álverið á Reyðarfirði líka...sem sagt fimm til sex álver. Ég held ég sé að fara nokkurn vegin með réttar tölur. Mér blöskraði við þessa lesningu. Hvað er að? Getum við ekki framleitt neitt annað en ál? Hvar á þetta að enda?
Er ekki nóg að reisa álver til að bjarga Austfjörðum. Gætum við ekki virkað smá á Vestfjörðum og reist einhverja aðra starfsemi en álver? Þá gæti orðið uppgangur þar! Er það ekki nóg? Þurfum við að leysa of mikið af eiturefnum út í okkar hreina loft. Hversu lengi í viðbót er hægt að segja að Ísland sé með hreinustu löndunum???



torsdag, juli 27, 2006



Þessi er kúl!

Svo var ég að lesa það á netinu að hann á sama afmælisdag og hann pabbi minn...og Reykjavíkurborg!



mandag, juli 24, 2006

Lands míns föður, landið mitt......

..var það land sem ég varð aftur soldið skotin í um helgina.
Á föstudaginn skellti ég mér í eitt stykki vinnupartý. Eftir of mikla bolludrykkju kvöldið áður brunaði ég sem leið lá til Akureyrar á laugardeginum. Ferðinni var heitið á Django Djass Festival. Mætti ég þar sem dyggur stuðningsmaður og áhangandi tríósins Mímósa. Tríóið stóð sig frábærlega og sló í gegn á Grand Finale festivalsins í Sjallanum. Ekki furða þar sem ég hafði klappað þeim á bakið og æft mjög góða hóphvatningu fyrir drengina....sem er bara algjör lygi. Það eina sem ég gerði var að spreyja á þeim hárið með hárspreyinu sem ég keypti (reyndar þurfti Leifur að borga það þar sem ég gleymdi debetkortinu mínu) í Borgarnesi.
Í gær var svo brunað aftur heim í þessu bara blíðskaparveðri, sem er einmitt kannski ástæðan fyrir því að okkur Leifi fannst þessi leið alveg einstaklega falleg og furðuðum okkur á því af hverju við erum alltaf að bölva því að búa á þessu landi. Í gær var það allavegana frábært. Hina 300 dagana getur það verið einstaklega pirrandi.

Sól, þjóðvegurinn og Jagúar er bara blanda sem svíkur engan........ENGAN!



tirsdag, juli 04, 2006

Jeeeessssss!!!!!

......ég fékk hundrað kall í þjórfé frá Svía í dag!!!!

Í tilefni af því ætla ég að kaupa mér kókflösku í fríinu mínu!



mandag, juli 03, 2006

Það var eitt sinn vitur maður......

...sem sagði að oft fylgdi fríum stress.

Þetta er reyndar algjör lygi. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi sagt þetta, en ég get samt alveg ímyndað mér það. Reyndar heyri ég alveg afa minn (apa) fyrir mér segja þetta.
Þannig er mál með vexti að ég er að fara í frí. Ég er ótrúlega spennt. Ég þarf að vakna klukkan fjögur á miðvikudagsmorgun og flýg út korter í átta. Mamma og pabbi og Gaurinn, bíða eftir mér í sólinni í súmarbústaðnum okkar í DK. Einnig bíður Brad Mehldau Trio-miðinn eftir að vera notaður þann 13. júlí. Ég er búin að þvo rúmfötin mín og setja hreint á rúmið. Ég er búin að tína fram flest fötin sem ég ætla að hafa með. Þrífa dökka vél og er núna í þessum skrifuðu orðum að bíða eftir ljósu vélinni svo ég geti hengt upp og farið að sofa. Á morgun kem ég heim eins og venjulega frá safninu rúmlega fimm. Þá þarf ég að brjóta saman öll hreinu fötin og ákveða hvað af þeim fer með ofan í tösku. Taka til snyrtidótið og skartgripi, borða með Hibbu, hitta aðdáendur og bruna upp í Hrafnhóla (Otradal) rúmlega tólf á miðnætti til að segja hæ við ömmu og bruna svo til baka til að sofna. Ég hugsa að þetta verði soldið strembið að ætla að reyna að ná að sofa í rúma þrjá tíma. Svo sækja á mig hugsanir eins og, ég mun aldrei geta sofnað, ég get ekki sleppt að hitta ömmu, hef ekki hitt hana í rúman mánuð, missi ég af flugrútunni, get ég keyrt niðrá BSÍ svona snemma um morgun, tek ég of mikið af fötum með mér, er ég með allt með mér...o.s.fr. Ég get ekki neitað því að þessar hugsanir þykja mér frekar stressandi og íþyngjandi. Það er því ekki laust við að mínu fríi fylgi stress.

...ég vil samt taka það fram að ég er nýbúin að fá svo fáránlega mikið útborgað (reyndar fyrir fáránlega mikla vinnu) að ég mun hafa litlar áhyggjur af eyðslu í þessu fríi.

Að lokum vil ég óska ykkur góðra tíu næstu daga í júli á Íslandi.

Hilsen prinsesse Ingrid.