The Sound of Music

Allt um ekkert og ekkert um allt......

onsdag, april 25, 2007



Fílamaðurinn

Eftir endajaxlatöku á mánudaginn, tók að hreiðra um sig einhverskonar fílamaður eða Quasiomoto í andliti mínu. Ekki út af mikilli bólgu, ég fór sko til kjálkaskurðlæknis sem gerði þetta voðavel. Nei, það var öllu heldur vegna stera sem áttu einmitt að draga úr bólgunni. Gott og vel. En í staðinn varð ég bara eins og risastór rauð blaðra í framan. Einnig vegna mikilla verkja tók ég soldið mikið af verkjalyfjum og fór hálf dópuð í skólann. Ætlaði að vera svo hörð af mér, en endaði með því að skilja bílinn eftir í skólanum og láta keyra mig heim.
Svona leit sem sagt fílamaðurinn út í morgun fyrir meikun. Þetta lítur kannski ekkert svo hræðilega út, en trúið mér, þetta var mun verra í gær.
Á hinni myndinni sést hvað ég get samt verið sæt í nýja jakkanum mínum, þegar ég er ekki á sterum!



fredag, april 13, 2007

Absúrd

Hafið þið einhverntíman upplifað stund, augnablik kannski, sem virðist svo absúrd og óraunverulegt? Ekki af því að það er eins og þið séuð í einhverjum ævintýraheimi, heldur vegna þess að ykkur hefði aldrei getað dottið í hug að það sem þið upplifðuð mynduð þið yfir höfuð upplifa nokkurntíma. Jæja, kannski soldið flókið, en ég er bara að reyna að koma tilfinningum mínum í orð.
Þannig er mál með vexti að í morgun keyrði ég bara þessa venjulegu leið meðfram Suðurlandsbraut í átt að Engjateigi. Það sem vakti upp þessa "absúrd" tilfinningu var það sem blasti við á risastórri mynd, í glugga á húsi í Skeifunni. Alveg beint fyrir augum allra sem versla í Skeifunni, keyra eftir Suðurlandsbraut og þeira sem búa í Heima-hverfinu, brosti pabbi minn sínu breiðasta.
Þetta vakti upp einhverja undarlega hugsun. Þetta var svo......fáránlega fyndið. Díses!



onsdag, april 04, 2007

Páskafrí

Að þessu sinni blogga ég héðan af Selfossi. Við njótum nú páskafrísins með páskaöli, kexi, ís, göngutúrum, Sibelius, sjónvarpinu og Pússlu og Mirru.
Við skruppum líka á Selfoss á sunnudaginn en fórum strax til baka um kvöldið. Þá fórum við upp í Þrastaskóg í mikinn og langan göngutúr með litlu dömurnar. Þær skemmtu sér auðvitað konunglega við að þefa af öllu og hlaupa út um allt. Við komum svo aftur í gær til að eyða hér nokkrum dögum í afslappelsi og lærdómi. Ég skellti mér með Birgit í Eyrarbakkafjöru með litlu dömunum auðvitað. Svo áðan fórum við þrjú, ég, Leifur og Birgit, aftur í Eyrarbakkafjöru, nema aðeins lengra frá Eyrarbakka. Já, ég kann ekki alveg að útskýra þetta svæði hér fyrir austan sem ég þekki svo lítið. Á morgun förum við vonandi í annan göngutúr upp á Ingólfsfjall eða, að ég vona, í Fljótshlíð, og getum þá séð í leiðinni hvernig gengur með sumarbústaðinn.
Það má því með sanni segja að þetta páskafrí er afar indælt. Það mun svo ná toppinum á laugardaginn, þegar ákveðin manneskja verður hundgömul (miðað við Leif) og verðu því margt um manninn í Fiskakvíslinni. Mikið verður það nú gaman. Svo er aldrei að vita nema maður fái páskaegg (og ef til vill eitthvað í búið á laugardaginn ;) )
Kannski set ég inn einhverjar myndir úr páskafríinu, ef einhverjar myndir verða teknar.

Gleðilega páska !!